Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2011, Síða 8
8 – Sjómannablaðið Víkingur
Fáránlega hættulegur vinnustaður
Haukur: Ég varð aldrei togarajaxl. Mér fannst dekkið á síðutog-
ara vera fáránlega hættulegur vinnustaður, hvort sem verið var
að taka trollið eða að láta fara. En ég er þakklátur fyrir mína
litlu togaramennsku, því í fyrsta túr á togara sjóaðist ég. Ég
losnaði við sjóveikina, sem ávallt hafði plagað mig fram að því.
Þá leið mér í fyrsta sinn vel á sjó, og það var ótrúlega góð til-
finning. Mín sjómennska byrjaði nefnilega ekki vel. Ég var á
síld sextán ára gamall og alltaf að drepast úr sjóveiki og var
óspart látinn vita, að svona langvinn sjóveiki væri ekki annað
en ímyndun og aumingjaskapur. Þær upplýsingar hjálpuðu mér
nú ekkert; um haustið var ég orðinn grindhoraður og að sögn
læknis veikur af bætiefnaskorti. Ég ældi miklu galli það sumar
og hét því, að hvað sem ég gerði, skyldi ég aldrei aftur eyða
sumri norður í Dumbshafi. Við það hef ég staðið, en ég var þó
nokkuð til sjós – á veturna – á bátum og togurum, þar til ég
söðlaði um og fór í iðnnám, tuttugu og fjögurra ára gamall. Ég
á margar góðar minningar frá þeim tíma, þótt ég líti alltaf á sjó-
mennskuna sem millibilsástand. Það getur fylgt því þó nokkur
veiðigleði að gogga af línu, þegar vel fiskast. Og það er ekki
leiðinlegt að draga net af spili. Sá, sem dregur af stendur upp-
réttur og getur virt fyrir sér umhverfið. Hvaða umhverfi? –
kann einhver að spyrja. Jú, sjóinn síkvikan, himininn, bjartan
eða dimman og landið í fjarska. Myndin er sífellt ný. Ég er feg-
inn, að ekki var farið að byggja yfir dekkin á vertíðarbátum,
þegar ég var til sjós.
Þegar kastað var í fyrsta sinn í Nýfundnalandstúrnum á
Óla Jóh. var ég látinn húkka messiserakróknum á forvírinn,
kannski vegna þess að ég var svo langur. Ná þurfti togvírunum
saman í krókinn, svo hægt væri að hífa þá upp í blökkina, taka
í blökkina. Ég hallaði mér að lunningunni, studdi annarri hend-
inni utan á hana og sveiflaði króknum út yfir forvírinn, dró svo
í, þar til krókurinn hafði húkkazt á vírinn. Þetta tókst nú ágæt-
lega, og mér hefur áreiðanlega fundizt ég vera bara nokkuð
efnilegur á togara, svona flinkur að húkka forvírinn og frelsaður
af sjóveikinni. En þá heyrðist kallað ofan úr brú: „Brynjólfsson,
viltu koma upp til okkar og tala við okkur“.
Þeir voru þá staddir þar báðir, Torfi, skipstjóri, og Kjartan,
stýrimaður. Þeir sögðu mér alvarlegir á brún, en vinsamlegir, að
þetta vildu þeir ekki sjá mig gera aftur, að styðja hendinni utan
á lunninguna. Forvírinn gæti alltaf slegizt í hana og tekið hend-
ina af! Kjartan og Torfi voru þannig yfirmenn; ekki mikið fyrir
öskrin, en e.t.v. má ráða gildi svona aðferða við að leiðbeina
mönnum af því, að ég man atvikið enn, kominn á áttræðisald-
urinn.
Í þessum túr voru þrír Haukar á Óla; Claessen úr Reykjavík,
Magnússon frá Næfurholti, frekar en Galtalæk, og ég. Við vor-
um allir á sömu vakt. Því var stundum gripið til þess ráðs að
ávarpa hvern og einn svona virðulega með eftirnafninu.
Benedikt: Tryggvi Ófeigsson lýsti því í endurminningum
sínum, hvernig hann fann það á togvírunum, hvort mikið væri í
trollinu, þá styttist bilið á milli víranna. Og það finnst vel á
vírunum, þegar hlerarnir eru komnir í botn, ekki sízt þegar
togað er á hörðum botni. Vaktformaður, annar stýrimaður eða
bátsmaður, tóku gjarnan á vírunum, þegar trollið var komið í
botn og létu vita, að allt væri með felldu. En ef sást til háseta
halda um togvírinn og verða spekingslegur á svipinn, mátti gera
ráð fyrir, að sá færi brátt að tala um sjómannaskólann. Nú skilst
mér, að menn kíki niður í trollið í gegnum myndavél.
Slegið var af til að hífa, þó mátti ekki minnka toghrað-
ann um of, þá gat trollið óklárast og allt farið í flækju. Kæmi
trollið óklárt upp, þá var mikið híft og slakað og bölvað. Til-
vísun í slíkt vesen eru ummælin: „Hífa, slaka, gera einhvern
andskotann!” — sem einhver skipstjórinn átti að hafa öskrað
yfir hafaríið á dekkinu hjá sér. Annars sá ég aldrei nein vand-
ræði í líkingu við þær stórfurður, sem ég heyrði sagt frá eins og
Ef matarkistan hefði bara komið upp?
- Rætt við Benedikt Brynjólfsson, togarasjómann
- Aðrir þátttakendur: Haukur Brynjólfsson og Ólafur Grímur Björnsson
– Fjórði hluti –
Trollið bætt. Miklar sögur voru sagðar af óklárum trollum og veseni í
kringum þau.