Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2012, Blaðsíða 38

Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2012, Blaðsíða 38
38 – Sjómannablaðið Víkingur ég væri með barnið í veiðitöskunni því hvergi bar á þriðja far- þeganum. „Nei, hann komst því miður ekki með,“ svaraði ég og fór inn í veiðideild bensínsölunnar til að skoða spinneraúrvalið. Og svo keypti ég tvær bleikar Lippur og leið hálfskömmustulega, eins og ég væri að kaupa smokka í apóteki. Við ókum nú sem leið lá í átt til Grenivíkur og síðan áleiðis upp á Leirdalsheiðina, spöldrjúgan fjallveg sem liggur loks ofan í Hvalvatnsfjörð. Mér leist ekki á blikuna því nú gerði hríðarveður þótt Veður- stofa Íslands hafi spáð sólskini og blíðu. Snjóinn skóf ofan af fjöllunum og hann settist í troðninginn sem hlykkjast yfir heið- ina. Smám saman varð færðin þyngri og ég spurði félagann hvort ekki væri réttast að snúa við. Hann tók það ekki í mál, þráaðist við, talaði um matarkistu og lúsaðist þessa leið. Eftir um fjögurra tíma ferðalag vorum við komnir ofan í dali Hval- vatnsfjarðar og við okkur blasti áin. Félaginn taldi víst að sjóbleikjan væri komin upp úr ósnum og farin að hreiðra um sig á breiðunum fremst í dalnum. Hann vildi því byrja þar og báðir vorum við mjög spenntir. Fljótlega fóru þó að renna á mig tvær grímur því aldrei kom fiskur í flug- una og þarna var ekki sporð að sjá. „Þetta er steindautt,“ sagði ég við félagann. „Nei, þetta er algjör matarkista,“ svaraði hann og hélt áfram að kasta á dautt vatnið. Og svo fór að snjóa. Ég hugsaði með hryllingi til vísu Látra–Bjargar: Fagurt er í Fjörðum þá frelsarinn gefur veðrið blítt, hey er grænt í görðum, grös og heilagfiskið nýtt. En þá veturinn að þeim tekur sveigja veit eg enga verri sveit um veraldar reit. — Menn og dýr þá deyja. Að Hvalvatni Jésús Kristur, hugsaði ég með mér: heiðin verður ófær á smá- tíma, hvernig á mér að takast að draga vininn frá þessari gal- tómu matarkistu? „Heyrðu?“ sagði ég og benti til fjalla. „Heldurðu að færðin sé ekki farin að þyngjast á heiðinni? Við þurfum að komast heim fyrir myrkur.“ Það var eins og félaginn hefði vaknað af værum blundi því allt í einu varð hann eitt spurningarmerki í framan, alsnjóugur á bakinu. „Ja hérna hér! En þú verður nú samt að gefa mér sjéns á að kasta aðeins í ósnum, við erum bara 20 mínútur að keyra niður eftir. Bara nokkur köst?“ Ég féllst á það með semingi, var búinn að koma auga á spúnaprikið í skottinu og hugsaði með mér að ég gæti þá skannað ósinn með Lippunni, ekki þætti mér við hæfi að kasta þar pínulitlum pöddum eða straumflugum í þessum éljagangi. Þegar við komum niður að lóninu, hinu svonefnda Hval- vatni, var farið að snjóa allhressilega. Félaginn ákvað að hlaupa beinustu leið niður í ós en ég þóttist ætla að kasta púpum á lónið. Um leið og hann hvarf úr augsýn, náði ég í spúnaprikið, hnýtti bleika lippuna á girnið og kastaði henni í fögrum sveig út yfir lónið. Ég get svo svarið að spinnerinn var varla lentur á vatninu þegar hausinn á myndarlegri sjóbleikju stakkst upp úr yfirborðinu og gleypti járnaruslið. Það var ekkert flóknara. Ég dró fiskinn hratt að landi og furðaði mig á því hvað þetta væri skemmtilegt. Rotaði og blóðgaði og kastaði síðan aftur. Ekkert gerðist. Þegar ég sá síðan móta fyrir félaganum í hríðarbylnum niður við ósinn, hann augljóslega á leiðinni upp eftir aftur, gekk ég í snarhasti frá spúnastönginni, pakkaði bleikjunni ofan í veiði- töskuna og fór að kasta púpum á lónið. „Ertu að fá’ann?“ hrópaði félaginn í gegnum kófið. Ég ákvað strax að svara þessu ekki því ég vissi að ef ég svar- aði játandi yrði engin leið að ná honum heim: hann yrði að kasta í klukkutíma til að ná bleikju eins og ég og þá yrði orðið ófært yfir Leirdalsheiði. Við ókum af stað áleiðis heim. Þetta var gaman Eftir fjórar klukkustundir, í þreifandi myrkri og ofankomu, náðum við heim. Tvisvar festum við okkur á heiðinni en í bæði skiptin tókst okkur fyrir einhverja slembilukku að losa bílinn úr krapa og drullusvaði sem slóðinn var nú orðinn. Ég sagði félaganum aldrei frá bleikjunni sem ég náði þennan veturkalda ágústdag upp úr matarkistunni í Hvalvatnsfirði. Vel má vera að hann lesi um hana í þessari stuttu grein og það gerir þá ekkert til. Þegar upp er staðið þá er þetta ekki játning. Ég hef enga fordóma gagnvart spúnaveiði. Aðrir hafa gert mér það upp og þegar ég byrjaði á þessari grein var ég hér um bil farinn að trúa þeim en nú sé ég ljósið: Það var gaman að veiða sjóbleikjuna í matarkistu Hvalvatnsfjarðar á finnsku Lippuna. Sjóbleikjan sem féll fyrir bleiku Lippunni, stillt upp með flugustöng fyrir myndatöku! Félaginn kastar á fallega breiðu ofarlega í ánni.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.