Morgunblaðið - 19.09.2022, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. SEPTEMBER 2022
Logi Sigurðarson
logis@mbl.is
Sigurður Ingi Jóhannsson innviða-
ráðherra kynnti í síðustu viku
rammasamning sem kvað á um upp-
byggingu 35 þúsund íbúða á næstu
tíu árum. Sigurður Hannesson, fram-
kvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins,
segir í samtali við Morgunblaðið að
áform stjórnvalda leggist vel í iðn-
aðinn.
„Iðnaðurinn getur byggt upp þess-
ar 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.
Það er alveg raunhæft. En ef þetta á
að ganga upp þá þurfa sveitarfélögin
að vinna talsvert öðruvísi úr málun-
um en þau hafa gert. Vandinn í hnot-
skurn er sá að það eru mörg sveit-
arfélög á landinu sem finnst þau
standa sig vel þegar það kemur að
húsnæðis- og byggingarmálum. En
þegar áform þeirra eru lögð saman
þá dugar það ekki upp í það sem þarf
fyrir landsmenn,“ segir hann.
Aðspurður segir Sigurður lóða-
framboð einfaldlega ekki vera nægj-
anlegt og vandinn sé sá að sveitar-
félögin hafa ekki forræði yfir þeim
lóðum sem lóðaskipulag þeirra lýtur
að. „Það er vegna þess að það land er
í einkaeigu eða í eigu annarra sem
ráða því hvenær uppbygging fer
fram. Ef horft er nokkra áratugi til
baka, þá hafa sveitarfélögin minna
um það segja nú en þá hvenær upp-
bygging fer fram. Þetta er ákveðið
umhugsunarefni sem fulltrúar ríkis
og sveitarfélaga þurfa að ræða sín á
milli og skoða hvort þurfi að gera ein-
hverjar breytingar á löggjöf eða
heimildum sveitarfélaga til þess að
grípa inn í.“
Brjóta nýtt land undir byggð
Sigurður segir að sveitarfélögin
geti brugðist við þessu með því að
brjóta nýtt land undir byggð. Mik-
ilvægt sé að horfa til þess og ekki ein-
göngu einblína á þéttingu byggðar.
Hann segir þó hlutina vera að færast
í rétta átt og með úrbótum stjórn-
valda síðustu ára, svo sem samþætt-
ingu málaflokka undir eitt ráðuneyti
og með stofnun Húsnæðis- og mann-
virkjastofnunar, sé loksins hægt að
hafa eftirlit með uppbyggingu hús-
næðis hérlendis.
„Það hefur ekki verið hægt hingað
til, einfaldlega vegna þess að upplýs-
ingar hafa verið af skornum skammti
og yfirsýn lítil.“
Húsnæði fyrir allt fólkið
„Hinn anginn á þessu máli er sá að
þessi uppbygging er algjörlega nauð-
synleg. Við sjáum það núna að það er
talað um að það flytji í kringum 10
þúsund manns til landsins umfram
brottflutta á árinu 2022. Það er eng-
inn smá fjöldi. Ef við horfum á þarfir
atvinnulífsins á næstu árum þá þarf
fólk að flytja til landsins í stórum stíl
til þess að standa undir verðmæta-
sköpun. Það gildir í mjög mörgum
greinum. Talað hefur verið um ferða-
þjónustu, byggingariðnað og annan
iðnað,“ segir Sigurður og bætir því
við að ekki megi gleyma hugverka-
iðnaðinum, sem hafi fest sig í sessi
sem fjórða útflutningsstoðin. Mögu-
lega verði hún sú stærsta áður en
áratugurinn tekur enda.
Óboðlegt fyrir landsmenn
„Við gerðum greiningu fyrr á árinu
sem leiddi í ljós að til þess að ná að
sækja öll þau tækifæri, sem bíða í
hugverkaiðnaði, þarf níu þúsund sér-
fræðinga sem að mestu leyti þurfa að
koma utan frá. Allt bendir í eina átt.
Samhliða náttúrulegri fólksfjölgun
landsmanna þá þarf að flytja fólk til
landsins í stórum stíl til þess að halda
uppi verðmætasköpun og það segir
sig sjálft að fyrir allt þetta fólk þarf
húsnæði.“
Ertu bjartsýnn á að þetta takist?
„Ég er nokkuð bjartsýnn á það og
ég segi það vegna þess að ég trúi ekki
öðru en að sveitarfélög landsins, og
ég tala nú ekki um stærstu sveitar-
félög landsins, vilji vera hluti af
lausninni í húsnæðismálum. Að þau
vilji taka þátt í því að brjóta upp
þessa stöðu á markaðnum sem er al-
gjörlega óboðleg fyrir alla landsmenn
og gerir það að verkum til dæmis að
verðbólga er miklu hærri hér á landi
en hún þarf að vera.“
Uppbygging algjörlega nauðsynleg
- Framkvæmdastjóri SI bjartsýnn á að uppbygging takist - Áform sveitarfélaga ekki dugað til þessa
- „Iðnaðurinn getur byggt upp 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum“ - Lóðaframboð ekki nægt
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Uppbygging Sigurður segir að fólk þurfi að flytja til landsins í stórum stíl til
þess að mæta þörfum atvinnulífsins. Þetta fólk þarf augljóslega húsnæði.
Maríuerla hefur verið valin fugl ársins í sam-
nefndri keppni sem Fuglavernd stóð fyrir annað
árið í röð. Alls kepptu sjö fuglategundir um titilinn
en fimm fuglanna höfðu kosningastjóra sem unnu
ötult og óeigingjarnt kynningarstarf fyrir sína
smávini. Maríuerlan kynnti sig þó sjálf með hlý-
legri nærveru sinni um allt land og sigraði með
21% atkvæða. Í öðru og þriðja sæti lentu hinir ólíku
en glæsilegu fuglar himbrimi og auðnutittlingur.
Morgunblaðið/Guðlaugur J. Albertsson
Maríuerlan valin fugl ársins í árlegri keppni
„Ég hef þá skoð-
un, eins og marg-
ir, að það væri
eðlilegt að sveit-
arstjórnarstigið
hefði sterkari
rödd og ásýnd
innan forystu
flokksins,“ segir
Bryndís Haralds-
dóttir, þingmaður
Sjálfstæðis-
flokksins.
Hún hefur ákveðið að bjóða sig
fram til ritaraembættis Sjálfstæð-
isflokksins á landsfundi, sem fram
fer dagana 4.-6. nóvember. Bryndís
hefur setið á þingi frá árinu 2016 en
hún hefur 16 ára reynslu af sveitar-
stjórnarmálum. Hún var bæjarfull-
trúi í Mosfellsbæ í átta ár en vara-
bæjarfulltrúi í sama sveitarfélagi
átta ár þar á undan. „Ég held að við
Sjálfstæðismenn eigum að geta ver-
ið enn öflugri rödd. Við erum með
yfir 100 sveitarstjórnarfulltrúa um
land allt, sem vinna alveg frábær-
lega í anda sjálfstæðisstefnunnar,“
segir Bryndís. veronika@mbl.is
Bryndís
sækist eftir
ritaranum
- Sveitarstjórnarstig
fái sterkari rödd
Bryndís
Haraldsdóttir
Kristján Svanur Eymundsson,
hlauparinn sem vann Bakgarðs-
hlaup Náttúruhlaupa í Heiðmörk í
gær, er hæstánægður og kveðst
hafa getað hlaupið lengra. Lét hann
þó 214,4 kílómetra duga í þetta
skiptið.
Hlaupið hófst kl. 9 í gærmorgun
og lauk þegar Kristján kom í mark á
fimmta tímanum í dag. Stóð það því
yfir í tæpar 30 klukkustundir.
„Ég hef það furðugott, kominn í
hlýjan fatnað þannig að maður er
bara nokkuð vel stemmdur,“ sagði
Kristján þegar Morgunblaðið sló á
þráðinn. Þá var kappinn nýkominn í
mark. „Ég er orðinn þurr og kom-
inn í úlpu. Aðeins að hita mig upp.“
Spurður hvort þetta hafi ekki
reynst erfitt verk, að hlaupa í svo
langan tíma, jánkaði Kristján því.
„Jú, vissulega. Það voru alveg
dalir þarna inni á milli,“ sagði hann
og nefndi eftirminnilegt atvik næt-
urinnar þegar hann komst að því að
rafhlöðurnar væru nánast að þrot-
um komnar í höfuðljósinu.
„Smá slysahætta þar en það hafð-
ist. Annars komst ég í gegnum þetta
allt og alla erfiðleika með hjálp
virkilega góðra vina og aðstoðar-
fólks,“ sagði hann og nefndi þar að-
stoðarmann sinn og vin, Gunnar
Smára Sigurgeirsson, sérstaklega.
„Hann var með mér alla nóttina
og í gærkvöldi og inn í daginn í
dag,“ sagði hann en Gunnar Smári
sá um að fæða hann og klæða í skál-
anum milli hringja. „Hann er minn
besti vinur og stóð sig algjörlega
eins og hetja við að aðstoða mig.“
ari@mbl.is
Hljóp rúma 214 kílómetra á tæpum 30 klst.
- Bakgarðshlaup Náttúruhlaupa í Heiðmörk stóð yfir í
tæpar 30 klukkustundir - Kveðst hafa getað hlaupið lengra
Afrek Kristján Svanur Eymundsson var hæstánægður er hann kom í mark.
Þá var hann búinn að hlaupa rúma 214 km á undir 30 klukkustundum.