Morgunblaðið - 19.09.2022, Blaðsíða 28
Átök Hilmir Snær Guðnason og Noomi Rapace í kvikmyndinni Dýrið.
Kvikmyndin Dýrið í leikstjórn Valdi-
mars Jóhannssonar hlaut flestar
Eddur, eða samtals tólf, þegar verð-
laun Íslensku sjónvarps- og kvik-
myndaakademíunnar (ÍKSA) voru
afhent við hátíðlega athöfn í
Háskólabíói gærkvöldi. Dýrið var
meðal annars valin kvikmynd ársins
og Valdimar Jóhannsson var verð-
launaður fyrir bæði leikstjórn og
handrit, sem hann skrifaði í sam-
starfi við Sjón. Hilmir Snær Guðna-
son og Björn Hlynur Haraldsson
voru verðlaunaðir fyrir leik sinn í
kvikmyndinni. Dýrið var tilnefnd til
13 verðlauna og hlaut þau öll nema
fyrir gervi, en þar vann Ragna Foss-
berg fyrir gervi sín í sjónvarps-
þáttaröðinni Kötlu, sem voru einu
verðlaunin sem þáttaröðin hlaut.
Næstflest verðlaun hlaut sjón-
varpsþáttaröðin Systrabönd í leik-
stjórn Silju Hauksdóttur. Jóhanna
Friðrika Sæmundsdóttir var verð-
launuð fyrir bestan leik í aðal-
hlutverki og María Heba Þorkels-
dóttir fyrir bestan leik í aukahlut-
verki auk þess sem þáttaröðin var
valin leikna sjónvarpsefni ársins.
Heildarlistann má sjá hér til hliðar
en alls voru veitt 28 verðlaun að
heiðursverðlaununum meðtöldum.
Á Edduverðlaunahátíðinni í gær-
kvöldi var tilkynnt hvaða kvikmynd
verður framlag Íslands til Óskars-
verðlaunanna en það er Berdreymi
eftir Guðmund Arnar Guðmundsson.
Í umsögn dómnefndar um myndina
segir: „Hér er á ferðinni áleitin saga
sem er sett fram af látleysi og yfir-
vegun og leyfir sér að ganga nálægt
áhorfanda. Einstök frammistaða og
hugrekki ungra leikara á sérstakt lof
skilið fyrir stóran þátt sinn í áhrifa-
mætti verksins. Tónn, andi og til-
finning frásagnarinnar nýtir mögu-
leika formsins á eftirtektarverðan
hátt sem skilar sér í hrárri og
sterkri kvikmyndaupplifun.“
Dýrið með tólf Eddur
- Kvikmyndin Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guð-
mundsson verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna
Nánd Berdreymi er önnur kvikmynd
Guðmundar Arnars Guðmundssonar.
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. SEPTEMBER 2022
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þetta kemur ánægjulega á óvart.
Það er alltaf gott þegar einhver sér
ástæðu til að klappa manni á bakið
þegar maður er kominn á þann aldur
að maður er farinn að venja sig við
það að vera frekar talinn til óþurftar
en gagns,“ segir Þráinn Bertelsson,
sem í gærkvöldi hlaut heiðursverð-
laun Íslensku sjónvarps- og kvik-
myndaakademíunnar (ÍKSA) fyrir
ómetanlegt framlag sitt til íslenskr-
ar kvikmyndagerðar. Þráinn starf-
aði um árabil jöfnum höndum sem
kvikmyndaleikstjóri, framleiðandi
og handritshöfundur.
Í umsögn stjórnar, sem lesin var
upp við afhendingu Eddunnar í
gærkvöldi, sagði meðal annars:
„Fyrir íslenska kvikmyndagerð og
okkur samstarfsfólk þitt, hér í saln-
um, verður þú alltaf brautryðjand-
inn sem komst eins og ferskur vind-
ur inn í fagið með þinn einstaka
hæfileika til að segja sögur og upp-
hefja mannlega þáttinn í kómískum
og oft pínlegum aðstæðum.“
Hélt að draumurinn væri úti
Aðspurður segist Þráinn hafa ver-
ið með kvikmyndadellu frá unga
aldri og reynt að fara eins oft í bíó og
fjárhagurinn leyfði. Oftast hafi leiðin
legið í Hafnarfjörðinn þar sem boðið
var upp á breitt úrval klassískra
mynda og minna fór fyrir vinsælum
Hollywood-myndum. „Þar sá ég til
dæmis myndir Ingmars Bergman,
sem voru í miklu uppáhaldi, og
myndir frá austantjaldslöndum þar
sem kvikmyndagerð var á mjög háu
stigi,“ segir Þráinn og tekur fram að
draumur hans hafi alltaf verið að
starfa við kvikmyndagerð.
„Þegar ég var að ljúka stúdents-
prófi sótti ég um að komast í kvik-
myndanám í Póllandi og komst að.
En rétt áður en námið átti að hefjast
um haustið, barst tilkynning þess
efnis að vegna bágs efnahagsástands
hefðu stjórnvöld ákveðið að rukka
erlenda nemendur um himinhá
skólagjöld, sem reyndust mér ofviða.
Þar með hélt ég að draumurinn væri
úti,“ segir Þráinn sem eftir stutta
viðkomu í lögfræðinámi og störf í
blaðamennsku réði sig, ásamt eigin-
konu sinni, til starfa sem kennari í
Eyjafirði. „Dag einn rakst ég á
krumpað Morgunblað í ruslinu á
kennarastofunni sem ég tók upp og
las. Þar rakst ég á auglýsingu frá
Dramatiska Institutet í Svíþjóð og
þar með varð ekki aftur snúið,“ segir
Þráinn sem lauk prófi í leikstjórn og
kvikmyndaframleiðslu frá umrædd-
um skóla árið 1977.
Aðsóknin skipti sköpum
„Þegar ég kom heim úr náminu
var ég mér mjög meðvitaður um að
kvikmyndagerð væri frjálst framtak
og að allir peningarnir kæmu frá
fólkinu í landinu,“ segir Þráinn og
rifjar upp að á þeim tíma hafi verið
lítið um opinbera styrki til kvik-
myndagerðar í gegnum kvikmynda-
sjóði. „Ég, líkt og aðrir frumkvöðlar
í þessari grein, gerði mér grein fyrir
að við yrðum að reiða okkur á áhuga
almennings á að sjá íslenskar kvik-
myndir þar sem aðsóknin skipti
sköpum,“ segir Þráinn og tekur
fram að það hafi auðvitað sett mark
sitt á efnisval hans.
„Fyrsta kvikmynd mín var byggð
á frábærum metsölubókum Guð-
rúnar Helgadóttur,“ segir Þráinn og
vísar þar til barna- og fjölskyldu-
myndarinnar Jón Oddur og Jón
Bjarni sem var frumsýnd 1981.
Tveimur árum seinna kynntist þjóð-
in fyrst félögunum Þór og Danna í
gamanmyndinni Nýju lífi þegar þeir
héldu á vertíð í Vestmannaeyjum.
Ári síðar mátti sjá þá félaga við
sveitastörf í Dalalífi og loks við lög-
gæslustörf 1985 þegar Löggulíf var
frumsýnd. Það sama ár leit Skamm-
degi dagsins ljós. Árið 1989 frum-
sýndi Þráinn Magnús og að loks
gerði hann Einkalíf árið 1995.
Auk þessara kvikmynda stýrði
hann á ferlinum tveimur áramóta-
skaupum (1982 og 1983) og sjón-
varpsþáttaröðinni Sigla himinfley
(1996), gerði tugi útvarpsþátta og
útvarpsleikrit. Einnig liggja eftir
hann hátt í tuttugu bækur. Þar er
um að ræða skáldsögur, glæpasög-
ur, barnasögu, ævisögu, sjálfsævi-
sögur, þýðingar og nú síðast viðtals-
bók við hund. Hann hefur einnig
starfað sem blaðamaður og ritstjóri.
Þráinn var formaður Rithöfunda-
sambands Íslands, formaður Félags
kvikmyndaleikstjóra og alþingis-
maður.
Í sterku samtali við þjóðina
Aðspurður hvaða mynd sé honum
kærust nefnir Þráinn umsvifalaust
Nýtt líf. „Hún var í raun bylting í
kvikmyndagerð,“ segir Þráinn og út-
skýrir að hún hafi verið tekin upp í
raunverulegri verbúð og fiskvinnslu
í Vestmannaeyjum. „Aðferðin sem
við beittum þar var svo fundin upp
nokkrum árum síðar í Danmörku og
kölluð Dogma og þótti stórmerkileg,
sem hún er.“ Spurður hvort hann
hefði náð að gera allar þær kvik-
myndir sem hann dreymdi um á
starfsævinni svarar Þráinn því neit-
andi. „Ég held að kvikmyndaferill-
inn minn hafi endað þegar ég var
loksins kominn með þroska til að
skilja sjálfan mig nógu vel til að vita
nokkurn veginn hvaða myndir mig
langaði til að gera. Ég gafst aðallega
upp á ákveðnu skilningsleysi og ým-
iss konar vosbúð sem fylgdi starfinu.
Það var ekki forsvaranlegt gagnvart
fjölskyldu minni að halda áfram að
berja höfðinu við steininn. Svo að ég
skipti alfarið um og fór að byggja
afkomu mína á skrifum fyrst og
fremst,“ segir Þráinn og tekur fram
að í þeim skilningi hafi hann þó hald-
ið áfram að vera sögumaður.
„Það hefur verið líf mitt og yndi að
segja sögur. Hafi ég einhverja hæfi-
leika þá liggja þeir þar,“ segir Þrá-
inn og bætir við: „Ég er ótrúlega
lánsamur maður að hafa komist upp
með það heila ævi að velja mér verk-
efni sem ég hef talið að myndu veita
mér einhverja ánægju, því að frá
blautu barnsbeini hef ég haft svo
mikinn athyglisbrest að ég get ekki
einbeitt mér að hlutum sem mér
finnast leiðinlegir eða tilgangs-
lausir.“
Spurður, hvernig íslenski kvik-
myndabransinn komi honum fyrir
sjónir í dag, segir Þráinn hafa
áhyggjur af því að framleiðendur
séu sér „lítið meðvitaðir um að út-
hlutunarnefndir framleiða ekki pen-
inga. Ef sambandið milli íslenskra
kvikmynda og áhorfenda rofnar er
alveg öruggt að löngun stjórnmála-
manna til að leggja fé almennings í
íslenska kvikmyndagerð mun
minnka,“ segir Þráinn og bendir á að
kvikmyndagerðin hrærist ekki í
tómarúmi heldur byggist hún á
sterku samtali við þjóðina. „Þetta á
raunar við um allar listgreinar en
kvikmyndagerðin hefur þá sérstöðu
að það er svo dýrt að búa til kvik-
myndir að það gerir það enginn hér
án þess að fá fjárhagslegan stuðn-
ing,“ segir Þráinn að lokum.
Morgunblaðið/Kristinn
Í mynd Þráinn Bertelsson á portretti sem Kristinn Ingvarsson tók 2011.
Morgunblaðið/Jim Smart
Vinsæll Þráinn Bertelsson kvik-
myndaleikstjóri á 10. áratug síðustu
aldar, á meðan hann var formaður
Rithöfundasambands Íslands.
„Eins og ferskur vindur inn í fagið“
- Þráinn Bertelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar 2022
- „Gott þegar einhver sér ástæðu til að klappa manni á bakið“ - „Líf mitt og yndi að segja sögur“
Eddan 2022
Kvikmynd
Dýrið
Leikstjóri
Valdimar Jóhannsson fyrir Dýrið
Handrit
Valdimar Jóhannsson og Sjón fyrir
Dýrið
Leikari í aðalhlutverki
Hilmir Snær Guðnason fyrir Dýrið
Leikari í aukahlutverki
Björn Hlynur Haraldsson fyrir
Dýrið
Leikkona í aðalhlutverki
Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir
fyrir Systrabönd
Leikkona í aukahlutverki
María Heba Þorkelsdóttir fyrir
Systrabönd
Leikið sjónvarpsefni
Systrabönd
Heimildarmynd
Hækkum rána
Stuttmynd
Heartless
Sjónvarpsmaður
Helgi Seljan
Frétta- eða viðtalsþáttur
Kveikur
Menningarþáttur
Tónlistarmennirnir okkar
Skemmtiþáttur
Vikan með Gísla Marteini
Barna- og unglingaefni
Birta
Mannlífsþáttur
Missir
Íþróttaefni
Víkingar: Fullkominn endir
Gervi
Ragna Fossberg fyrir Kötlu
Leikmynd
Snorri Freyr Hilmarsson fyrir
Dýrið
Búningar
Margrét Einarsdóttir fyrir Dýrið
Brellur
Frederik Nord og Peter Hjorth
fyrir Dýrið
Klipping
Agnieszka Glinska fyrir Dýrið
Kvikmyndataka
Eli Arenson fyrir Dýrið
Hljóð
Ingvar Lundberg og Björn
Viktorsson fyrir Dýrið
Tónlist
Þórarinn Guðnason fyrir Dýrið
Upptöku- eða útsendingarstjóri
Salóme Þorkelsdóttir fyrir
Tónaflóð á Menningarnótt
Sjónvarpsefni (almenningskosning
á RÚV)
Benjamín búálfur
Heiðursverðlaun
Þráinn Bertelsson
Vinningshafar
ársins 2022
Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir
Systrabönd Jóhanna Friðrika
Sæmundsdóttir í hlutverki sínu.