Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 9
9Borgfirðingabók 2011
Þorsteinn Snorrason stundaði mikið rjúpnaskyttirí á veturna og
var fengsæll, enda góð skytta. Tvær haglabyssur voru til á heimilinu,
einhleypa og tvíhleypa. Einnig var til byssa sem var notuð þegar
þurfti að lóga skepnum, mjög kraftmikil, að sögn byssufróðra var
þetta stríðsmanna-skammbyssa af gamalli gerð. Þegar ég man fyrst
til voru rjúpnaskotin hlaðin heima. Höglin voru geymd í léreftsskjóðu
sem var kölluð haglapungur. Ekki vissi ég hvernig púðrið var geymt,
en á heimilinu var til gamalt púðurhorn. Það hefur þó ekki rúmað allt
það púður sem nota þurfti. Patrónurnar með hvellhettunum (knallett-
unum) komu úr kaupstaðnum í pappastokkum með mynd af skot-
veiðimanni utan á og sóttist ég eftir þeim þegar þeir tæmdust. (Einu
sinni bjó ég mér til úr þeim eins konar „jólatré“ með því að hlaða úr
þeim píramída og setja kertin á stallana). Hleðslan fór þannig fram
að púðrið var sett í botn patrónunnar og skammtað með einhverjum
mæli, þá var sett þykkt forhlað úr niðurrifnum dagblaðapappír. Sér-
stakt áhald, rennt úr harðviði,var notað til að þjappa púðrinu ásamt
neðra forhlaðinu í botn patrónunnar, því að kraftur skotsins var undir
því kominn að púðurhleðslan væri sem þéttust. Þá komu höglin og
voru líka skömmtuð með einhverjum mæli og síðast létt forhlað úr
dagblöðum. Patrónunni var svo lokað með því að brjóta brúnirnar
inn af.
Rjúpur voru verðmæt útflutningsvara á þessum árum og voru því
lagðar inn í kaupstaðinn (illa skotnir fuglar voru hafðir til heimilis-
nota). Ég geri ráð fyrir að Þorsteinn hafi haft drjúgan aukaskilding
upp úr rjúpnaveiðinni, því að hann keypti Hvassafellið 1929 og þótti
dýrt. Kaupverðið man ég ekki fyrir víst, en það var fimm stafa tala.
Mig minnir hann hafi getað lagt fram helming þess. Jón Snorrason
stundaði aldrei rjúpnaveiði eftir að ég kom að Laxfossi en hafði eitt-
hvað fengist við hana á unglingsárum. Einu sinni man ég eftir að
hann skaut grágæs í túnfætinum. Var hún elduð heima og bragðaðist
vel. Þeir bræður hafa líklega lært til slíks veiðiskapar af Snorra föður
sínum, sem var alvanur honum frá Húsafelli.
Matur og matmálstímar
Fyrstu ár mín á Laxfossi og líklega fram undir stríð var borðað þrí-
mælt sem kallað var. Matmálum var þannig háttað að þegar fólk var
komið á fætur um áttaleytið (heima var aldrei farið mjög snemma)
fengu allir kaffi og heimabakað hveitibrauð með smjöri. Elísabet var