Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 20
20 Borgfirðingabók 2011
Í Brautartungu búa enn
bræður, Sveinn og Gunnar.
Alúð þeirra og elja í senn
eru flestum kunnar.
Eðvarð þarna einnig býr
við orku úr lindum heitum.
Grýttum mel í grasvöll snýr
og gráum mosareitum.
Guðfinna er gervileg,
góðan býður þokka.
Epli af greinum girnileg
greið hún er að plokka.
Hestamaður Hjörleifur
hleypir fák á svelli.
Hress í bragði, bráðröskur,
býr á Tungufelli.
Olga við þann hrausta hal
hefur tryggðir bundið,
og virðist hafa hér í dal
hamingjuna fundið.
Jón í Brennu bætir láð,
byggir, ræktar, girðir.
Hann festir ekki enn sitt ráð,
um það lítið hirðir.
Pálína er þar, aldrað fljóð,
einseminnar geldur.
Hún mun aldrei eignast jóð,
ekki bónda heldur.
Björn á Reykjum, bóndi snjall,
bújörð góðri sinnir,
göngumaður, fer á fjall,
fénaðinum sinnir.
Halldóra af hagsýni
hirðir vel um bæinn,
af ósérplægni og árvekni
allvel notar daginn.
Á þessum bæ ég því næst fann
þulinn geysifróða,
Sigurð bónda sem að kann
sögu flestra þjóða.
Vil ég minnast Valgerðar,
er vizku barna glæddi,
með sitt létta lundarfar
leiddi þau og fræddi.
Prúður Þverfells bóndinn Björn
bíl um heiðar ekur,
annast sauðfjárveiki-vörn,
voðann burtu hrekur.
Herdís snjalla húsfreyjan
í heiðarfjalla salnum.
Liprari á palli leikara
leit ég varla í dalnum.
Gætir bús í Gilstreymi
góður verkamaður.
Hefur búmanns hyggindi
Hannes lyndisglaður.
Um Guðrúnu þess get ég hér,
ef grúskari um það spyrði.
Hún af skáldaættum er
efst úr Borgarfirði.
Halldór England hirðir nett,
heldur fáliðaður,
liðtækur í leit og rétt,
laginn veiðimaður.