Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 27
27Borgfirðingabók 2011
ég var sperrtari en nokkur hani á haug í glænýjum, bláum nankins-
buxum. Þær voru langtum flottari en nokkurt ,,lífæs“.
Þá var verið að byrja á byggingu íbúðarhússins á Kirkjubóli, sem
því miður stendur ekki lengur. Moldarhaugar og spýtur voru þar úti
um allt. Ákjósanlegra umhverfi var ekki hægt að hugsa sér til að
hlaupa um og ærslast í. Áreiðanlega var þetta í fyrsta skiptið sem
ég komst í snertingu við húsbyggingar, sem síðar urðu mitt ævi-
starf. Æstist nú leikurinn svo mjög að fimi fimm ára fóta brást, og
í einum sprettinum skall ég á afturendann og rann á honum langa
leið. Þetta óvenjulega umrót á bæjarhlaðinu hafði kúnum þótt engu
minna athyglisvert en mér, því þar sem ég átti leið um á bakhlutanum
var sérlega efnismikil kúadella. Ekki er að orðlengja það að stolt
mitt, sjálfar nýju nankinsbuxurnar, urðu í einu vetfangi svo ataðar
kúamykju að úr þeim lak.
Á samri stundu hófst öskur ógurlegt eins og stórslys hefði orðið.
Guðmundur, sem var nærstaddur, hljóp til mín og leiddi mig við hönd
sér á afvikinn stað. Þar lagði hann mig þvert yfir hné sér, tók upp
vasahnífinn sinn í mestu rólegheitum og skóf burtu allan óhroaðann
svo að buxurnar urðu sem nýjar aftur. Að því loknu fullvissaði hann
mig um að þetta sæist ekki lengur og enginn þyrfti að vita, aldrei
skyldi það. Ég trúði því að við ættum þetta leyndarmál tveir einir og
myndum eiga. Eitthvað fleira í orðum og athöfnum hans hafði þau
áhrif á mig á þessari örlagastundu að nýhruninn heimurinn reis úr
rústum á ný og brosti nú við mér sinni skærustu vorsól. Ótal sinnum
síðar á ævinni varð ég vitni að samskiptum hans við börn og aðra þá
sem ekki áttu hægt um vik að halda uppi eigin vörnum. Hann hafði
einstaklega næma tilfinningu fyrir að leggja þar til orð ef eitthvað
þurfti að rétta hlut.
Greiðasemi og hjálpfýsi
Og svo liðu árin við daglega önn í þessu nábýli, sem var ef til vill of
eðlilegt og vanabundið til þess að verið væri á hverjum tíma að gera
sér hugmyndir um það til eða frá. En síðar á ævinni hefur hugurinn
oft hvarflað að þessum bernsku- og uppvaxtarárum og minningum
frá þeim tíma. Hætt er við að þær minningar birtist ekki hér í réttri
tímaröð, og skiptir ekki öllu máli, en mestu varðar að eiga þær í
hugarfylgsnum. Þar stendur upp úr minning um einstaka greiðasemi
og hjálpfýsi sem Bjarnastaðafólk naut alla búskapartíð þeirra Guð-