Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 108
108 Borgfirðingabók 2011
geti snúið til sama lands eða farið undan straum svo að leiðin verði
óheyrilega löng yfir, en landtaka gæti þá orðið erfið eða máske alveg
ómöguleg. Þetta hlýtur að byggjast á því að hesturinn hafi vit fyrir
sjálfum sér og húsbónda sínum. Önnur aðferð var og er mikið notuð
af sundreiðarmönnum, en það er að smeygja sér úr hnakknum og
halda í herðakamb hestsins og vera uppá endann með þeirri hlið hans
sem undan straumi snýr. Með þessu skilst mér að hægt sé að hafa
stjórn á ferðalaginu og það að sitja ekki á hestinum á sundinu er sú trú
manna sem og trúleg er, að hestinum veitist léttara að synda ef hann
ber ekki byrði. Það sama vakir fyrir í báðum tilfellum, en mér finnst
að sú aðferð sé betri sem algengari er. Vera má að í taglaðferðinni
hafi þótt meiri dirfska og hetjudáð og því verið notuð. En um þá hlið
málsins má hver dæma fyrir sig. Allt byggðist þetta á þjónustunni á
þarfasta þjóninum, sem oftast var mesta hetjan og þá mest er mest á
reið. Þetta er nú útúrdúr.
Það var nú ekki meiningin að tala um sundreið heldur um vöðin,
þar sem von var um að ekki færi á sund. Ég tek þann kost að byrja
neðanfrá og halda á brattann.
Neðsta vað á Hvítá sem vitað er um er neðan við Ferjukot. Var það
ekki fært nema lítið væri í ánni og gæta varð þess að sjór væri heldur
ekki í henni. Fyrst veit ég til að þeir Sigurður í Ferjukoti og Jón Jóns-
son (veiðimaður) teymdu þarna hest á eftir báti til að kanna dýpið og
reyndist það vætt hesti. Þessi tilraun bar þó engan vitanlegan árangur.
Löngu síðar var ég á leið í Ferjukot á sunnudegi í sól og sumarblíðu.
Reið ég ungum hesti og lítt hörðnuðum en bar virðingu fyrir honum
og traust til hans. Á leiðinni frétti ég að einhverjir hefðu einhverntíma
riðið ána þarna, og fékk ég áhuga fyrir málinu. Setti ekki fyrir mig að
blotna í fót, hafði þá orðið fyrir því stundum áður. Þetta var því frekar
áhugamál hjá mér að þetta sumar var unnið að sprengingu vegarins
í hamrinum að væntanlegri Hvítárbrú, og þurfti ég oft um sumarið
1927 með hesta yfir ána. Reið ég í aftanskininu niður hjá veiðar-
færahúsinu á Hvítávöllum og niður bakkann að næsta klapparnefi
þar fyrir neðan, niður eftir sandeyri sem lá meðfram suðurlandinu.
Neðarlega á sandeyrinni sneri ég til hægri og útí ána, hér hlaut vaðið
að vera. Enginn var leiðsögumaður og engin voru mið. Fjöldi fólks,
vegavinnumenn og heimamenn í Ferjukoti, stóð og horfði á og leist
ekki á blikuna, hélt að hér væri vitlaus maður á ferð eða einhver sem
ætlaði að drepa sig. En vaðið var þarna og er sennilega enn í dag.