Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 113
113Borgfirðingabók 2011
tímum, en það er líka gott að líta aftur og sjá og skilja þá framför og
breytingu sem orðin er. Ég veit ekki hvernig Íslandssaga er kennd í
æskulýðsskólum landssins, en grunur minn er sá að þar sé mest talað
um Gunnar, Héðin og Njál, um Snorra, um Skúla, Jón forseta og fleiri
afburðamenn. En það getur enginn ungur maður metið framfarir nú-
tímans sem ekki þekkir líka erfiðleika og skuggahliðar fortíðarinnar.
Sjöunda vaðið er Klettsvað. Var það rétt ofan við þar sem Flóka-
dalsá og Reykjadalsá renna í einum ósi í Hvítá. Þetta var lítið þekkt
og lítið notað vað og víst ekki gott. Læt ég því útrætt um það.
Áttunda vaðið er svo Fróðastaðavað. Það var mjög mikið farið
meðan brúarlaust var á Kláffossi. Nokkuð var það djúpt en lítið
breytilegt og gott að því leyti. Það var neðantil við Fróðastaði í
Hvítársíðu. Það var á Fróðastaðavaði sem Vigdís Jónsdóttir, heima-
sætan frá Deildartungu, var rétt farin í ána. Vigdís var móðir Jóns
Hannessonar í Deildartungu og þeirra þekktu systkina. Vigdís var
í fylgd með Eyjólfi bónda á Hurðarbaki, en hann var faðir Jóns á
Kópareykjum, sem nú er látinn fyrir stuttu í hárri elli, en var um langt
skeið þekktur bóndi í héraðinu þó að ekki safnaði hann veraldlegum
auði. Hann var mjög þekktur og vinsæll fyrir dýralækningar sínar
og aðra hjálpsemi. Þau Eyjólfur og Vigdís komu úr kirkjuferð að
Síðumúla og mun önnur stúlka hafa verið í fylgd með þeim. Þegar
útí dýpið kom, sennilega í meira en miðja ána, losnar Vigdís við hest
sinn og flýtur ofan á. Hélst hún á floti og var þakkað pilsum hennar
eða jafnvel svonefndu krinólíni sem hún átti að hafa verið í. Þegar
Eyjólfur sér þetta hraðar hann sér sem mest hann má til suðurlands-
ins. Sumir segja að hann hafi haft hestaskipti við stúlkuna, því hennar
hesti treysti hann betur en þeim sem hann sat á. Ríður hann svo sem
hraðast niður með ánni og leggur hestinn til sunds í ána nokkru neðar
en stúlkan flaut. Lét hann svo bera saman stúlkuna í vatninu og sig
á syndandi hestinum. Dregur hann þá stúlkuna til lands og var hún
þá nær dauða en lífi. Varla hafa þó verið viðhafðar lífgunartilraunir,
sjálfsagt enginn kunnað það þá. En stúlkan raknaði við svo sem kunn-
ugt er. Til sannindamerkis um það hvað hér skall hurð nærri hælum
er svo sagt að Vigdísi hefði alla tíð síðan verið kalt til björgunar-
mannsins. En það er alkunna að fólki sem bjargað er frá drukknun á
síðasta augnabliki verður meira og minna illa við þann eða þá sem
bjarga. Trúlegt er að hestur Vigdísar hafi hnotið eða dottið í vaðinu
aftan við samferðafólkið. Að minnsta kosti hefir eitthvað komið fyrir,