Borgfirðingabók - 01.12.2011, Síða 116
116 Borgfirðingabók 2011
en víða annarsstaðar. Þó hefir ekki síður á öðrum vöðum áin verið
riðin í vexti, en þarna bar tvennt til, sem sé það að menn sundlaði
frekar að ríða svo lengi meðfram flugiðustreng og svo hitt eftir því sem
kunnugir menn telja að fætur hestanna hafi dofnað að vaða svo lengi
í ísköldu jökulvatninu og hafi því ekki verið eins harðir að halda sér
frá strengnum. Aftur á móti var vaðið það gott, að algengt var þegar
lítið var í ánni, að fara þar yfir með vagna á meðan sú ferðamennska
var í gildi.
Tólfta vaðið. Þegar Þiðrik Þorsteinsson bjó á Háafelli í Hvítársíðu
hafði hann oft riðið útaf Lambeyri á Háafelli og hafði þar einhverja
vaðmynd, en ekki veit ég til að nafn hafi festst við þetta vað og ekki er
talið að aðrir hafi notað það en Þiðrik einn.
Þrettánda vaðið er Snagavað. Það var undan Sámsstaðafjárhús-
unum, en ekki mun það hafa náð mikilli lýðhylli, en var þó nokkuð
notað. Talið er að Höskuldur á Hofsstöðum hafi riðið það síðastur
manna fyrir fáum árum og var það þá enn vel reitt.
Fjórtánda. Vað var um tíma hjá Kirkjubóli. Þar reið Stefán á
Norður-Reykjum fimm sinnum á einu sumri og þótti gott. Ekki mun
þetta vað hafa verið lengi við lýði, enda áin mjög breytileg á þessum
stað, eins og getið verður um í næsta þætti. Nafn mun þetta vað aldrei
hafa hlotið og fáir notað það.
Fimmtánda. Ásvað var undan Ungmennafélagshúsinu hjá Stóra-
Ási og litlu ofar en Bjarnastaðir í Hvítársíðu, fyrir ofan strenginn,
þar sem stóru steinarnir eru í ánni. Vað þetta var allmikið notað sér-
staklega af Krókbændum í lestaferðum. Aldrei mun það hafa verið
gott. Á Ásvaði var það sem bóndann á Hallkelsstöðum, Nikulás
Bjarnason, bar út af vaðinu með lest er hann kom með úr kaupstað.
Missti hann aftanúr þrjá baggahesta og fórust þeir allir. Ekki er fjarri
lagi að bera þetta saman við sundreið vatnamannanna sem renndu
sér úr hnakknum til þess að létta hestinum sundið. Vera má að þessir
hestar hefðu bjargast ef böggunum hefði verið rennt í ána. Annað er
og í þessu, það að áburðarhestar voru oft magrir og illa haldnir. Þeir
voru ekki allir jökulfærir sem kallað var. Í þessu tilfelli voru þeir
að koma úr langferð og e.t.v. orðnir þreyttir. En bóndinn bjargaðist
og eitthvað af hestunum. Það er ekki fyllilega sambærilegt með
áburðarhesta og reiðhestinn, sem bóndinn sat á, því mjög algengt var
að bændur ættu einn hest vel með farinn, sem þoldi meira en hinir
hestarnir, bæði vegna betra fóðurs á vetrum og meiri æfingar í djúpu