Borgfirðingabók - 01.12.2011, Blaðsíða 129
129Borgfirðingabók 2011
Hann tók að sér að flytja símastaura yfir Holtavörðuheiði norðan úr
Hrútafirði, keypti fjölda hesta og seldi þá um haustið til Noregs, hafði
margt manna í vinnu og heimilið var stórt. Við héldum til í heyhlöðu í
Grænumýrartungu, en ég var ekki lengi við þessa flutninga.
Um veturinn var ég þar við vefnað, óf margar voðir og þæfði undir
fótunum. Ég man eftir einni þeirra. Uppistaðan var þráður spunninn
og ívafið band, voðin var röndótt. Saumakona var tekin um vorið
og saumuð alföt á drengi þeirra, og mér voru gefin alföt líka eins og
þeim og var montinn yfir því. Ég var þar einn vetur fjármaður, átti
að láta út kl sex að morgni, lagði mig svo og gaf á jöturnar og fór að
smala fram undir Fornahvamm. Þessi útlátning var herfilega vitlaus.
Féð rásaði í myrkrinu þangað til birta tók. Það var skrítið að sjá á
jötunum á morgnana, hola við holu eftir kindasnoppurnar en ekkert
étið, heyið var hrakið og tóm sina. Það var meira verk að bera þetta af
jötunum en á þær. Samt var mikið af ánum eins og sauðir. Það þótti þá
besta fjárræktin að láta það lélega drepast. Það vænsta og kraftmesta
lifði. Þetta sinn var sleppt fyrir páska. Þá gerði aftaka norðan stórhríð
sem hélst lengi, og þegar upp stytti vantaði fjörutíu. Ég leitaði mikið
vítt og dreift. Loks fundust þær allar dauðar í flæðarmáli Norðurár,
rétt fyrir innan Kattarhryggsgil. Áin hafði ólgað undir þær. Það var
hryllileg aðkoma. Ég fer aldrei svo um veginn að mér verði ekki litið
á þennan slysastað. Jóhann var afbragðs húsbóndi, borgaði mér meira
en mér bar, bæði í aurum og fatnaði, sem Ingibjörg átti mikinn þátt í.
Hann var mjög skilvís og áreiðanlegur í öllum viðskiptum sem hann
átti vítt og breitt um héraðið. Jóhann kom að máli við mig, að fara á
Hvítárbakkaskóla. Mér hafði ekki dottið það í hug, hygg að honum
hafi þótt fullmikið dálæti frúarinnar á mér, ekki að ástæðulausu, en
hann hélt líka mikið upp á mig.
Hvítárbakkaþáttur
Ég fór á skólann 1912, reið niður að Hvítárbakka að hitta skólastjóra
og sækja um skóla næsta vetur, reið yfir Hvítá á Langholtsvaði. Hún
var breið og mikil. Ég hafði einu sinni riðið á sund, þá strákur á
Hraunsnefi. Á Hraunsnefi voru tvær hvítar hryssur sem hétu Fluga
og Hersilja og voru niðri á Dysey, tók þá síðarnefndu, reið henni
auðvitað berbakt, fór yfir kvíslina af Ljósubökkum á móti Hreims-
staðaenginu. Það var mikill vöxtur í ánni, og hryssan fer strax á