Borgfirðingabók - 01.12.2011, Side 199
199Borgfirðingabók 2011
væri með í för. Við myndum spyrja hvað hann hefði búið þar lengi,
því álögin á Litlasandi eru þau að ,,þar mátti enginn búa lengur en
tíu ár.“ Um þessa bannhelgi skrifar Halldóra frá Grafardal og segir:
,,hún [bannhelgin] hefur það sér til ágætis að vera hemill á ágirnd
manna og yfirgangi og minnir sífellt á það að varasamt sé að ofnýta
eða ganga of nærri jörðinni“7 og ,,álagatrú er samvizka okkar gagn-
vart þeirri jörð sem fóstrar okkur.“ Þessa visku skulum við leggja á
minnið. Arfur kynslóðanna er ekki lítils virði. Við erum bara ekki
alltaf svo heppin að hitta heimamenn sem geta miðlað okkur af upp-
lifun sinni, þekkingu og trú. Því eru bækur á borð við Jörð í álögum
og Harðar sögu og Hólmverja nauðsyn hverjum þeim sem vill ganga
í gegnum sögu/r á för sinni um Síldarmannagötur.
Frá Bláskeggsánni tilsýndar í vesturátt er Stóri-Þvergilsfoss. Ef
tíminn er nægur þá víkjum við af leið og förum að fossinum. Aldrei
að strunsa framhjá fossi gæti verið viðmið göngumanna. Það er van-
virðing við Fossbúann. Við Þvergilið er staðið nálægt hreppamörkum
Skorradals og fyrrum Hvalfjarðarstrandarhrepps og þarna koma
líka saman landamerki Fitjakirkjulands8, Litlasands, Bakkakots og
Þyrils. Meðan smalað var á þessum slóðum var þetta mikilvægur
vendipunktur og héðan sést ágætlega yfir flóa og tjarnir. En við erum
laus við ábyrgð fjárhirðanna og höfum því ekki hugmynd um allan
þann aragrúa örnefna sem menn þekktu hér áður fyrr. Þau voru gps-
staðsetningar síns tíma og auk þess vissu menn nokkuð hvar bestu
grösin var að finna, því þangað leitaði féð. Þekkjum við grös? Er það
ekki eitthvað ,,í nös“ nútímamannsins?
Frá Tungu að Tvívörðum
Við göngum meðfram Bláskeggsánni þar til leiðin sveigir upp breiða
bungu sem ber hið lýsandi nafn Tunga og nú styttist að vatnaskilum
og þar með að efsta punkti á leið okkar. Hugtakið ,,vatnaskil“ má
nota í mörgu samhengi. Í náttúrunni merkir það beinlínis að vötnum
hallar sitt á hvað frá þeim stað. Þetta er hápunktur. Notum það til að
hugsa um okkar eigin ,,hápunkt“. Höfum við lifað hann nú þegar,
eða væntum við hans? Hvað er hápunktur lífsins? Hvað hefur valdið
7 Jörð í álögum, s. 11.
8 Eins og nafnið ber í sér þá var þetta kirkjuland frá Fitjum. Stefán afi Guðmundsson seldi það árið 1929
þegar kreppti að í búskapnum.