Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 200
200 Borgfirðingabók 2011
vatnaskilum í lífi þínu? Þetta eru gagnlegar spurningar mannræktar-
innar – og skyldum við ekki huga að henni í stað þess að einblína á
,,líkamsrækt“ ? Hvaða heilvita manni datt í hug að líkamann megi
stæla næstum endalaust án þess að næra andann? Ætti tvíhyggja af
þessum toga ekki að vera úrelt fyrirbæri?
Gangan sem innra ferðalag – að horfast í augu við lífið
Lokum ekki augunum fyrir því að margir ráða ekki við hvers-
daginn og leita í ýmiskonar ,,tilbreytingu“, því leiði og kvíði eru
stór vandamál í nútíma. Íslendingar eru methafar í langtímanotkun
svefn-, kvíðastillandi og róandi lyfja og notkun eykst með aldr-
inum. Kannski er fólk ,,á einhverju“ þegar það svarar svo til um
hamingjustuðul sinn að þjóðin flýgur hæst í þeim könnunum. Að
ýta burt blekkingum og horfast í augu við raunveruleikann getur
sem hæglegast verið markmið göngu yfir heiðina. Það er hægt
að láta gönguna draga fram það sem máli skiptir í sálinni. Fara í
nokkurskonar lífsgöngu: Líta yfir farinn veg í tvennum skilningi,
ganga sinn ytri og innri veg, skref fyrir skref.
Ein aðferð sem menn hafa áttað sig á að virkar vel á kvíða
og leiða er ,,virkni“. Að ganga úti, svitna og virkja um leið öll
skynfærin er geðrækt í sjálfu sér. Að hlusta, finna lykt og anda eru
verkefni göngumannsins. Örkum ekki eins og maðurinn á biðils-
buxunum, heldur öndum djúpt og rólega. Þeir sem læra að meta
kyrrð og þögn finna að oft er best að fara um heiðina í einveru
og nota skynfærin á nýjan hátt. Hvernig hljómar heiðin? Hvernig
bragðast heiðin? Þannig mætti spyrja í upphafi göngu og fara af
stað með opnum huga. Láta allt tala til sín: fuglana, veðrið, vind-
inn, landslagið, lognið og vatnið sem verður á vegi okkar. Síðast
en ekki síst þögnina. Hugsa sér, það er til fjöldi fólks sem veit ekki
hvað þögn er? Hefur aldrei á heiði komið og ekki lært að bragða
á fjallagrösum. Hefurðu smakkað lambagras? Veistu hvernig það
lítur út? Kannski ekki. Í upphafi ferðar er ágætt að hugsa: Til hvers
er ég að ganga Síldarmannagötur? Hvað ætla ég að læra og hvað
vil ég upplifa? Kannski veistu ekki hvað þig skortir. Leitaðu þá
inná við og reyndu að dýpka þig sem persónu. Hafðu það að mark-
miði leiðarinnar. Þá er ekki til lítils lagt af stað!