Borgfirðingabók - 01.12.2011, Page 260
260 Borgfirðingabók 2011
getur hann þess að honum finnist endurskoðun örnefnaskránna ganga
alltof hægt. Þar var ekki steini kastað úr glerhúsi, því umsjón hans
með verkefninu í Hvítársíðu er til fyrirmyndar sem og öll önnur störf
hans á þessum vetvangi.
Þrem árum síðar, á aðalfundi FAB 30. apríl 2008, telur hann enn
að nokkuð vanti upp á að endurskoðuninni sé lokið. Sjálfur segist
hann búa við versnandi heilsu og leggur til að einhver annar taki við
umsjón söfnunarinnar. Til þess fæst þó enginn – þar og þá. Málið er
falið félagsstjórn til úrlausnar og er Magnús áfram í forsvari.
Árið eftir, á aðalfundi FAB þann 15. apríl 2009, kemur fram að
Menningarráð Vesturlands hyggist veita 100.000- króna styrk til
örnefnaverkefnisins. Það er fyrsta framlag utanaðkomandi aðila til
þessa starfs. Fram að þeim tíma hefur það verið unnið í algjörri sjálf-
boðavinnu og forsvarsmenn þess lagt út fyrir öllum ferðakostnaði og
öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum. Um þetta leyti er Ragnhildur í
Ausu að leggja síðustu hönd á örnefnaskrárnar í Andakíl. Segir hugs-
anlegt að hún geti tekið að sér meiri verkefni á þessu sviði. Þótti styrk
Menningarsjóðsins vel varið til að greiða henni smávegis laun fyrir
verk sitt. Á þessum fundi er kosið nýtt fólk í örnefnanefnd. Magnús
Sigurðsson á Gilsbakka er enn formaður en honum til liðsinnis koma
þau Ragnheiður Ásmundardóttir, Sigmundarstöðum í Þverárhlíð,
og Þorsteinn Þorsteinsson, Skálpastöðum. Sjálfur féll Magnús frá
þann 6. júní sama ár. Skömmu síðar kemur Davíð Pétursson, Grund
í Skorradal, inn í örnefnanefndina og Ragnheiður Ásmundardóttir
verður formaður hennar.
Skráning örnefna inn á gagnagrunn undirbúin
Þá um haustið verða svo viss þáttaskil í starfseminni. Þann 2. sept-
ember mætir Elísabet Haraldsdóttir, menningarfulltrúi Vesturlands,
á fund hjá FAB. Hún býður félagsmönnum á fund í Reykholti, þar
sem ræða á um söfnun og varðveislu örnefna. Að samkomunni
standa Menningarráð Vesturlands og Stofnun Árna Magnússonar –
Örnefnasafn. Þessi fundur er haldinn 30. september og sitja hann um
það bil 40 manns. Margt ágætra erinda er flutt á fundi þessum og
má segja að mest hafi verið fjallað um varðveisluþáttinn. Bar öllum
saman um að öruggasta leiðin væri að skrá örnefnin inn á loftmyndir
eða kortagrunn og helst þannig að öllum yrði aðgengilegt á netinu.