Bændablaðið - 15.12.2022, Síða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 15. desember 2022
FRÉTTASKÝRING
Dýraverndarfólk hefur í þessum
málum deilt hart á MAST fyrir
langlundargeð gagnvart meintu
dýraníði. Stofnunin hefur svarað
með því að benda á þröngan
ramma laganna, að stofnunin sem
stjórnvald skuli beita vægasta úrræði
hverju sinni til að ná fram úrbótum
og sé skylt að fara eftir skýrum
verkferlum.
Forkastanleg vinnubrögð
Anna Berg Samúelsdóttir, bú
fræðingur og landfræðingur, á sæti
í fagráði um velferð dýra auk þess að
sitja í stjórn Dýraverndarsambands
Íslands. Hún segir vinnubrögð
MAST hafa verið forkastanleg í
haust, í málum tengdum Nýjabæ í
Bæjarsveit í Borgarfirði. „Það að
hafa sett þessi 30 hross sem voru
í Borgarnesi, vannærð og vanhirt,
eins og sést hefur á myndum, út í
haga án fóðurs og húsaskjóls. Grös
voru þá farin að falla, haustlægðir
að hefjast og þau ekki í ástandi til
að bata sig. Ekki var vart við að
þeim væri gefið hey og þau fengu
ekki aðgengi að húsaskjóli né öðru
skjóli í þeim haustlægðum sem
gengu yfir í september og fram til
18. október, þegar Matvælastofnun
fór í aðgerðir.“
Hún gagnrýnir stofnunina
fyrir að hafa ekki gripið til tækra
úrræða, til að mynda þeirra sem
tíunduð eru í greinum 37, 38 og 39
í lögum um velferð dýra. Þar eru
tiltekin ákvæði um vörslusviptingu
dýra og haldlagningu, úrbætur sem
ekki þola bið og tímabundið bann
við dýrahaldi. Sérstaklega nefnir
hún 39. greinina þar sem fram
kemur að telji Matvælastofnun
það nauðsynlegt, til að stöðva eða
koma í veg fyrir illa meðferð á
dýrum, geti hún fyrirvaralaust og
til bráðabirgða svipt umráðamann
heimild til þess að hafa eða sjá um
dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar
eða dómur fallið.
Tilgreindir frestir til úrbóta
Hrönn segir að heimild til að
svipta umráðamann tímabundið
leyfi til að hafa eða sjá um
dýr, sé eingöngu virk eftir að
vörslusvipting hefur farið fram og
þá á grundvelli 37. eða 38. greina
laganna. Í 37. greininni kemur fram
að stofnuninni sé heimilt að taka
ákvörðun um að svipta umráðamann
dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna
ekki fyrirmælum um úrbætur
innan tilgreinds frests meðan 38.
greinin gerir stofnuninni heimilt
að vörslusvipta í tilvikum þar sem
aðgerðir þola ekki bið. „Í málum
þar sem stofnunin vörslusviptir
umráðamann dýrum, þá höfum við
heimild til að skipa bústjóra en við
getum ekki skipað bústjóra nema
varsla dýranna sé komin í hendur
MAST og bústjóri er því að sinna
dýrum sem er í vörslu MAST.
Það er svo stundum flóknara í
raunveruleikanum þó svo við höfum
þessar heimildir. Algengt er að leitað
sé til nærsamfélagsins og það er
ekki auðfundið þar sem fæstir vilja
eða geta komið inn og sinnt heilu
búi í einhvern tíma því þetta er oft
í einhverja daga og þá með oftast
erfiðan eiganda á hliðarlínunni. Það
þarf að fóðra, mjólka, moka út og
svo framvegis – og aðilar sem hafa
þekkingu á þessu eru sjálfir í búskap.
Eins þarf að huga að því að þetta
fer fram í húsum og á landi aðilans
sem hefur verið vörslusviptur og
sá getur virkilega gert okkur og
bústjóranum erfitt fyrir, til dæmis
með að neita aðgangi að tækjabúnaði
og heyi og jafnvel aðgangi að
dýrunum. Þannig að það hefur oft
verið mjög erfitt að fá inn aðila sem
vilja taka við sem bústjóri. Í erfiðum
tilfellum er MAST að vinna að þessu
með aðstoð lögreglu til að tryggja
öryggi okkar starfsfólks. Þarna eru
gjarnan aðstæður sem fáir vilja setja
sig í. Þannig að þó þessar heimildir
séu í lögum þá hefur verið áskorun
að beita þeim í raunveruleikanum.
En að setja bústjóra eða leggja á
tímabundið bann við búfjárhaldi
á eingöngu við þegar búið er að
vörslusvipta.“
Starfað samkvæmt lögum
frá 2014
Matvælastofnun starfar samkvæmt
lögum um velferð dýra, sem tóku
gildi árið 2014. Þá færðist eftirlit
með velferð dýra til stofnunarinnar
frá sveitarfélögunum. Með þeim
lögum fékk Matvælastofnun
rýmri heimildir til beitingar
þvingana og stjórnvaldssekta í
dýravelferðarmálum. Að sögn
Hrannar var hægt að beita
vörslusviptingum frá árinu 2014,
en á árunum 2015 til 2016 hafi verið
þróað verklag við beitingu sekta og
á árinu 2016 hafi stofnunin byrjað
að beita þeim.
Þótt rammi laganna sé
þröngur og starfað sé eftir
skýrum verklagsreglum, þá er
óhjákvæmilegt annað en það komi
í hlut eftirlitsfólks og sérfræðinga
MAST að meta alvarleika mála
hverju sinni – til að ákvarða
um aðgerðir eða aðgerðaleysi
stjórnvaldsins. Hrönn segir að
umgjörð eftirlitsins sé skýr. „Það
er settur rammi fyrir sérhæft
eftirlitsfólk til að gefa fresti í
verklagsreglunum. Það fer svo
eftir eðli máls hversu stuttur eða
langur frestur er gefinn, allt frá því
að vera einhverjar klukkustundir
í hámarkslengd frests sem er
einn mánuður. Eins ef ástandið er
metið það alvarlegt, þá er hægt að
bregðast strax við, samkvæmt 38.
grein þegar aðgerðir þola ekki bið.
Allt er þetta skýrt í verklagsreglum.
Sérgreinadýralæknar dýrategunda
sjá svo um að tryggja samhæfingu
milli landsvæða og samráð milli
dýrategunda, lengd fresta, aðgerða
og mat á frávikum. Í málum sem
þessum þá eru það sérhæfðir aðilar
sem meta meðal annars holdafar og
aðbúnað dýranna og eru viðbrögð
stofnunarinnar ákvörðuð út frá þeim
niðurstöðum,“ segir Hrönn og bætir
við að yfirlit um almennt eftirlit
með dýravelferð stofnunarinnar
sé aðgengilegt, meðal annars í
ársskýrslum hennar.
„Þar má sjá fjölda skoðunaratriða,
hlutfall þeirra sem er í lagi og þar
sem ólag er; bæði frávik og alvarleg
frávik. Þá má þar finna atriði, þar
sem aðilar hafa fengið úrskurð um
frávik en bætt úr þeim,“ segir hún.
Ill meðferð dýra
á aldrei að líðast
Anna Berg spyr hversu lengi
hægt sé að gefa fresti til úrbóta
þegar ástand dýra sé augljóslega
alvarlegt. „Ill meðferð dýra á aldrei
að líðast og það að fela sig á bakvið
stjórnsýsluferla í þessu tiltekna máli
finnst mér slæleg vinnubrögð.
Það er líka umhugsunarvert ef
þeim starfsmönnum MAST sem
að þessu máli koma finnst ástand
þessara skepna, sem myndir hafa
birst af, þoli bið á meðan málið er í
ferli. Með því er verið að gjaldfella
alvarleika málsins, sem er að þessi
dýr búa við alvarleg vanhöld, fá
ekki nægilegt fóður og grunnþörfum
þeirra er ekki sinnt. Og þrátt fyrir að
svo sé fyrirkomið með þessi dýr þá
fá eigendur ítrekaða fresti til úrbóta.
Málið hefði átt að vinna hratt og
örugglega og það átti aldrei að þurfa
að koma í fjölmiðla. Það er vel hægt
að gæta að öllum stjórnsýsluferlum,
sanngirnis, ásamt virðingu gagnvart
eignarréttinum samhliða tafarlausum
úrbótum þegar dýr eru í neyð,“ segir
Anna og vísar aftur til úrræða 39.
greinar laga um velferð dýra.
Engar ályktanir
eða fundargerðir fagráðs
Sem fyrr segir á Anna sæti í fagráði
um velferð dýra, tilnefnd af
Dýraverndarsambandi Íslands. Með
henni í ráðinu sitja þau Sigurborg
Daðadóttir yfirdýralæknir, sem
er formaður, Hilmar Vilberg
Gylfason, yfirlögfræðingur
Bændasamtaka Íslands og
tilnefndur af samtökunum, Katrín
Andrésdóttir dýralæknir, tilnefnd
af Dýralæknafélagi Íslands, og
Henry Alexander Henrysson,
heimspekingur og kennari í siðfræði,
tilnefndur af Siðfræðistofnun
Háskóla Íslands.
Hlutverk þess er meðal annars að
vera Matvælastofnun til samráðs um
stefnumótun og einstök álitaefni á
sviði velferðar dýra, að fylgjast með
þróun dýravelferðarmála og upplýsa
stofnunina um mikilvæg málefni
á sviði dýravelferðar auk þess að
taka til umfjöllunar mál á sviði
velferðar dýra að beiðni einstakra
fagráðsmanna.
Áðurnefnd dýravelferðarmál
voru tekin fyrir á fundum ráðsins
í nóvember en trúnaður gildir um
innihald þeirra og fundargerðir
hafa ekki verið gerðar opinberar.
Sigurborg staðfestir að málin í
Borgarbyggð hafi verið tekin til
umræðu á fundum ráðsins en ekki
hafi enn verið unnin ályktun frá
þeim til birtingar í fundargerð.
Raunar hefur ekki verið birt nein
fundargerð ráðsins frá 29. júní 2022.
Hún segir að því miður hafi orðið
misbrestur á þessum birtingum að
undanförnu en ætlunin sé að koma
því fljótlega í lag.
Ábendingum fjölgar
Þegar fjallað var um dýra
velferðarmálin í haust í fjölmiðlum
og á samfélagsmiðlum, var
það talsvert gagnrýnt að litlar
upplýsingar fengjust um málin frá
MAST. „Vinnuregla okkar er að
tjá okkur ekki um mál sem eru í
vinnslu, við þurfum að gæta að því
að fylgja persónuverndarlögum,“
segir Hrönn við þeirri gagnrýni.
Stofnunin hafi þó neyðst til að
senda frá sér tilkynningar um stöðu
einstakra mála, meðal annars til
að leiðrétta rangfærslur og til að
útskýra verklag sitt.
Talsvert hefur einnig verið
gagnrýnt að Matvælastofnun
virðist ítrekað hafa tekið fálega
ábendingum frá almenningi um
illa meðferð á dýrum – og jafnvel
ekki staðfest móttöku á slíkum
ábendingum. Þetta þykir skjóta
skökku við þar sem stofnunin óskar
sérstaklega eftir slíkum ábendingum
í gegnum sérstaka gátt á sínum
vef. Hrönn segir að ábendingum
um alvarleg dýravelferðarmál sé
forgangsraðað og lagt hafi verið upp
úr því að bæta viðbrögð við móttöku
ábendinga. „Haldið er utan um allar
ábendingar, skýrslur og aðgerðir.
Hins vegar virðist ábendingum vera
að fjölga og MAST er að skoða
leiðir til að sinna þeim.
Ef ábendingin reynist á rökum
reist, þá fer málið í hefðbundið
ferli innan stofnunarinnar þar
sem haldið er utan um stöðuna
í eftirlitskerfi stofnunarinnar.
Þar er skráð eftirlit, frávik,
viðbrögð, aðgerðir, tímafrestir
og svo framvegis. Eins má sjá í
samantektunum á ársskýrslunum
að það er einhver fjöldi ábendinga
sem eiga ekki heima hjá MAST
og þær eru þá áframsendar á
viðkomandi stjórnvald, til að
mynda heilbrigðiseftirlitin eða
Umhverfisstofnun. Hins vegar
fara ábendingar gegnum ákveðna
síu þar sem við sannarlega verðum
að forgangsraða okkar verkefnum
miðað við fjármögnun og mannafla.
Ég myndi þó telja að við séum
með gott eftirlit með alvarlegum
ábendingum.“
Mikil fjölgun ábendinga
Á síðustu þremur árum hefur
ábendingum fjölgað verulega um
illa meðferð á dýrum; árið 2019
bárust 650 ábendingar, 825 árið
2020 og á síðasta ári voru þær
komnar í 983.
Hrönn segir að stærsti hluti af
starfsliði MAST sé samhæfð vél.
„Allt miðar starfið að því að tryggja
eftirlit og framkvæmd eftirlits þó svo
að eftirlitsþeginn sjái svo eingöngu
sjálfan eftirlitsaðilann. Eftirlit með
dýravelferð er samtvinnað eftirliti
með frumframleiðslu, bændum,
dýraeigendum, sláturhúsum,
fiskeldi og svo framvegis.“
Úttekt og eftirlit
Í haust kallaði matvælaráðuneytið
eftir upplýsingum frá Matvæla
stofnun um framkvæmd eftirlits
og verkferla vegna velferðar dýra.
Vísað er til tilfella þegar grunur
leikur á að umráðamenn séu ekki
að uppfylla ákvæði laga, hvort
sem um ræðir almennt eftirlit eða
samkvæmt ábendingum sem berast
stofnuninni.
Ráðuneytið óskaði einnig eftir
upplýsingum um hvort stofnunin
telji skort á heimildum í lögum til
að tryggja velferð dýra og grípa
til viðeigandi ráðstafana þegar
aðstæður krefjast.
Þá vinnur Ríkisendurskoðun
á frumkvæðisúttekt á eftirliti
Matvælastofnunar með velferð dýra
og mun skila niðurstöðum hennar í
opinberri skýrslu til Alþingis.
Hrönn fagnar bæði erindi
matvælaráðuneytisins og úttekt
Ríkisendurskoðunar. „Ég er hins
vegar ekki sammála þeim sem segja
að augljóst sé að eitthvað mikið
sé að. Það er verið að framkvæma
faglega úttekt hjá Ríkisendurskoðun
og mikilvægt að rýna þær niðurstöður
til gagns ef við þurfum að bæta ferla
innanhúss. En þessi mál þurfa alltaf
að vera í endurskoðun og spurning
hvort við þurfum ef til vill ný tól og
tæki til að geta brugðist við breyttum
aðstæðum,“ segir hún.
Dýravelferðarmál í þjóðfélagsumræðunni:
Hvenær skal gripið til aðgerða
gegn illri meðferð á dýrum?
– Mikil fjölgun ábendinga frá almenningi um slík tilvik
Dýravelferðarmál hafa verið ofarlega á baugi þjóðfélagsumræðunnar
á undanförnum mánuðum, vegna nokkurra mála þar sem aðbúnaður
dýra hefur ekki verið lögum samkvæmt. Matvælastofnun (MAST)
hefur legið undir ámæli fyrir að bregðast seint við ábendingum um
slík alvarleg tilfelli og aðgerðarleysi, þegar ljóst þykir að dýr séu illa
haldin. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, hefur
sagt að hún telji að starfsfólk hennar vinni að dýravelferðarmálum
innan þeirra heimilda sem stofnunin hefur, af heilindum og einlægni en
klárlega þurfi að rýna faglega hvernig megi bæta vinnu stofnunarinnar.
Sigurður Már
Harðarson
smh@bondi.is
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri
Matvælastofnunar. Mynd / Aðsend
Anna Berg Samúelsdóttir, bú- og
landfræðingur. Mynd / Aðsend