Veiðimaðurinn - 01.09.1963, Qupperneq 15
GUÐMUNDUR DANÍELSSON:
Lokadogur.
NÚ eru mörg ár síðan, ein sjö ár, það
var 9. júlí 1956, sem ég lenti í kasti
við fiskinn mikla. Og ég hef ekki getað
gleymt þessu atviki, öðru nær, það er
öllu heldur eins og ég muni það betur
og betur, og allar mínar veiðiferðir síðan
hef ég farið í þeirri von að ég hitti aftur
þennan fisk og fengi í annað sinn að
reyna mig við hann. Annars hef ég skrif-
að um þetta sögu sem þið kannizt víst við,
og það er ekki tilgangur minn að fara að
endursegja hana. Því að hitt er frásagn-
arverðara, að þessi undarlega draumkynj-
aða ósk, sem ég hef ekki getað leyst mig
frá eða vaxið upp úr og virðist eiga skylt
við það að sitja í álögum, nú rættist hún
skyndilega í gær á lokadaginn — og þó
aðeins til liálfs.
Við erum tveir saman og erum komnir
að Ánni klukkan níu. Haustrigningarn-
ar eru byrjaðar, o, en hvað suðaustan slag-
viðrið ríkir einvalt og í algleymingi þenn-
an dag, með söngli, dyn og súg. Fellin í
vestri og norðri, þau eru öll úr sögunni,
þurrkuð út, en mýrin í suðri flóir í vatni.
Straumlaust og þunglynt og án farvegs
seytlar regnvatnið um sölnaðan bithaga
septemberdagsins, þar sem bændur og
veiðimenn höfðu fáum dögum fyrr ekið
jeppum sínum og traktorum þurrum
hjólum, undir bláum himni og sól.
Jú, enn einu sinni er ég staddur við
Ána, þetta mikla fljót, sem í bláhvítum
flaumi flytur alla strauma fram, berg-
vötn og jökulbráð, og lætur fleiri strengi
kliða en nokkur músíkant.
Hér er nú vík milli tveggja holta sem
teygja klettarana út í fljótið. Við efra
holtið dynur vatnið fram á háum flúðum
milli rauðra víðihólma og svartra dranga
á víxl, en þar sem neðra holtið þrengir
að, þar verður aðeins þungur straumur,
afar þungur langur strengur, með sígandi
aðdraganda, þar sem lygna víkurinnar
endar og þungstreymið tekur við.
Lífið er stutt, en Áin er löng, mér end-
ist kannski ekki lífið til að kanna alla
þessa veiðistaði, þetta er í þriðja skiptið
sem ég kem hingað.
Við stönzum á sandeyrinni fyrir botni
víkurinnar, skrúfum hjólin á stengurn-
ar, þræðum h'nurnar, beitum. Eg er með
sænska níu feta kaststöng, hálfsjálfvirkt
Mitchel spinnhjól, keypt í Grænlandi
fyrir tveimur árum, og nýja átján punda
girnislínu. Öngullinn er minnsta tegund
laxöngla, svo að silungur allt niður í eitt
pund lætur sig ekki muna um að glevpa
hann. Þetta er að mínum dómi fullgildur
búnaður, ég hef iðulega veitt vænan
fisk, allt upp í sextán punda lax, með
þessum tækjum, og sannreynt þol þeirra,
það hvarflar ekki að mér að þau bregðist
mér, ekki meðan nokkurri lipurð er
beitt, jafnvel þó fisktirinn mikli væri
annars vegar.
Veiðimacurinn
b