Skessuhorn


Skessuhorn - 09.11.2022, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 09.11.2022, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 9. NÓVEMBER 202218 Rebecca Cathrine Kaad Osten- feld býr á Hólum í Hvammssveit ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum en þar rekur hún einnig dýragarð og dýraathvarf. Síðustu rúm tíu ár hefur hún unnið í einu matvöruversluninni sem starfrækt er í Búðardal en sú verslun hefur á þeim tíma verið undir merkjum Samkaupa, sem Samkaup strax, Kjörbúðin og nú Krambúðin. Í síð- ustu viku, mánudaginn 31. október var Rebeccu sagt upp störfum, fyrirvaralaust, vegna skipulags- breytinga innan fyrirtækisins. Hún ákvað eftir samtal við stéttarfélagið sitt að birta mynd af uppsagnarbréf- inu á Facebook og er óhætt að segja að það hafi vakið upp mikil og sterk viðbrögð í þjóðfélaginu. Rebecca ákvað fyrst og fremst að greina frá uppsögninni á Facebook til þess að láta vini sína og viðskiptavini vita af hverju hún væri ekki lengur í vinnunni. Henni fannst þeir eiga skilið að vita sannleikann. Rebecca segist átta sig á því núna að hún hafi ekki verið metin að verðleikum á vinnustaðnum en hún mátti sæta leiðinlegri framkomu frá yfirmanni og samstarfsfólki, sem hún veit núna að var hreint einelti. „Ég finn fyrir svo mikilli hlýju“ „Stuðningurinn maður minn! Núna er fólk frá útlöndum búið að sjá þetta og er að senda mér skila- boð,“ segir Rebecca þegar blaða- maður sest niður með henni heima á Hólum til að heyra hennar sögu. Rebecca slekkur á netinu á sím- anum sínum á meðan á spjall- inu stendur til að verða ekki fyrir truflun en síðustu daga hefur hún fengið um 400 skilaboð frá fólki sem vill sýna henni væntumþykju og stuðning. Nær allir fjölmiðlar á landinu hafa haft samband við hana eða vitnað í færslu hennar á Facebook og svo er röddin farin, því símtölin skipta tugum. „Mér þykir svo vænt um þetta. Og fólk sem ég þekki ekki neitt persónu- lega, en hef hitt í vinnunni, er að hringja í mig eða senda mér skila- boð og ég finn fyrir svo mikilli hlýju,“ segir Rebecca sem virð- ist vera búin að jafna sig á áfall- inu þótt sárið sé langt frá því að vera gróið. Hvött til að mæta í hrekkjavökubúning á uppsagnardaginn Rebecca sýnir blaðamanni Face- book skilaboð sem hún fékk send um klukkan 16, sunnudaginn 30. október frá yfirmanni sínum, verslunarstjóra Krambúðarinnar í Búðardal. Verslunarstjórinn hvetur hana þar til að mæta í hrekkja- vökubúningi, ef hún vill, í vinnuna daginn eftir því að hrekkjavökuvið- burður var fyrirhugaður í búðinni seinnipart þess dags, þar sem búið var að skreyta búðina og von var á börnum og foreldrum. Rebecca vaknaði snemma þennan mánu- dag og útbjó sig sem raðmorðingja, með grænt hár og blóð í andliti og fötum. „Ég var búin að leggja mig alveg þvílíkt fram með búninginn og svo kem ég inn í vinnu alveg ógeðsleg og verslunarstjórinn segir bara; „ég hafði ekki tíma í morgun til að fara í búning, það kom svo- lítið annað upp á sem ég þurfti að klára fyrst.“ Ég verð alveg hissa og hugsa bara ókei.. ég reyni bara að gera mitt en svo kemur næsti starfs- maður í vinnuna og hann er ekki heldur í búningi og þá líður mér náttúrulega ótrúlega óþægilega, að ég sé bara ein í búningi og alveg öll úti í blóði. Sá starfsmaður finnur svo einhvern búning sem er búinn að liggja í fjögur ár uppi á hillu inni á lager og fer í hann. En ég reyndi bara að hugsa ekki um þetta og að hafa gaman,“ segir Rebecca um mánudagsmorguninn en þegar hún var að sinna almennum störfum frammi í búð kemur inn yfirmaður hennar að sunnan sem sér um rekstur allra Krambúða á landinu. Með honum í för var mannauðs- fulltrúi. Ekkert persónulegt, en talar of mikið „Ég heilsa þeim bara strax og við förum eitthvað að grínast en svo held ég áfram að vinna,“ segir Rebecca. Stuttu seinna kallar versl- unarstjórinn á Rebeccu og biður hana um samtal inni á kaffistofu þar sem fyrir eru yfirmennirnir tveir að sunnan. „Ég sest þarna við kaffi- borðið með verslunarstjóranum og mannauðsstjóranum en það eru ekki fleiri stólar svo rekstrar- stjórinn stendur þarna hjá okkur. Þarna er ég með blóð rennandi út um munninn og verslunarstjór- inn segir mér að nú þurfi að segja mér upp,“ segir Rebecca og kemst við þegar hún rifjar upp atvikið. „Ég er fullorðin kona, búin að vinna úti um allt og hef aldrei lent í neinu veseni á vinnustað. Þarna er ég klædd upp sem raðmorðingi og þrír yfirmenn taka mig á fund til að segja mér upp,“ segir Rebecca og bendir á valdaójafnvægið inni á þessari litlu kaffistofu á þessu augnabliki. Hún innti svo versl- unarstjórann eftir því hvort upp- sögnin væri vegna persónulegra ástæðna. „Þá segir verslunarstjór- inn, nei ekkert persónulegt, en eins og ég hef sagt þá talar þú of mikið við viðskipavini, þú átt ekki að tala svona mikið.“ Þarna hafi verslunar- stjórinn talað af sér því að sögn Rebeccu greip rekstrarstjórinn inn í og sagði uppsögnina einungis vera vegna skipulagsbreytinga. „Þarna var ég bara eitt spurningamerki, má ég ekki tala við viðskiptavini? Er það ekki númer eitt, tvö og þrjú að tala við þá, spurði ég, en þá sagði rekstrarstjórinn bara nei það er það nú ekki,“ segir Rebecca. Nú er hún hins vegar búin að skoða reglur Samkaupa og túlkar þær svo að við- skiptavinir séu þar víst númer eitt, tvö og þrjú. Uppsögnin var í uppsiglingu í dágóðan tíma Rebecca var skiljanlega í miklu upp- námi þegar á þessum fundi stóð. Hún reyndi að hringja í manninn sinn til að fá hann til að koma og lesa yfir uppsagnarbréfið fyrir sig, því hún átti að skrifa undir það á staðnum. „Ég skildi ekki bréfið, ég skildi bara ekki neitt á þessu augna- bliki. Og ég var auðvitað reið og sár og spurði hvort þessi uppsögn væri búin að vera lengi í uppsiglingu og þá segir rekstrarstjórinn að hún hafi verið í uppsiglingu í dágóðan tíma,“ segir Rebecca en hún hafði aldrei fengið neina viðvörun. Er hægt að túlka þetta öðruvísi en sem einelti? Til að taka saman: Rebecca var sérstaklega beðin um að mæta í hrekkjavökubúningi í vinnuna daginn sem fyrirfram var búið að ákveða að segja henni upp og fyrir lá að hún yrði því ekki með í hrekkjavökuviðburði sem var á dagskrá seinnipart þess sama dags. Rebecca tárast þegar hún reynir að finna orðin til að bregð- ast við eða lýsa sínum tilfinn- ingum vegna þessarar aðfarar, sem varla er hægt að túlka öðru- vísi en sem einelti. „Ég var oft grátandi á leið í vinnuna og heim úr vinnunni. Það eru tvö ár síðan maðurinn minn byrjaði að ham- ast í mér og segja mér að hætta í þessari vinnu því þetta er mann- skemmandi vinnustaður. En ég er bara þannig að ég geri allt fyrir fólk og ég elska þessa búð. Í öll þau skipti sem fólk hér í sveitinni hefur gagnrýnt þessa verslun hef ég alltaf staðið með henni og bent fólki á hvað það er gott að hafa þessa verslun hér,“ segir Rebecca og bætir við: „En núna er ég svo glöð að vera laus þaðan, þessi búð og þetta fólk á mig ekki skilið. Nú fer maður bara og verslar í Borgar nesi. Við fórum í Bónus- ferð í gær, þannig ef þú skildir vilja mjólk í kaffið, þá er hún til,“ segir Rebecca og brosir. „Hvernig vil ég láta leiðir okkar skilja?“ Rebecca skrifaði undir uppsagnar- bréfið án þess að skilja það fyllilega. Hún segist hafa þurft að komast út úr herberginu sem fyrst og eina flóttaleiðin var því að skrifa undir. Þá hafi hún einnig þurft að hugsa hvernig hún ætlaði að láta leiðir skilja við þetta fólk, fara út í fýlu og skellandi hurðum eða kveðja eins og almennileg manneskja. „Það eina sem var í stöðunni hjá mér var að knúsa þetta lið innilega og segja hafðu það gott. Þannig ég gerði það. Ég gaf þeim knús og hugsaði bara að nú væri ég með allt mitt á hreinu. Ekki með neinn dónaskap. Svo var mér fylgt út,“ segir Rebecca um síðasta skiptið sem hún sá þetta fólk og búðina. Verslunarstjórinn elti hana í gegnum verslunina þar sem hún safnaði saman dótinu sínu og kvaddi samstarfsmann áður en hún fór út í bíl. Gaf í fyrsta sinn neikvæða umsögn Rebecca nefnir að reglulega séu sendar út HR Monitor kannanir til starfsfólks Samkaupa þar sem spurst er fyrir um starfs ánægju og aðra mikilvæga þætti í starfi og hefur hún iðulega svarað þeim jákvætt. Um mánaðamótin sept/ okt svaraði hún slíkri könnun í fyrsta sinn neikvætt. „Þá var ég komin með upp í kok og sagði bara frá því að ég væri mikið til ein í búðinni á meðan allir hinir starfs- mennirnir væru úti að reykja, oft í langan tíma. Svo í byrjun október kallaði verslunarstjórinn mig á fund og þá sagði ég honum bara frá því að ég væri rosalega þreytt á þessu ástandi og þetta var í fyrsta skipti sem ég kvartaði út af þessu,“ segir Rebecca. „Venjulega þegi ég yfir svona, en þegar allir eru úti að reykja og hlæja og hafa gaman þá verð ég auðvitað sár. Ég er ein að vinna og sjá um búðina og hinir starfsmennirnir geta ekki einu sinni talað við mig af því ég reyki ekki. Ég reyndi oft að spjalla en þau höfðu bara engan áhuga á að leyfa mér að vera með. Ég átti bara að standa vaktina á meðan hinir höfðu gaman,“ segir Rebecca og bætir því við að í skólum sé imprað á því við börn að allir einstaklingar séu dýrmætir og koma eigi fram við náungann af virðingu. „Á það ekki lengur við þegar fólk fer út á vinnumarkaðinn,“ spyr hún. „Og svo er maður bara rekinn!“ Rætt við Rebeccu Cathrine Kaad Ostenfeld sem sagt var upp störfum í Krambúðinni í Búðardal í síðustu viku Rebecca var valin Dalamaður ársins 2022. En meðal umsagna sem fylgdu þeirri tilnefningu voru að Rebecca sé yfirburðarmanneskja í mannlegum samskiptum, frábær, dugleg, yndisleg kona með stórt og gott hjarta, dásamleg, hress, yndisleg og hjálpsöm. Þá leiðir hún hjá sér allt hið neikvæða og hefur skapað jákvætt orðspor fyrir svæðið. Ljósm. gbþ Rebecca elskar dýr en hún rekur dýragarð og dýraathvarf að Hólum í Hvamms- sveit. Ljósm. gbþ

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.