Skessuhorn - 09.11.2022, Blaðsíða 25
MIÐVIKUDAGUR 9. NÓVEMBER 2022 25
Boðið verður upp á blóðsykurs-
mælingar í Borgarnesi í næstu viku.
Hún er á vegum Lionsklúbbs-
ins Öglu. Mælingin verður í fjóra
daga, 15.-18. nóvember, á milli
klukkan 11 og 12 og svo síðdegis
frá klukkan 16 til 18 í Hyrnutorgi.
„Við hvetjum sem flesta til að nýta
sér þetta tækifæri og huga vel að
heilsunni,“ segir í tilkynningu frá
Lionsklúbbnum.
Hvað er sykursýki 2?
En til að grennslan nánar um hug-
takið sykursýki grípum við hér
niður í fræðsluefni sem Lions-
hreyfingin hefur tekið saman um
sykursýki 1 annars vegar og sykur-
sýki 2 hins vegar. Vel er þekkt að
sykursýki af tegund 2 er vaxandi
vandamál í heiminum öllum, oft
kölluð áunnin sykursýki. Í saman-
tekt Lionshreyfingarinnar segir
að farið sé að hægja á greiningu
nýrra tilfella á vissum svæðum,
eins og í hinum vestræna heimi, en
heildarfjöldinn sem býr við þennan
langvinna sjúkdóm er þó enn að
aukast. Er það meðal annars vegna
framfara í meðferð sem hefur haft
þau áhrif að fólk lifir lengur en
áður og þá stundum með flókna
og erfiða fylgikvilla. Heildar-
byrði þjóð félagsins er þannig að
aukast. Lionshreyfingin hefur lagt
lið í þessu verkefni meðal annars
með stuðningi við beinar blóð-
sykursmælingar sem gjarnan svipta
hulunni af ógreindri sykursýki.
Flestir tengja þennan sjúkdóm
við óhollt mataræði, hreyfingar-
leysi og ofþyngd á fullorðinsárum.
Það er vissulega rétt að ofþyngd er
stærsti breytanlegi áhættuþáttur-
inn og það hefur reynst mögu-
legt að koma mörgum í sjúkdóms-
hlé sé tekið fast á þessum málum.
Ef grannt er skoðað kemur í ljós
að flestir einstaklingar sem eru of
þungir fá ekki sykursýki og ekki eru
allir með sykursýki of þungir eða
lífsstíllinn í molum. Undir sam-
nefnaranum sykursýki 2 leynast
þannig ýmis sérstök afbrigði með
misjafnlega flóknar erfðafræði-
legar orsakir - ættarsagan skiptir
þar höfuðmáli. Það er því réttara
að tala um sjúkdómshlé frekar en
lækningu ef vel tekst til með lífs-
stílsbreytingar eða aðra meðferð í
dæmigerðri sykursýki af tegund 2.“
Sykursýki 1
Sykursýki af tegund 1 er sjálfs-
ofnæmissjúkdómur sem þýðir að
líkaminn hefur brugðist við utan-
aðkomandi áreiti með myndun
mótefna sem síðan taka þátt í að
eyðileggja vissar frumur líkamans.
Ekki er vitað hvað það er í umhverf-
inu sem hleypir þessu ferli af stað
og fæstir gera sér grein fyrir því
að þessi sjúkdómur getur greinst
hvenær sem er ævinnar. Nýgengi
(fjöldi sem greinist á ákveðnu
tímabili og aldri miðað við höfða-
tölu) er svipað fyrir tvítugt og um
70 ára aldur. Varðandi sykursýki 1
hafa einnig orðið gríðarlegar fram-
farir í meðhöndlun, þó ekki sé hægt
að koma fólki í sjúkdómshlé eða
lækna þessa tegund sykursýki. Bæði
hafa orðið tæknilegar framfarir og
framfarir hvað varðar hvernig best
er að þjónusta einstaklingana svo
ná megi árangri. Æ fleiri fullorðnir
lifa með þennan sjúkdóm áratugum
saman, gjarnan með marga virka
fylgikvilla sem hægt er að halda
misjafnlega vel í skefjum.
Ástæða er til að hvetja sem allra
flesta til að nýta boð Lionshreyf-
ingarinnar um fría blóðsykurs-
mælingu, en þær fara að jafnaði
fram víðar á Vesturlandi en tíma-
setningarnar mismunandi.
mm
Dagur í lífi...
Umsjónarkennara
í Borgarnesi
Nafn: Guðrún St. Guðbrands-
dóttir
Fjölskylduhagir/búseta: Bý í
Borgarnesi með dætrum mínum,
þeim Hugrúnu Hönnu og Birtu
Rún.
Starfsheiti/fyrirtæki: Er lærður
hönnunar og smíðakennari og
hárgreiðslusveinn. Vinn í Grunn-
skólanum í Borgarnesi sem
umsjónarkennari 1. bekkjar.
Áhugamál: Jafnréttismál, smíðar
og alls kyns bras, föndur, útilegur,
ferðalög, fjölskylda og vinir, tón-
list, finnst mjög gaman að syngja
og glamra smá á gítar og íþróttir.
Dagurinn: Fimmtudagurinn 4.
nóvember 2022
Klukkan hvað vaknaðirðu og
hvað var það fyrsta sem þú
gerðir? Vaknaði klukkan sjö,
morgna mig, vek Birtu mína og
byrja á þessu hefðbundna, pissa,
tannbursta og klæða mig.
Hvað borðaðirðu í morgunmat?
Gerði mér búst með bönunum,
frosnu mangói, möndlumjólk,
súkkulaði próteini og vítamínum.
Hvenær fórstu til vinnu og
hvernig? Fór á bílnum klukkan
7:50
Fyrstu verk í vinnunni? Fara inn
í kennslustofuna mína og taka á
móti börnunum í 1. bekk, þennan
dag höfðu einhverjir ruglast og
biðu niður í íþróttahúsi þannig að
það þurfti að leysa úr því. Annars
fékk ég sögur um hvað þessar
elskur eru að hugsa, gera og pæla.
Svo byrjuðum við að vinna með
mynstur í stærðfræði.
Hvað varstu að gera
klukkan 10? Þá vorum
við að byrja á byrjenda-
læsisstöðvum þar sem
nemendur voru að vinna
með stafina Ff og Ii á
ýmsan máta. Ég var að
útskýra hverja stöð fyrir
þeim og koma þeim af
stað í vinnu.
Hvað gerðirðu í
hádeginu? Borðaði
soðna ýsu með kart-
öflum, smjöri, gúrkum
og rúgbrauði. Spjall-
aði svo við vinnufélag-
ana á kaffistofunni. Greip líka
vinnufélaga í að velja sér jólapeysu
sem verið er að fara að panta fyrir
komandi jólapeysudaga.
Hvað varstu að gera klukkan
14? Var að senda póst á foreldra
og undirbúa bangsa- og nátt-
fatadag sem verður á morgun.
Hvenær hætt og það síð-
asta sem þú gerðir í vinnunni?
Stimplaði mig út korter í fjögur
eftir að hafa lokað tölvunni,
gluggum og slökkt ljós.
Hvað gerðirðu eftir vinnu? Fór
beint í að undirbúa dósasöfnun
með 5. flokki kvenna í fótbolta hjá
Skallagrími og við byrjuðum svo
að ganga í hús og telja dósir og
flöskur frá klukkan 16 til 19. Eftir
það fór svo allur hópurinn saman
út að borða eftir vel heppnaða
fjáröflun.
Hvað var í kvöldmat og hver
eldaði? Starfsfólk N1 í Borgarnesi
sá um eldamennskuna, kjúklinga-
bitar og franskar urðu fyrir valinu.
Hvernig var kvöldið? Yndislegt
kvöld með spjalli við tvær frænkur
og dætur, tók mig líka saman fyrir
helgarferð til Reykjarvíkur.
Hvenær fórstu að sofa? Allt of
seint eða klukkan eitt eftir mið-
nætti.
Hvað var það síðasta sem þú
gerðir áður en þú fórst að
hátta? Lauk við að semja bréf
fyrir Hinsegin Vesturland sem við
ætlum að senda á sveitarfélögin á
Vesturlandi, þar sem við hvetjum
þau til að gera fræðslusamning við
Samtökin 78.
Hvað stendur upp úr eftir
daginn? Samveran með öllu þessu
frábæra fólki. Krúttunum mínum í
1. bekk og samkennurum, duglegu
stelpunum í 5. flokki og foreldrum
þeirra, dætrunum og frænkunum.
Svo var gott að ljúka við bréfið til
sveitarfélaganna.
Eitthvað að lokum? Verum
umburðarlynd og góð við hvort
annað.
Boðið upp á blóðsykursmælingu í Borgarnesi í næstu viku
Mæling á blóðsykri í Hyrnutorgi í nóvember 2014. Ljósm. úr safni Skessuhorns.
Eftir hádegi í gær tóku nemendur
Brekkubæjarskóla á Akranesi sig
til og trommuðu í takt á skóla-
lóðinni. Tilefnið var Dagur gegn
einelti og trommuðu krakkarnir í
alls sjö mínútur, eina mínútu fyrir
hvern dag vikunnar sem þau vilja
hafa eineltislausan. Þá var einnig
myndaður regnbogi af nemendum
í litum regnbogans til þess að tákna
fjölbreytileikann og umburðar-
lyndi gagnvart því að allir eru ólíkir
og mega vera það. Blaðamaður
Skessuhorns var á staðnum, stalst
upp á þak og tók nokkrar myndir.
vaks
Trommað gegn einelti
í Brekkubæjarskóla