Skessuhorn


Skessuhorn - 09.11.2022, Blaðsíða 27

Skessuhorn - 09.11.2022, Blaðsíða 27
MIÐVIKUDAGUR 9. NÓVEMBER 2022 27 Vísnahorn Á mínum æskuárum var Egill Jónasson á Húsavík einna þekktastur hagyrðinga og gamanskálda hérlendis. Allavega var það svo í mínum huga hvað sem öðrum hefur fundist. Egill var lengst af erfiðisvinnumaður og ekki heilsuhraustur þannig að ekki hlóðst honum auður í bú af þeim verðmætum sem mölur og ryð fá grandað en hugsanlega af öðru. Hannes Finnbogason var um tíma læknir Húsvíkinga en gerðist síðan læknir Húnvetn- inga á Blönduósi og fékk þessa kveðju frá Agli eftir að hann var fluttur vestur: Eiginlega ekki telst að ég neinum hrósi þó ég vildi vera helst veikur á Blönduósi. Daníel Daníelsson var um árabil læknir á Húsavík og tókst þá mikil vinátta með honum og Agli sem stundum þurfti á þjónustu hans að halda. Þegar Daníel settist svo að í Neskaupstað fékk hann nokkur ljóðabréf frá vini sínum sem nú skal aðeins flett í: Ég er ekkert „olræt“ lengur, enga stund mér líður vel. Einhver fjandinn að mér gengur innan rifja, Daníel. Allt mér finnst sem gremji geðið, gamla mynd ei konan sér. Ég hef signt mig, ég hef beðið, ég hef drukkið sjeniver. Í mér heyrist snökta og snarka, snýtur ekki breyta svip. Allt er límt í lungu og barka líkt og það sé Jötungrip. Hvað á ég að hugsa og halda? Heldurðu að birti þetta él? Hvers á svona grey að gjalda? Gamalt ræksni Daníel. Og svo koma valdir kaflar úr næsta bréfi: Ekki neitt að gagni gert get ég fremur en klerkur. Liggur mér um lendar þvert lúa og gigtarverkur. Syngur ekki sálin glöð „sálma langa og marga“ meðan ryðguð búrhnífsblöð beinin urga og sarga, — Ennþá gengur ekki vel, erfið brekka í fangi, ég er orðinn eins og vél sem ekki er í fullum gangi. Afköst gerast ofursmá eftir vélargreyið, þó að hrint sé aftaná ekkert fær hún dregið. Virðist þó að vatnskassinn vera í tengingonum og starf sitt vinnur startarinn, -stendur ekki á honum. Veit ég ei hvað veldur töf vélar af þessu tagi. Blöndungur og bensíngjöf bæði í góðu lagi. Aðgerðar sést engin þörf þó undir mér sé kropið. Pípa hver sín passar störf og pústurrörið opið. Hallast ég nú helst að því -þó hart sé - af þessu kyni- að skipta um drif og öxul í Agli Jónassyni. Séra Hjálmar Jónsson fékk á sínum tíma blóð- tappa í vinstri fót en losnaði sem betur fer við þann aukabúnað með góðra búkvirkja hjálp og orti þá: Erfiðan komst yfir hjallann, aftur kveðum nú við raust, blóðið rennur um mig allan alveg fyrirstöðulaust. Rögnvaldur Rögnvaldsson sem lengi rak verslun undir kirkjutröppunum á Akureyri var ágætlega hagmæltur maður. Eitt sinn lenti hann á sjúkrahúsi vegna blóðtappa og varð þá að orði: Letin slappar líkamann, leikni er kappans prýði. En æðatappatogarann ég teldi happasmíði. Stundum koma upp umræður meðal manna um okkar ágæta gjaldmiðil sem vissulega hefur bæði kosti og galla eins og reyndar allir hlutir. Líklega hefur verið einhver umræða um Evruna þegar Hermann Jóhannesson orti: Við búum í fjármálaumhverfi gömlu og grónu þar sem gjaldþrot og blankheit eiga sinn hefð- bundna stað. Það kemst upp í vana að eiga aldrei til krónu og evran breytir nú sáralitlu um það. Það er nefnilega þetta með verðmætin, sköpun þeirra og útdeilingu, sem okkur gengur stundum illa að verða fullkomlega sammála um. Sjaldan finnst okkur við fá nægj- anlegt fyrir okkar framlag en aðrir gera hins- vegar jafnaðarlega meiri kröfur en sanngjarnt er (að okkar mati). Um almenna verðlagningu nauðsynja sagði Hermann: Þótt við förum margs á mis er mikilvægt að hugsa skýrt. Það sem ekki er ókeypis álít ég að sé of dýrt. Ekki skal dregið úr því að góðir kennarar séu þyngdar sinnar virði í gulli (minnsta kosti séu þeir grannholda) og eigi almennt allt það besta skilið. Þó getur þeim ágætu mönnum gengið misvel að ná góðu sambandi við nem- endur sína. Þórir Steinþórsson skólastjóri í Reykholti var stór maður og svipmikill og gekk í daglegu tali nemenda undir nafninu „Gæinn.“ Sambandi hans við nemendur sína mætti kannske lýsa sem blöndu af ótta og virðingu en kannske ekki í alveg jöfnum hlut- föllum. Hann kenndi stærðfræði og þar með algebru. Eitt sinn tók hann Hermann Jóhann- esson upp að töflu en Hermann sem sat um miðja stofu kveið eitthvað fyrir úrlausninni og orti á meðan hann gekk upp að töflunni: Upp að töflu einn ég fer. Á mig kallar Gæinn. Hárin rísa á höfði mér og herpist saman maginn. Ýmsir báru við vísnagerð í Reykholtsskóla á þessum árum en vissulega misjöfn efnistök og efnisval og þar með áhrif á prenthæfi fram- leiðslunnar. Auðun Benediktsson orti um skólabróður sinn er þeir hittust eftir sum- arlangan aðskilnað: Í fyrra þótti hann félegur, fljóðin sóttu á hann. Er nú þróttlaus, þrekaður, það er ljótt að sjá hann. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Er nú þróttlaus, þrekaður — það er ljótt að sjá hann Síðustu daga hefur umræða um svo- kallað „nagladekkjagjald“ litið dags- ins ljós eftir að Umhverfisstofnun viðraði hugmyndir um slíkt gjald. Sú hugmynd gengur út á það að sveitar- félögum verði veitt heimild til að rukka ökumenn um gjald þegar þeir keyra á vegum þess á nagladekkjum. Að mati stofnunarinnar er hægt að draga úr svifryksmengun með slíkri aðgerð. Vissulega er svifryksmengun skaðvaldur á lýðheilsu fólks, og okkur ber að tryggja viðunandi umhverfis- gæði. Hins vegar staldra margir, af góðri ástæðu, við þessa hugmynd. Raunverulegi kostnaðurinn Margar vangaveltur vakna varðandi aðgerðina, þýðingu hennar og fram- kvæmd. Margt er óljóst í þessum efnum, en við getum verið sammála um eitt. Það er að vissulega mun gjaldtaka sem þessi skapa sveitarfé- lögum aukinn hagnað og dregið að einhverju magni úr svifryksmengun, en við allan plús kemur mínusinn fram einhvers staðar. Hver er kostn- aðurinn? Duldi kostnaðurinn við þessa aðgerð kemur ekki fram í tölum á Excel skjali, enda er ekki hægt að meta hann til verðs. Í raun er hann ekki svo dulinn því við vitum öll tilgang nagladekkja. Að draga úr notkun nagladekkja dregur einnig úr umferðaröryggi. Engan afslátt af öryggi Öryggi fólks á alltaf að vera í farar- broddi þegar við ræðum aðgerðir í samgöngum. Sú ætlan að heim- ila sveitarfélögum val um að leggja gjald á notendur nagladekkja er and- stæð umferðaröryggi. Við værum að stuðla að aukinni notkun illa útbú- inna dekkja í umferðinni. Undirrit- aður starfaði sem lögreglumaður í 23 ár og hef séð afleiðingar af slæmum dekkjabúnaði bifreiða of oft til að geta talið þau óþörf. Aðstæður á götum Reykjavíkurborgar, þjóð- vegum landsins og byggðum um land allt geta óvænt orðið stór hættulegar og þar hafa nagladekk sífellt endur- tekið reynst nauðsynlegar. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt þegar það kemur að öryggi fólks í umferðinni. Frekar viljum við lágmarka alla hættu og draga úr tjóni á ökutækjum, slysum á fólki og dauðaslysum. Hér á landi höfum við náð góðum árangri í umferðaröryggi og höfum ekki efni á því að taka skref til baka í þeim efnum. Landsbyggðarskattur? Þá horfir undirritaður sérstaklega til umferðaröryggis einstaklinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa reglulega að aka þangað vegna vinnu, til að sækja þjónustu eða hvað annað sem þarf. Plúsinn á Excel skjalinu kemur augljóslega að mestu leyti úr þeirra vasa. Þess má geta að vinnusóknarsvæði landsbyggðarinnar teljast oft í tugum kílómetra og erfitt er að áætla veður og færð. Allt frá ljúfu logni yfir í frost og rok. Við vitum aldrei fullkom- lega hvaða veðrátta mætir þér. Þess vegna verðum við að útbúa ökutækin okkar í samræmi við það. Þessar aðstæður krefjast viðunandi öryggis- búnaðar, þ.á.m. nagladekkja, enda hafa aðstæður hér á landi oft verið til þess fallnar að nagladekk hafa reynst nauðsynleg. Ætla sveitarfélög sér það í alvöru að leggja gjald á fólk sem nauðsynlega þarf á nagladekkjum að halda öryggisins vegna? Verulega óljós framkvæmd Að auki má vissulega setja spurn- ingarmerki við framkvæmd slíkrar aðgerðar, en hún er með öllu óljós og erfitt er að átta sig á því hvernig hún eigi að vera. Að vísu væri hún nokkuð skrautleg, og þá sérstaklega hvað varðar einstaklinga sem keyra milli sveitarfélaga. Þar koma einstak- lingar af landsbyggðinni aftur sér- staklega til álita. Þegar ég, sem bý í Skagafirði og keyri töluvert til höfuðborgarsvæð- isins og til baka vinnunnar vegna, keyri til dæmis til Leifsstöðvar í flug. Förum stuttlega yfir þá ferð: Ég legg af stað að heiman í Skaga- firði, þá yfir í Skagabyggð, Húna- byggð, Húnaþing vestra, Borgar- byggð, Hvalfjarðarsveit, Reykja- víkurborg, Mosfellsbæ, aftur Reykja- víkurborg, þá Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Voga, Reykjanesbæ og loks Suðurnesjabæ. Til að forðast furðulega gjaldtöku yrði undirritaður að vera með tvö- faldan dekkjagang og skipta um dekk á miðri ferð ef sum þessara sveitar- félaga myndu leggja á umrætt gjald. Það liggur fyrir að dæmið gangi ekki upp. Að sama skapi veltir maður fyrir sér að væntanlega yrði gjaldtakan innt af hverju sveitarfélagi fyrir sig. Spurningin er þá þessi; myndi einstaklingur sem færi í sambærilega ferð að greiða hverju einasta sveitar- félagi gjaldið. Þessi ferð væri orðin töluvert dýrari þar sem bensíngjaldið væri varla það sem ökumaður hefði lengur áhyggjur af. Leiðin áfram Af öllu þessu þá er augljóst að hug- myndin eigi ekki stoð í raunveruleik- anum nema þá með það í huga að fólk eigi að neyðast til að greiða enn eitt gjaldið fyrir að geta ferðast í eigið ökutæki. Það að draga úr svifryksmengun er vissulega göfugt markmið sem við sammælumst um. Hins vegar eru umrædd hugmynd Umhverfis- stofnunar slæm. Ef hugsað er um hvernig hægt sé að stuðla að fal- legra umhverfi, betri umhverfis- gæðum og aukinni lýðheilsu þá varðar það einnig sveitarfélögin og þjónustu þeirra. Þá aðallega hreinsun gatna og gangstétta, sem lengi hefur sætt gagnrýni t.d. í Reykjavíkur- borg. Má vera að Reykjavíkurborg og eftir atvikum önnur sveitarfélög geti staðið betur að hreinsun gatna til að minnka svifryksmengun í sínu nærumhverfi? Já, ég tel svo vera. Það er leiðin áfram. Stefán Vagn Stefánsson Höf. er þingmaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis Pennagrein Þýðing nagladekkjagjalds?

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.