Bændablaðið - 27.04.2023, Síða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 27. apríl 2023
VIÐTAL
„Ég er búinn að vera viðloðandi
þetta síðan 1975 – þá kláraði ég
B.S.-prófið á Hvanneyri,“ segir
Pétur Diðriksson, en til ársins
1992 rak hann, ásamt eiginkonu
sinni, Karítas Hreinsdóttur, býlið
með föður Péturs, þegar bróðir
hans keypti sig inn í búskapinn. Hin
hjónin á bak við reksturinn heita
Vilhjálmur Diðriksson og Ágústa
Gunnarsdóttir.
Pétur er uppalinn á Helgavatni,
en Karítas er frá Ljósavatni.
„Hvanneyri leiddi mann hingað
suður,“ segir Karítas, en þar stundaði
hún búfræðinám og tók verknám á
Helgavatni. „Ég fór ekkert aftur. Ég
framlengdi bara verknámið – það
eru að verða fjörutíu ár.“
Heitavatnið grunnurinn
Pétur segir grunninn að býlinu hafa
verið lagðan fyrir áratugum síðan,
en árið 1963 tóku pabbi hans og
afi í notkun 72 kúa básafjós, sem
var mjög stórt á sínum tíma. „Afi
minn, Jón Kjartansson, keypti þessa
jörð á frjálsum markaði árið 1947,
meðal annars út af heita vatninu.
Hann átti heima í Reykjavík, en
á þeim árum var byrjað að leggja
hitaveituna og sá hann möguleikann
í því. Pabbi kom árið 1951,“ segir
Pétur, en Diðrik var tengdasonur
Jóns Kjartanssonar.
Uppbygging búsins hefur
ekki gerst á einni nóttu, en
Pétur segir almennt hafa verið
leitast við að framkvæma fyrir
eigið fé. Skuldabaggi fylgi því
ekki rekstrinum sem geri tveim
fjölskyldum kleift að hafa atvinnu
af búinu. „Þegar þú fjárfestir mikið
og tekur mikið af lánum þarftu að
hagræða svo það verði sem minnst
vinnuafl og þá hagræðirðu aðra
fjölskylduna af búinu. Við höfum
ekki þurft að fara þá leið.“
Sífellt vakandi fyrir kostnaði
Þau hafa gætt að því að halda
húsakosti og ræktun í góðu standi
með viðhaldi og endurræktun.
Pétur segir einnig nauðsynlegt
að endurnýja og fjárfesta í nýjum
húsakosti með reglulegu millibili.
Síðustu stóru framkvæmdina fóru
þau í árið 2010, en þá hafi árað
þannig að mjög auðvelt hafi verið
að ná hagstæðum samningum við
byggingaverktaka.
Annað atriði sem Pétur segir
skipta máli sé að vera sífellt vakandi
yfir kostnaði. Við fjárfestingar
á vélum er gætt að því að þær
hæfi bústærðinni og reynt er að
velja tæki sem ganga ekki úr sér
af tækniástæðum. „Maður þarf að
gera sér grein fyrir því þegar maður
umgengst svona vélar að maður
ætlar að hitta þær aftur á vorin,“
segir Pétur, en rétt meðferð á vélum
segir hann dýrmæta.
Aðspurður um einhver dæmi
nefnir hann heyhleðsluvagn sem var
keyptur árið 2006 fyrir 3,6 milljónir
og er enn í fullri notkun. Pétur segir
hann gera jafnmikið og tæki sem
kosta tuttugu milljónir í dag. Þau
áttu ekki nógu öfluga dráttarvél fyrir
heyvagninn, en vissu af traktor sem
þau gátu tekið í skammtímaleigu
eftir þörfum og var hann einungis
notaður í heyskap. „Á þessum árum
skapaði það okkur tugi milljóna að
hafa ekki fjárfest í dráttarvél, en
á meðan keyptum við kvóta og
byggðum fjósið.“
Snemma með áburðar
- og fóðuráætlanir
„Upp úr 1985 fór ég að gera
áburðaráætlanir út á skítinn til að
spara áburð. Í gegnum áratugina
hefur maður sparað um eina og hálfa
milljón króna á núvirði í áburð á
hverju vori vegna skítsins. Ef þú
gerir þetta í tuttugu – þrjátíu ár, þá
ertu kominn með fimmtíu – sextíu
milljónir í sparnað sem þú ert búinn
að ná þér í með því að liggja yfir
tölum og vinna eftir planinu.
Við höfum gert þetta líka með
fóðuráætlanir fyrir kýrnar – maður
hefur verið harður í því að gefa
kjarnfóður á réttan stað. Við erum
búin að vera með tölvutækni í
kjarnfóðrinu síðan 1998. Sú vinna
skilar kannski hundrað til tvö
hundruð þúsund krónum á mánuði í
sparnað á kjarnfóðri. Á tíu árum eru
þetta hátt í tuttugu milljónir. Þetta
eru hlutirnir sem skipta máli – þarna
renna stóru tölurnar í gegn. Bændur
eru á mjög góðu kaupi ef þeir setja
sig inn í þetta.“
Vinnuafl og afkastaminni vélar
Pétur segir einnig að í ljósi þess
að á bænum séu tvær fjölskyldur
og vinnuafl, þá sé hægt að gefa sér
meiri tíma í verkefnin og því hafi
þau komist upp með að nota minni
vélar. Þau mjólka til að mynda í
fjósi byggðu árið 1979. Tólf tækja
mjaltabásinn er að grunni til frá
þeim tíma, en var uppfærður með
nýjustu tölvutækni árið 1998.
Aðspurður segir Pétur að
verkaskiptingin sé ekki mikil,
heldur geta allir gengið í öll verk.
„Við höfum rekið þetta á þeim
grunni að við höfum verið jafngild.
Við höfum alltaf getað leyst hvert
annað af án þess að þurfa að gera
einhverjar sérstakar ráðstafanir,“
segir Pétur.
Bændurnir hafa ekki stuðst
við neitt vaktaskipulag, heldur
láta þeir hlutina ganga með góðu
samkomulagi. Ef þeir eru heima
segir Pétur þá vera á vakt allan
sólarhringinn. Bændurnir hafa
ekki reiknað sér tímakaup, heldur
er alltaf föst upphæð í hverjum
mánuði sem hvor fjölskylda fær.
Hann segir einhug í rekstri ekki
sjálfsagðan, heldur þurfi að hafa
fyrir því. „Það þarf bara að nota
höfuðið til að velta fyrir sér hvort
er verðmætara að stúta þessu eða
að reyna að semja um hlutina og
tala saman. Þú getur farið hina
leiðina – farið í kergju og kálað
þessu. Þá er þetta bara búið, eftir
atvikum reksturinn eða samstarfið,
og þú þarft að vinna meira. Þetta er
valið og þú hefur þetta í hendi þér.
Ég hef alltaf sagt að það er yfirleitt
hægt að fá fólk með sér í miklu
fleiri hluti heldur en maður getur
ímyndað sér, bara með því að tala
um hlutina opinskátt, af rökfestu og
heilindum.“
Bróðursynir taka við
„Ég verð að hætta, en það vill svo
til að ég verð sjötugur í sumar,“
segir Pétur, en nú liggur fyrir að
bróðursynir hans, Diðrik og Bjarki
Vilhjálmssynir, taka við búinu.
„Það eru tvær leiðir í þessu –
að hætta og láta þetta lifa áfram,
eða láta þetta deyja með sér. Ég vil
gera þetta á meðan maður hefur enn
þá mikinn áhuga og hefur verið að
passa reksturinn. Þá er allt á fullu
og auðvelt að taka við. Þannig á það
að vera í svona fyrirtækjum. Þetta
er ekkert ósjálfsagðara en að taka
þá ákvörðun að byrja.
Hausinn á mér er enn þá í lagi
og þar er vitneskja sem fólk getur
sótt í ef það vill – en ég hef engar
áhyggjur ef þau vilja það ekki. Ég
hef sagt þeim sem taka við að ég
vilji sjá hvað þau eru að gera, en þau
geta tekið loforð af mér að ég ætla
ekki að skipta mér af því.“
Aðspurður hvort erfitt sé að
sleppa hendinni af ævistarfinu, segir
Pétur að þetta snúist ekki um neitt
annað en hugarfar. „Lífið er ekki
bara vinna, það er líka svo margt
annað. Þú getur bara fundið þér
eitthvað annað verkefni sem tekur
hugann þinn.
Um leið og þú lætur frá þér verkið
verður þú að hafa það hugarfar að
þú ræður því heldur ekki hvernig
það er gert. Þú getur haft skoðun
á því, en þetta er ekki þitt verkefni
lengur. Ég verð að viðurkenna að
ég kvíði þessu ekki. Ég hef miklu
meiri áhyggjur af því að dagurinn
muni ekki endast í allt það sem mig
langar til að gera.“
Á Helgavatni í Þverárhlíð starfrækja tvær fjölskyldur kúabú sem
hafa getið sér orðstír fyrir fyrirhyggju í rekstri, að ryðja brautina í
stæðuverkun heys og nýlega fengu þau verðlaun fyrir besta kynbóta-
nautið. Síðastnefnda atriðið segja þau ráðast af tilviljun, en athygli
vekur að þau hafa ekki notað heimanaut í tvo áratugi. Breytingar eru
í vændum með kynslóðaskiptum síðar á árinu.
Ástvaldur Lárusson
astvaldur@bondi.is
Borgarfjörður:
Ekki byggt á einni nóttu
– Bændurnir á Helgavatni sköpuðu sér tugi milljóna með því að fjárfesta ekki í dráttarvél
Karítas Hreinsdóttir og Pétur Diðriksson, bændur á Helgavatni í Þverárhlíð. Þau segja litlu hlutina skipta máli í öllum rekstri, en með því að halda skuldum í lágmarki hafa tvær fjölskyldur getað
haft atvinnu af búinu. Myndir / ÁL