Bændablaðið - 27.04.2023, Page 58
58 Bændablaðið | Fimmtudagur 27. apríl 2023
RÁÐGJAFARMIÐSTÖÐ LANDBÚNAÐARINS
Við alla aðstoð sem veitt er við
burð er gott að hafa í huga að
trufla ána sem minnst, fara að
öllu með gát, aðstoða hiklaust og
ákveðið.
Ef ærin er róleg getur verið einfalt
og þægilegt að ganga að henni og
hefja aðstoðina. Ef ærin er stygg
er gott að hafa grind og spila hana
af. Þannig komum við í veg fyrir
að úr verði eltingarleikur sem hefur
neikvæð áhrif á burðinn og aðrar ær
í kringum hana.
Þegar ærin er orðin róleg getum
við athafnað okkur við hjálpina. Það
er líka gott að hafa annan til aðstoðar
til að halda við ána.
Til að viðhalda sem eðlilegustum
gangi burðarins er best að toga
einungis þegar ærin hefur hríðir.
Svo er það alltaf spurning hvað á að
bíða lengi með að aðstoða. Ef lambið
er mjög stórt er betra að athuga
með að hjálpa ánni fyrr en seinna.
Sérstaklega með gemlinga þar sem
burður er stór. Þá skilar lambið sér
ekki alltaf aftur í grindina, þá er mjög
mikilvægt að gefa þeim tíma til að
víkka á sem eðlilegastan hátt. Ekki
slíta lambið út á sem skemmstum
tíma! Förum inn í ána, finnum
hvernig lambið liggur, smellum
vír eða bandi aftur fyrir hnakka og
rólega byrjum að mjaka lambinu af
stað, höldum ró okkar. Þegar burður
er stór og jafnvel mikill hornagarður
getur verið gott að snúa hausnum
örlítið þannig að annað hornið komi
upp í toppinn á grindinni og getur
þannig „poppað“ út.
Við að rétta úr fótum sem bera
ekki rétt að er gott að halda um
klaufir lambsins til að vernda leg
ærinnar. Þá minnkum við líkur á að
klaufirnar skrapi ána að innan og rífi
hana. Þegar hjálpa þarf ánni á síðustu
metrunum er gott að hafa í huga að
draga þarf lambið út „í réttri röð“
passa að draga ekki fætur alla leið út
og sömuleiðis ekki bara höfuðið og
skilja fæturna eftir, þá liggur lambið
í raun vitlaust fyrir framhaldið. Þegar
við finnum hausinn smella út úr
grindinni er ágætt að staldra eilítið
við, draga andann aðeins djúpt og
vanda framhaldið. Þá þarf að muna
að rétta úr fótunum og þá er lambið
komið í þá stöðu sem við viljum hafa
það í til að það renni rétt út.
Ýmis tæki og tól sem gott er að
hafa við höndina þegar burðarhjálp
er viðhöfð, til dæmis:
• Stífur vír til að koma inn fyrir
grind og aftur fyrri hnakka eða
eyru lambsins ef aðstoða þarf við
að koma lambinu út.
• Sprauta með stuttri slöngu sem
hægt er að nota til að koma
burðageli inn fyrir þegar lambið
er orðið mjög þurrt og lítið legvatn
er til staðar.
Vír er auðvelt að þvo og sótt-
hreinsa eftir hverja notkun. Einnig
er hægt að nota bönd sem eru
mjúk og sveigjanleg og auðvelt að
smokra inn fyrir ef ærin er þröng.
Þá ríður á að vera ekki sparsamur á
burðargelið. Mýkja band og eða vír
með burðargeli áður en inn er farið.
Gott er að sjóða böndin reglulega og
sótthreinsa eftir notkun.
Þegar afturfótarfæðing á sér
stað eru margvíslegar aðferðir og
hefur hver sitt lag. Gott er að hafa
handklæði við höndina til að ná
góðu gripi á lambinu þegar það
kemur út því vont getur verið að
toga einungis í fætur því sú hætta
er fyrir hendi að lambið verði fyrir
skaða. Lambið getur komið afturábak
og legið rétt en það getur líka verið
á hvolfi (ekki algengt) en gott að
hafa það í huga þegar lambið er
dregið út hvernig það liggur inni í
ánni. Þegar fæturnir eru komnir út
er mikilvægt að toga örlítið niður
til að létta á brjóstkassa lambsins til
að auðvelda því útkomuna. Þegar
þarna er komið getur verið gott að
smeygja handklæði á lambið til að ná
góðu taki á því. Mikilvægt er að hafa
ákveðin og hröð handtök því hætta
er fyrir hendi að naflastrengurinn sé
slitinn í ferlinu. Varast skal þó að
rykkja í lambið og fylgja skal hríðum.
Að snúa ánni á bakið er nokkuð
útbreidd aðferð þegar lömbin koma
afturábak. Þá er rétt úr afturfótum,
ánni síðan varlega velt yfir á hrygginn
og lambið þannig dregið út. Gengur
hratt fyrir sig og minna álag á lambið.
Stundum festast lömbin alveg í
restina á hausnum ef hornin eru stór,
þá krækjast þau í grindina og þá þarf
að sækja fæturna og fá hausinn út.
Þreifa eftir hornunum og staðsetja í
grindina og þannig ná hausnum út.
Við þessa aðferð er lágmark að hafa
góða aðstoð.
Sé lamb á hvolfi en frampartur
þess ber að er best að reyna að snúa
lambinu aftur á „réttuna“. Þannig
er ekkert annað að gera en að prófa
að snúa því til hægri, finnist manni
ekkert gerast, er best að skipta um
hönd og prófa að snúa því til vinstri.
Mikilvægt er að snúa lambinu í þá
átt sem það virðist vilja snúa. Ekki
þvinga það í átt sem það vill ekki
fara í. Þessu ferli er ákaflega vel lýst
í myndbandi frá Karólínu og Axel á
youtube sem heitir einfaldlega „lamb
á hvolfi“.
Þannig er gott að hafa þurrt
handklæði til staðar til að grípa í
bjórinn á lambinu og þannig ná góðu
taki á því.
Við höndina er gott að hafa
skipulagðan kassa með öllu því sem
nota skal helst. Kassi sem innheldur
burðargelið, góðan spotta fyrir
burðarhjálp, hreint handklæði. Öll
þau tæki og tól sem mest er verið að
nota á hverjum degi. Sjá fyrri grein
sem birtist í Bændablaðinu.
Við burðarhjálp er hægt að notast
við margvíslegar aðferðir og hefur
það reynst vel þegar ærin er mjög
þröng og eða lambið er komið of
langt inn í fæðingarveginn að hækka
ána að aftan 10-20 cm og þannig ná
að athafna sig betur. Gott getur einnig
verið að lyfta ánni í „vinnuhæð“,
leggja hana á plötu eða grind upp
á garðaböndin, þannig gefst þeim
sem er að aðstoða hana gott rými til
að athafna sig við hjálpina. Það er
stundum heftandi að þurfa að krjúpa
á hnjánum á gólfinu.
Legsnúningur er ekki algengur
en kemur þó alltaf fyrir annað
slagið. Eitthvað sem hægt er að
laga og bændur geta gert sjálfir með
ákveðnum aðferðum. Á myndbandi
frá Karólínu með aðstoð dyggra
bænda er ákaflega vel lýst hvernig
hægt er að vinda ofan af legi og
hvernig best er að finna í hvora áttina
snúningurinn er. Best er að vera tveir
við þetta verk. Hvetjum við bændur
til að skoða myndböndin þeirra
Karólínu og Axels af kostgæfni,
þau eru ákaflega vel unnin og veita
mikinn fróðleik.
Að lokum er vert að minnast á að
ærnar heilgast venjulega eftir um það
bil 1-3 klst. Ef það hins vegar tekur
lengri tíma en 10-13 klukkustundir er
best að hafa samband við dýralækni.
Aldrei skal toga í hildir til að flýta
fyrir heilgun, það getur orðið til þess
að allt legið komi út á eftir og þá erum
við enn verr stödd. Einhverjar ær éta
hildirnar og því sér maður þær ekki
alltaf.
Best er að lamb fari sem fyrst á
spena, broddurinn gefur þeim góða
næringu sem heldur líkamshita þeirra
stöðugum og einnig er hann fullur af
mótefnum gegn sjúkdómum. Gott er
að joða naflastreng og vera viss um
að allt sé í lagi með lambið, hreinsa
spena á ánni og þannig minnka líkur
á kólísmiti. Í leiðinni er gott að taka
fyrsta bogann og finna þá hvort ekki
sé allt í lagi með júgrið á ánni.
Lömb eru viðkvæmt ungviði og
fylgjast þarf náið með öllum ungum
lömbum sem og ánum. Að minnsta
kosti þarf að fara eftirlitsferð einu
sinni á sólarhring og þannig skoða
hvert einasta lamb og allar ær. Að öll
lömb sé södd og pattaraleg, ærnar séu
búnar að fá nægilegt magn af hreinu
vatni og góðan aðgang að fersku
fóðri. Nauðsynlegt er fyrir lömb að
geta komist í var og liggja þau oft
undir garða og þarf að líta eftir þeim
þó þau virðist liggja í makindum. Á
fyrstu sólarhringunum er mikilvægt
að tryggja að lömb sem fái einhvern
sjúkdóm fái eins fljótt og auðið er
meðhöndlun við hæfi. Það getur skipt
sköpum að grípa fljótt inn í.
Allir eiga rétt á góðu starti
Að hámarka afkomu sauðfjárbúa
hefur sterka fylgni með því að
hámarka afurðir. Þegar kemur að
sauðburði snýst það fyrst og fremst
um að hámarka fjölda lamba til nytja
og lágmarka fjölda þeirra lamba sem
ekki ná eðlilegum þroska. Ásamt
vönduðu eftirliti, burðarhjálp þegar
nauðsyn ber til og góðri umhirðu er
skilvirkt verklag við að venja lömb
milli áa einn lykilþáttur þess að ná
árangri á þessu sviði. Með því má
fækka þeim lömbum sem ganga undir
sem fleirlembingar og eiga á hættu að
verða útundan og fækka þeim ám sem
ganga fleirlembdar án þess að ráða
við það. Þannig jafnast möguleikar
lambanna á því að skila sér til nytja
með fullnægjandi hætti.
Bændur nota mismunandi aðferðir
við að venja undir en eftirfarandi atriði
geta haft áhrif á árangur og að vel
heppnist með framhald fósturlambs
og fóstursystkinis þess.
Öll lömb þurfa nægilegt magn af
góðum broddi annars vegar innan
við 2 klst. frá fæðingu og hins
vegar fyrsta sólarhringinn af lífinu.
Miðað er við að hvert lamb fái 200
ml broddmjólkur innan tveggja
klukkustunda frá fæðingu og 200 ml/
kg lífþunga alls á fyrsta sólarhring.
Styrkur broddsins m.t.t. mótefna er
mestur strax eftir burð og minnkar svo
smám saman eftir því sem frá líður
burði. Mótefnaframleiðslan sem slík
hættir í raun við burðinn eða mjög
fljótlega eftir burðinn en mótefnin
eru að koma í mjólkinni um það bil
fyrsta sólarhringinn. Langalgengast
er að bændur noti niðurstöður
fósturtalningar sér til aðstoðar við
að venja undir og láti þá lamb til
einlemba áður en þeirra lamb fæðist.
Við þær aðstæður er nauðsynlegt
að gæta þess að fósturlambið gangi
ekki um of á broddmjólkina áður en
eigið lamb kemst á spena. Til dæmis
má nýta plástra eða íþróttateip til að
loka spenum eða mjólka frá þeim
brodd til að gefa þeirra lambi þegar
það fæðist. Þetta á ekki síst við þar
sem barátta við slefsýki eða aðra
sjúkdóma í unglömbum er hörð. Ef
vinnufyrirkomulag miðar að því að
taka „umfram“ lömb undan og setja á
pela þar til þau eru vanin undir þarf að
gæta vel að því að þarfir þeirra fyrir
brodd, bæði að magni og tímaramma,
séu uppfylltar. Það má gera með því
að miða við að taka lömbin ekki
undan fyrr en að sólarhring liðnum
ef móðirin gefur nægan brodd fyrir
lömbin sín eða bæta þessum lömbum
upp með því að gefa brodd úr pela.
Líffræðilega er best að lamb fái brodd
úr eigin móður, næstbest úr á eða ám
úr sömu hjörð, þá safnbroddur úr kúm
(blanda af broddi úr nokkrum kúm)
og lakast, en samt betra en ekkert, er
gervibroddur af einhverju tagi.
Til að hámarka þroska lamba
er mikilvægt að þau verði aldrei
undir á þeim aldri sem vaxtargetan
er hvað mest. Samkeppni við
öflugra stjúplamb getur orðið erfið
og því ágætt að para saman lömb
af svipaðri stærð og aldri. Margir
bændur taka einlembinga undan
og venja tvo fleirlembinga undir í
staðinn eða skipta á pörum þannig
að t.d. gemsatvílembingar fari
undir einlembu og gemlingurinn fái
einlembinginn í staðinn. Líklegra
er að öflugir einlembingar spjari
sig betur á pelafóðrun en litlir
fleirlembingar þurfa heldur á
umhyggjusamri móður að halda.
Annað sem getur valdið því að
fósturlamb verði undir er að móðirin
taki lambið ekki vel eða ekki strax.
Það er því mikilvægt að vanda til
verka við það að venja undir. Það
sem skiptir mestu máli í því er að
engin tortryggni vakni hjá móðurinni
gagnvart fósturlambinu. Ærnar nota
fyrst og fremst lyktarskynið til að
greina milli lamba og fyrstu 30-60
mínúturnar eftir burð eru ærnar
líffræðilega næmar fyrir því að taka
inn lyktarprófíl lamba sinna.
• Rannsóknir sýna að það er
mikilvægt að ærin hnusi og sleiki
mikið á þessu tímabili til að hún
þekki lömbin vel. Samkvæmt
rannsóknum hefur legvatn
mikilvægt hlutverk í ferlinu við að
tengja saman móður og afkvæmi.
Ær laðast frekar að eigin legvatni
en legvatni frá annarri á þó ekki
sé búið að rannsaka til fulls hvort
það er vegna þess að hún finnur
lyktina um leið og fæðingin byrjar
eða hvort það er henni eðlislægt
að þekkja eigið legvatn. Það hefur
einnig sýnt sig í rannsóknum að
það að minnka legvatn í kringum
ær minnkar getu þeirra til að gera
upp á milli lamba og samkvæmt
þeim er ær líklegri til að taka að sér
þvegið fósturlamb ef hennar lamb
er líka þvegið. Nýting legvatns úr
burði fósturmóður eða frá öðrum
ám, þvottur beggja lamba og að
ýta undir að ær hnusi og sleiki, til
dæmis með því að salta yfir lömbin
eða baða þau úr léttsöltu vatni, eru
því allt aðferðir sem nýtast vel við
að venja undir. Gæta þarf þess að
legvatn sem safnað er upp fúlni
ekki og til þess er söltun, kæling
eða frysting besta aðferðin.
• Að setja lambið undir
fósturmóðurina á „réttum“ tíma,
til dæmis rétt fyrir fæðingu
einlembings út frá niðurstöðu
fósturtalningar, auðveldar það ferli
ákaflega mikið þar sem lambið er
þá komið undir ána þegar hún er
móttækileg fyrir því að taka inn lykt
lambs sem hún ætlar að eiga.
• Hegðun lambsins skiptir líka máli.
Best að þau fari sem fyrst að sjúga,
að þau séu óhrædd við fósturmóður
sína og leiti í hana þannig að hún
hafi greiðan aðgang að því að sleikja
þau og hnusa af þeim. Eftir því sem
lömb eru yngri þegar þau eru vanin
undir því líklegra er að þau sýni
þessa hegðun og því mikilvægt að
taka lömb til að venja undir eftir
aldursröð ef ekki er tækifæri til að
færa lömb á milli strax við fæðingu
sem er æskilegast og auðveldast.
• Ef ærin sýnir tortryggni gagnvart
fósturlambinu er best að grípa strax
inn í það og taka lömbin saman þar
sem lyktin af þeim getur blandast
saman og þau geta sogið samtímis
við næsta skipti sem þau sjúga. Ef
strax er gripið inn í tekur styttri
tíma að venja parið saman þar sem
ærnar eru enn þá með vakandi öll
líffræðileg viðbrögð varðandi tengsl
móður og afkvæmis sem hormón
í kringum fæðinguna kveikja.
Þau fjara smám saman út fyrsta
sólarhringinn.
Þegar lömb eru færð á milli þarf
að halda skráningum um það vel
Háannatími fram undan í fjárhúsunum
– Burðarhjálp
Það er gaman þegar allt heppnast vel og niðurstaðan er fallegur ásetningur. Myndir / GHG