Bændablaðið - 27.04.2023, Page 74

Bændablaðið - 27.04.2023, Page 74
74 Bændablaðið | Fimmtudagur 27. apríl 2023 Gulönd er fiskiönd líkt og toppönd, enda oft kölluð stóra systir toppandarinnar. Þær virðast stundum líkar í fjarska, sérstaklega kvenfuglarnir. En gulönd er áberandi stór, hún er okkar stærsta ferskvatnsönd og mun stærri en litla systir hennar. Stofninn er hins vegar mun minni, eða um 300 varppör á meðan stofn litlu systur hennar er tífalt stærri. Hún hefur sérhæft sig sem fiskiæta og er mjög lagin við að kafa eftir smásilung, laxaseiðum og hornsílum. Þær eru ákaflega styggar og með allra styggustu fuglum á landinu. Endrum og sinnum þegar ís hefur lagt yfir ár og vötn þá hafa örfáir fuglar leitað á opnar ár nærri mannabyggðum. Nú á liðnum vetri voru t.a.m. nokkrar gulendur sem héldu sig á læknum í Hafnarfirði. Fyrir marga var það einstakt tækifæri til að virða fyrir sér þessar stóru fallegur endur án þess að þær væru að fljúga í burtu. Hún er staðfugl og utan varptíma eru þær nokkuð félagslyndar. Þá sjást þær gjarnan í litlum hópum á straumvatni og stöðuvötnum. Mynd og texti / Óskar Andri Víðisson FRÆÐSLA Í heimi tískunnar er aldrei að vita hvert stefnir. Einn daginn er það klassík á borð við niðurþröngar buxur og rokkaraskó, en aðra daga mætti halda að þeir sem halda um taumana hafi gjörsamlega misst tökin. Þegar virðist sem enginn sé við stjórnvölinn koma í ljós atriði á borð við háhælaða Crocs skó Balenciaga svo og svokallaða „táskó“ – undir sama merki – sem hafa, þótt ótrúlegt sé, fengið afar góð viðbrögð. Hafa neytendur meðal annars upplifað sig afar kynþokkafulla í skónum sem gerðir eru úr endurunnu efni. Fréttaritari Vouge vildi sannreyna þann orðróm og varð ekki fyrir vonbrigðum. Á vefsíðu Vouge kemur fram: „Mér líður eins og ég sé að smeygja mér í klæðskerasaumaða silkihanska sem bæði gæla við hörundið og líta glæsilega út. Þéttur sóli skótausins leyfir mér svo að stíga þokkafullt til jarðar þar sem ég merki yfirráðasvæði mitt með eigin þunga.“ Stórt og mjúkt Nú er ekki vitað hvort allir upplifa sig á sama hátt og fréttaritari Vouge, en skórnir eru í það minnsta forvitnilegir. Ekki er hægt að dæma þá glæsilega út frá hönnunarsjónarmiði, en í dag virðist sem neytendur líti æ oftar framhjá útlitinu og versli frekar eftir andlegri upplifun sinni og vellíðan. Kemur það sem andsvar við óþægilegri hátísku sem oft á illa við annir daglegs lífs. Líkamleg vellíðan helst auðvitað í hendur við þá andlegu og má segja að áhrifavaldar víðs vegar um heiminn séu oftar en ekki að stíga skref í þá átt. Stórir og mjúkir s tr igaskór drottna nú yfir skótísku vorsins og spurning er hvort slíkt sé ekki akkúrat sumargjöfin í ár. Strigaskótíska þeirra miðaldra Nú velta lesendur ef til vill fyrir sér um hvers konar skó er að ræða. Þeir sem miðaldra eru muna gjarnan eftir Buffalo skótískunni sem þótti hvað helst móðins fyrir um 30 árum. Var Buffalo upphaflega stofnað í Þýskalandi árið 1979, en náði á stall evrópskar hátísku um miðjan tíunda áratuginn. Voru stúlkurnar í hljómsveitinni Spice Girls þekktar fyrir að ganga í skónum sem voru jafnan með tíu sentímetra þykkum botni, en hinar allra djörfustu strunsuðu um í allt að tuttugu sentímetrum. Voru klassískir Buffalo skór helst svartir eða hvítir, en var þó að finna í öllum regnbogans litum. Með tuttugustu og fyrstu öldinni döluðu vinsældir skónna en í dag virðist sem þeir séu að hljóta aukið fylgi. Á vefsíðu fyrirtækisins má sjá að skref hafa verið tekin í átt að vegan- stemningu þeirri, er ríkt hefur nú um nokkurt skeið hjá forsvarsmönnum tískuheimsins. Til að mynda er notast við endurunnin efni og lífræna bómull og segir á vefsíðu þeirra, buffalo-boots.com, að leitast sé við að halda áfram á þeirri braut. Fyrir áhugasama má finna þar ýmiss konar skófatnað, bæði vegan og ekki. Vor 2023 En þetta var útúrdúr. Það sem þykir nú allra smartast vorið 2023 eru strigaskór sem bera nafnið HOKA, vel þéttir og halda vel að fæti. Framleiðendur skónna, sem hófu starfsemi sína árið 2009 í Frakklandi, eru í raun undirfyrirtæki bandaríska fyrir- tækisins Deckers sem hefur verið í framlínunni síðastliðin 50 ár. Meðal annarra fyrirtækja undir vængjum Deckers má nefna UGG og Teva, sem bæði eru þekkt merki víðs vegar um heiminn. HOKA skórnir, sem hafa þó verið í framleiðslu í þó nokkur ár, hafa smám saman verið að klífa metorðastigann. Breiddist hróður þeirra hratt út, meðal annars í hlaupasamfélagi bæjarins Boulder í Colorado-ríki Bandaríkjanna, eftir að hlaupari keypti hvorki meira né minna en 770 pör. Innan fárra ára voru strigaskór HOKA á listum yfir bestu skó markaðarins og viðurkenndir af úrvalsíþróttamönnum víða um heim. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að upphaflega hafi hönnunin verið atlaga að lausn á því að fara sem hraðast niður brekkur án þess að renna, en sérstaða skónna er að stórum hluta sú að sólinn er í nokkurri yfirstærð. Útkoman varð sú að þarna varð til lögun á hlaupaskóm sem ekki hafði áður þekkst, en er í dag einna helst sú tegund sem utanvegahlauparar (og aðrir) kjósa við iðkun sína. HOKA skórnir þykja einstaklega þægilegir á fæti, mjúkir og hentugir fyrir þá sem þurfa að vera mikið á fótum í vinnu sinni og eiga jafnvel við eymsl að glíma í hnjám. Segir orðrómur að notkun þeirra „sé eins og að ganga á skýjum“. En þetta er nú staðan í dag. HOKA skó má finna hérlendis á nokkrum stöðum og því um að gera að versla sér par ef áhugi er á því að klífa skriður, skríða kletta og þar fram eftir götunum – nú eða til þess eins að fylgja hátísku vorsins. /SP Tíska: Léttstíg og leikandi í sumar Buffalo skór voru afar vinsælir hjá stúlknahljómsveitinni Spice Girls. Crocs á öðru leveli frá Balenciaga.Hinir kynþokkafullu táskór Balenciaga. HOKA, skór sumarsins.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.