Gripla - 2022, Page 274
GRIPLA272
öðruvísi.18 Því var ekki nauðsynlegt að rífa klausturkirkjurnar ef hægt var
að nýta einhvern hluta þeirra óbreyttan. Að draga úr stærðarhlutföllum
allrar kirkjunnar þýddi að nauðsynlegt var að taka hana alla niður og endur-
sníða gamla timbrið. Var það augljóslega meiri háttar framkvæmd og engin
þekkt dæmi eru til um að þannig hafi verið staðið að minnkun kirkju.
Páll bóndi Guðbrandsson virðist hafa tekið þann kost að fjarlægja
heldur stöpul/stöpla og hugsanlega forkirkju gömlu klausturkirkjunnar.
Kirkja úttektarinnar 1684 er háreist og mun stærri en almenn sóknarkirkja
á Þingeyrum þurfti að vera (síðari kirkjur voru allar töluvert minni, einn-
ig núverandi steinkirkja). En sterkasta vísbendingin um að þessi kirkja
hafi verið að stofni til gamla klausturkirkjan er sú að hún virðist innréttuð
eins og kaþólsk miðaldakirkja. Þetta sést af svölunum fyrir framan skil-
rúmið milli kirkjunnar og innri kórsins. Þetta loft eða svalir var „áður
kallað Pulpitu“ (2v), segir í úttektinni. Fortíð kirkjunnar, sem hér er vísað
til, hlýtur að vera frá því fyrir 1619, það er að segja að svalirnar voru nógu
gamlar til þess að einhver þóttist vita að þær hefðu verið kallaðar þessu
nafni áður fyrr á klausturtímanum. Í úttektum Munkaþverár er stundum
vísað á sama hátt til nafngifta frá klausturtíma.19 Á þessum tíma hafa enn
allmargar kirkjur verið standandi frá kaþólskri tíð og menn þekktu bygg-
ingarlag þeirra og hvernig það var frábrugðið byggingarlagi nýrri kirkna.
Orðið pulpitu er dregið af pulpitum eða pulpitrum í miðaldalatínu en svo
voru nefnd skilrúm milli kirkjuskipsins og hins heilaga altaris í kaþólskum
miðaldakirkjum.
Pulpita (flt. af pulpitum) þjónuðu þeim tilgangi að skipta kirkjunni í
tvö aðalrými, eitt fyrir leikmenn og annað fyrir lærða. Leikmenn máttu
ekki koma of nærri háaltarinu, innsta rými kirkjunnar, þar sem vígðir
menn framkvæmdu helgasta hluta messunnar, gjörbreytinguna (transu b -
stantiatio), þegar brauðið og vínið umbreyttist í líkama og blóð Krists.
Prestar og munkar gátu sungið og lesið lestra af svölum þessum, sem not-
18 Hörður Ágústsson, „Stavbygning. Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder
XVII (1972), 90–93.
19 Guðrún Harðardóttir, „Nokkrar kynslóðir kirkna og klausturhúsa á Munkaþverá“, 5–42.
Sjá einnig umfjöllun Guðrúnar um „kórþil“ í íslenskum kirkjum á fyrstu öldum eftir siða-
skiptin í Guðrún Harðardóttir, „Innanbúnaður kirkna á fyrstu öldum eftir siðaskipti“. Áhrif
Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár, ritstj. Hjalti Hugason, Loftur Guttormsson
og Margrét Eggertsdóttir (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2017), 195–214; 201–
4. Um „lessvalir“ í miðaldakirkjum og elstu kirkjum eftir siðaskiptin fjallar einnig Hörður
Ágústsson í Skálholt. Kirkjur (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1990), 250.