Gripla - 2022, Page 275
273
aðar voru eins og predikunarstóll, án þess að koma of nærri leikmönnum.
Finna má dæmi um sams konar pulpita í kirkjunum á Munkaþverá og
Kirkjubæjarklaustri og ef til vill víðar.20 Hinn strangi aðskilnaður lærðra og
leikra í kirkjurýminu samræmdist síður skilningi siðaskiptamanna á stöðu
presta gagnvart söfnuðinum því ólíkt kaþólsku kirkjunni viðurkenndi
Lúter ekki prestvígsluna sem heilagt sakramenti (sacramentum) heldur taldi
alla skírða menn fullgilda meðlimi safnaðarins. Pulpita voru því gjarnan
tekin niður á nýöld í gömlum kirkjum og Páll Guðbrandsson hefur þessu
samkvæmt tæplega látið setja upp nýtt pulpitum í Þingeyrakirkju árið 1619.
Slíkar svalir urðu jafnframt óþarfar eftir að predikunarstólar voru settir
í kirkjurnar sem gegndu að sumu leyti sama hlutverki.21 Einum slíkum
hefur að öllum líkindum verið komið fyrir í Þingeyrakirkju árið 1619 eða
jafnvel fyrr því hann er nefndur í úttektinni 1684 og ekki talinn Þorleifi
Kortssyni til tekna. Þótt íhaldssemi í hönnun kirkna á Íslandi hafi ef til
vill getað leitt Pál bónda til þess að endurbyggja Þingeyraklausturskirkju í
sama stíl og með sömu innréttingum og áður, væri það einsdæmi að heil ný
kirkja hafi verið sniðin úr timbri gamallar kirkju. Kóngur vildi ekki leggja
til nýtt timbur, en sérstaklega bendir hin mikla stærð kirkjunnar 1684 til að
hún hafi ekki verið minnkuð árið 1619. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú
að endursmíð Þingeyrakirkju á vegum Páls Guðbrandssonar hafi einkum
falist í öðrum breytingum.
Í svonefndu Sigurðarregistri frá því um 1525, sem geymir ítarlegustu
greinargerð um Þingeyrakirkju frá miðöldum, er „inventar“ muna sem þá
voru í kirkjunni, m.a. eru taldar átta klukkur: „jtem kluckur. viii. vænar“.22
20 Guðrún Harðardóttir, „Nokkrar kynslóðir kirkna og klausturhúsa á Munkaþverá“, 7, finnur
vísbendingu í Lárentius sögu biskups um að Lárentius hafi ef til vill staðið á sams konar
svölum í klausturkirkjunni á Munkaþverá, sem brann árið 1429, er hann las upp bréf fyrir
viðstadda menn í kirkjunni. Guðrún nefnir svalirnar „leskór“ (lectorium). Með greininni
er prentuð mynd af álíka trésvölum í Kinn kirkju í Noregi, sem raunar er steinkirkja í
rómönskum stíl frá ofanverðri 12. öld. Guðrún Ása Grímsdóttir hefur gefið út lýsingu
kirkjunnar á Kirkjubæjarklaustri í úttekt klaustursins frá 1704. Þar á síðum 126–27 má lesa
lýsingu á svipuðu skilrúmi í kirkjunni. Guðrún Ása Grímsdóttir, „Heimildir í handritum
um klaustrin í Skaftafellsþingi“, Af klaustrum og kennimönnum í Skaftafellsþingi. Erindi flutt á
ráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri 13. –14. mars 1999, sem haldin var að tilhlutan Kirkjubæjarstofu
og Skaftafellsprófastsdæmis í tilefni 1000 ára afmælis kristintöku á Íslandi, Dynskógar (Vík:
Sögufélag Vestur-Skaftfellinga, 1999), 101–44.
21 Predikunarstólar koma í íslenskar kirkjur eftir siðaskiptin. Guðrún Harðardóttir,
„Innanbúnaður kirkna á fyrstu öldum eftir siðaskipti“, 198–99.
22 DI IX, 312–18; 313.
HEIMILDIR UM KLAUSTURKIRKJUNA Á ÞINGEYRUM