Gripla - 2022, Síða 277
275
Hve gömul var sú kirkja sem stóð á Þingeyrum 1684?
Klausturkirkjan á Þingeyrum var byggð snemma á 12. öld og ólíkt mörgum
öðrum kirkjum á Íslandi fer engum sögum af því að hún hafi brunnið,
fokið um koll í óveðri eða eyðilagst á annan hátt.25 Með reglulegu viðhaldi
gátu timburkirkjur staðið öldum saman eins og sést á því að í Noregi eru
enn varðveittar stafkirkjur frá 12. öld. Þingeyraklaustur var auðugt og átti
hlunnindi í reka og þar var enginn timburskortur, sem sést til að mynda
á úttekt Eldiviðarhússins 1684, sem er fullt af timbri, og í umfjöllun um
jarðir Þingeyraklausturs í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín en
þar er víða nefnd notkun reka til húsabótar.26
Lítum á þær heimildir sem til eru um klausturkirkjuna á Þing eyrum.
Til er mjög gömul saga af því þegar Oddur munkur Snorrason sem var
prestur að vígslu varð fyrir sýn í kirkjunni og honum birtust Kristur og
Ólafur konungur Tryggvason en Oddur skrifaði sem kunnugt er sögu
Ólafs konungs á latínu einhvern tíma á síðari hluta 12. aldar.27 Ekki er þó
25 Finnur Jónsson biskup segir í Klaustursögu sinni, Historia Monastica Islandiæ (í IV. bindi
Historia Ecclesiastica Islandiæ [Kaupmannahöfn, 1772–78], 31) að klaustrið á Þingeyrum
hafi allt brunnið árið 1157: Ejus tempore anno 1157 totum monasterium conflagravit (Á tíma
hans [Nikulásar ábóta] árið 1157 brann klaustrið allt). Það sama segir Janus Jónsson: „1157
brann allt klaustrið til kaldra kola“ og þýðir sýnilega latínutexta Finns. Janus Jónsson, „Um
klaustrin á Íslandi“, Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags 8. ár (1887), 183. Heimild Finns,
þótt hann nefni hana ekki, getur ekki verið önnur en Konungsannáll (Annales Regii): „[1157]
Brann bær at Þingeyrum“. Islandske annaler indtil 1578, útg. Gustav Storm (Christiania
[Ósló]: Det norske historiske kildeskriftfond, 1888), 116; með nútímastafsetningu. Annál-
arnir heita þessu nafni af því að þeir voru sendir til Danmerkur þegar á 17. öld og enduðu
í bókasafni konungs. Handritið var skrifað í upphafi 14. aldar (a.m.k. sá hluti þess sem
geymir færsluna um brunann á Þingeyrum) og var á Hólum um 1640 en árið 1662 tók
Þormóður Torfasson það með sér til Danmerkur og færði Friðriki 3. til varðveislu í nýju
safni hans. Í Konungsbókhlöðu fékk handritið síðar safnmarkið GKS 2087 4to. Finnur
hefur ekki haft þetta handrit hjá sér þegar hann skrifaði að klaustrið hefði allt brunnið.
Árið 1778, þegar Finnur gaf út klaustursögu sína með aðstoð Hannesar sonar síns, hafði
danski sagnfræðingurinn Jakob Langebek hins vegar nýlega gefið út Konungsannál á prenti
í Kaupmannahöfn, sem Hannesi hefur verið kunnugt um, en þeir feðgar virðast samt ekki
hafa náð að leiðrétta ónákvæmnina í fullyrðingunni um brunann á Þingeyrum 1157. Nú er
Konungsannáll varðveittur á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Snemma á
18. öld, 1718 (Vallaannáll) eða 1719 (Mælifellsannáll), brann smiðja á Þingeyrum. Annálar
1400–1800 I (1922–27), 513.
26 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VIII – Húnavatnssýsla (Kaupmannahöfn: Hið
íslenzka fræðafélag í Kaupmannahöfn, 1926).
27 Frásögnin er í S-gerð (Holm perg 18 4to) Ólafs sögu Tryggvasonar eptir Odd munk
Snorrason. Ólafur Halldórsson, útg. Færeyinga saga – Óláfs saga Tryggvasonar eptir
HEIMILDIR UM KLAUSTURKIRKJUNA Á ÞINGEYRUM