Gripla - 2022, Síða 278
GRIPLA276
mikið af þeirri frásögn að græða fyrir þann sem leitar upplýsinga um gerð
kirkjunnar. Heldur meiri hjálp er í heimildum frá 14. öld. Í Lögmannsannál
við árið 1339, sem var dánarár ábótans Guðmundar, lesum við: „Obitus
domini Godemundi abbatis Þyngerensis [þ.e. Dauði herra Guðmundar
ábóta á Þingeyrum]. Sálaðist hann at Munkaþverá ok var fluttr nordan
likami hans til Þingeyra. Urðu margir merkiligir atburðir í líkfylgju hans
ok hyggja menn hann góðan mann fyrir Guði. Lét hann uppsmíða fram-
kirkju á Þingeyrum ok fékk hann til skrúða, bækur ok klukkur, ok kenndi
mörgum klerkum þeim sem síðan urðu prestar, ok var hinn mesti nyt-
semdar maðr.“28 Lögmannsannáll er talinn skrifaður af Einari Hafliðasyni
(1307–93) sem ólst upp í nágrenni Þingeyra, á Breiðabólstað í Vesturhópi,
og gekk sjálfur ungur í klaustrið árið 1317. Hann var því kunnugur stað-
háttum á Þingeyrum. Í Lárentius sögu, sem einnig er talin skrifuð af Einari,
stendur: „Um haustið [1314, skv. ritstjóranum] visiteraði Auðunn byskup
[á Hólum] um vestrsveitir ok vígði kirkju at Þingeyrum“.29 Það er því
trúlegt, eins og Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur bent á,
að vígsla klausturkirkjunnar á Þingeyrum árið 1314 hafi farið fram við lok
framkvæmda eftir að „framkirkjan“ á Þingeyrum var „uppsmíðuð“ á vegum
Guðmundar ábóta. Guðmundur tók við embætti árið 1310 og framkvæmdir
hafa þá staðið yfir í fjögur ár eða skemur.30
Einar Hafliðason hefur mátt muna þessar framkvæmdir við kirkjuna
á Þingeyrum í byrjun 14. aldar en hann var sjö ára þegar hún var vígð.
Odd munk Snorrason, Íslenzk fornrit 25 (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2006),
358–59.
28 Islandske Annaler indtil 1578, 272.
29 Lárentius saga biskups. Biskupa sögur III, útg. Guðrún Ása Grímsdóttir (Reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag, 1998), 321.
30 Steinunn Kristjánsdóttir, Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir (Reykjavík:
Sögufélag, 2017), 108. Í Kristinrétti Árna Þorlákssonar eru ákvæði um endurvígslu kirkna
þegar skaði verður á þeim: „Ef kirkja brenn upp eða annars kostar lestist svá að niður fellur
öll eða meiri hlutur, þá skal vígja endurgjörva kirkju. En þó að kirkjuráf brenni upp, fúni og
niður falli lítill hlutur af veggjum, þá skal eigi vígja endurbætta kirkju því í veggjum vígist
kirkja þó að altari sé niður fallið, ruglað eða úr stað fært eða altarissteinn sé ljótliga brotinn.
Þá skal það vígja, en eigi raskar það kirkjuvígslunni, þó má og syngja í kirkju þó óvígð sé.“
Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar, útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal
Magnússon og Már Jónsson (Reykjavík: Sögufélag, 2005), 150. Ég vil þakka Guðrúnu
Harðardóttur fyrir að hafa bent mér á þetta ákvæði, sem sýnir að það samræmdist ágætlega
lögum að endurvígja kirkju þegar framkirkja hafði verið byggð upp að nýju þótt innri kór
hennar og miðkór með krössörmum hafi staðið óbreyttir frá fyrri öldum.