Gripla - 2022, Page 279
277
Þegar talað er um að „uppsmíða framkirkju“ er væntanlega átt við að
öll framkirkjan, þ.e. kirkjubyggingin að undanskildum miðkórnum með
krössörmum sínum og innrikórnum, hefur verið endurbyggð. Þrátt fyrir
þessa miklu endurnýjun kirkjunnar virðast helgustu og mikilvægustu
hlutar hennar hafa staðið óbreyttir áfram og þeir hafa væntanlega verið
byggðir þegar á 12. öld. Einnig eru vísbendingar um að í upphafi 14. aldar
hafi verið settir framan á kirkjuna einn eða tveir stöplar og myndi það
samræmast vel þeim klukkum sem Guðmundur ábóti fékk til kirkjunnar
í tengslum við endursmíði hennar og minnst er á í Lögmannsannál. Í
erfðaskrá Benedikts Kolbeinssonar, 22. febrúar 1363, sem gefin er út í
Íslensku fornbréfasafni, er vissulega kominn stöpull eða turn á klaustur-
kirkjuna að Þingeyrum: „Hér með kýs ek líkama mínum legstað at
Þingeyrum í stöplinum þar sem Borgilldur hústrú mín liggur aður fyrir“.31
Orð Benedikts útiloka raunar ekki að tveir turnar hafi verið á kirkjunni af
því að hann gæti hafa viljað segja með orðum sínum að hann vildi hvíla í
stöplinum þar sem Borgilldur hústrú hans lá en ekki í hinum stöplinum.
Fullvissa um gerð stöpulsins eða stöplanna mun ekki fást fyrr en leifar
finnast í jörðu á Þingeyrum sem sýna ótvírætt gerð vesturenda klaustur-
kirkjunnar.
Af hverju tveir stöplar? Kapítulainnsigli Þingeyraklausturs er vel þekkt
af teikningu sem Árni Magnússon lét gera og birt er í Sigilla Islandica.32
Myndir á varðveittum innsiglum frá Þingeyrum frá þessum tíma sýna
gotneska kirkju með tvo turna, þótt ýmislegt ósamræmi sé annars í þeim.
Ef Þingeyrainnsigli og keimlík teikning af kirkju inni í upphafsstaf einum í
Flateyjarbók, sem borinn hefur verið saman við myndirnar á innsiglunum,
gefa raunsanna mynd af útliti kirkjunnar, sem mér þykir ekki ósennilegt,
31 DI III, 184–86; 185.
32 Magnús Már Lárusson og Jónas Kristjánsson, ritstj. Sigilla Islandica I (Reykjavík:
Handritastofnun Íslands, 1965–67), 179. Mörg innsigli frá Þingeyrum með umfjöllun
Árna eru á síðum 163–221 og á sex þeirra má sjá mjög litlar kirkjur í sama stíl, þótt
erfitt sé vegna smæðarinnar að greina nákvæma gerð þeirra. Ýmsir hafa velt því fyrir sér
hvort innsiglismyndirnar eigi að sýna raunverulegt útlit klausturkirkjunnar en Guðrún
Harðardóttir vinnur að doktorsrannsókn á kapítulainnsiglum þar sem þetta er metið.
Forathugun á íslenskum klausturinnsiglum er að finna í grein Guðrúnar, „Myndefni
íslenskra klaustur innsigla“, Íslensk klausturmenning á miðöldum, ritstj. Haraldur
Bernharðsson (Reykjavík: Miðaldastofa Háskóla Íslands, 2016), 201–25. Þar á síðum
220–22 eru leidd rök að því að innsigli bróðurklaustursins á Munkaþverá gæti hafa tekið
mið af útliti klausturkirkjunnar þar eftir bruna á staðnum 1429.
HEIMILDIR UM KLAUSTURKIRKJUNA Á ÞINGEYRUM