Gripla - 2022, Síða 293
291
svipuð nöfn í báðum úttektum (s.s. Karldyr, Andyri, Göng, Stóriskáli,
Prestaskáli, Borðhús, Stórabaðstofa, Búr, Eldhús, Ofnshús, Langabúr,
Port) virðist mega álykta að þessi húsaþyrping hafi verið það sem eftir stóð
af klausturhúsunum.
Torvelt er að vita nákvæmlega hver húsanna voru leifar frá klaustur-
tímanum. Í úttektinni 1684 vekur samt athygli lesandans hús sem nefnt
er „Prestaskálinn“ og er sagt með „sjö sængum, þar í tvær lokrekkjur með
fóðruðum skörum. Húsið vænt og víða sterkt, þó tilgengið og gamalt.“
Aðeins einn prestur var á Þingeyrum eftir siðaskiptin og með honum
djákni. Annað hús kallað „Stórabaðstofa“ fær þá umsögn árið 1684 að þar
sé „raftviður forn í rjáfri“. Í úttektum þessum, þótt gamlar séu, heita þó
engin húsanna „Capítuli“, „Conventa“ eða „Claustrum“ sem allt eru heiti
tengd klausturbyggingum á Íslandi. Ég tel þó sennilegast að skipulag
klausturhúsanna hafi verið áþekkt því sem ráða má af úttektunum 1684 og
1704, þ.e. að til forna hafi kirkjan staðið norðan við önnur klausturhús51
en sunnan við hana hafi verið skipað klausturbyggingunum umhverfis
ferkantað hlað. Aðrar byggingar, fjós, fjárhús, hesthús, fálkahús, hlaða,
skemmur, smiðjur, brunnhús og þess háttar – alls telja byggingarnar á
fimmta tug í úttektinni 1684, og nálægt því jafn margar eru þær í úttekt
Gottrups – hafi staðið norðan, austan eða sunnan við þetta svæði sem lík-
lega hefur með öllu þakið um hektara lands.
51 Staðsetning klausturkirkjunnar og Gottrupskirkju er nú þekkt af gröfum tveggja
klausturhaldara sem grafnir voru inni í henni. Kista sem fannst við fornleifarannsóknir
á Þingeyrum á vegum Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings sumarið 2021 er
með góðum rökum talin tilheyra Jóni Þorleifssyni klausturhaldara 1677/1678–82 og
önnur nálægt henni er merkt Oddi Stefánssyni, sem jafnframt var klausturhaldari á
Þingeyrum 1783–1803. Í fyrri kistunni var húfa, leifar af bók og signethringur úr gulli
með skjaldamerki Eggerts Hannessonar riddara en Jón var í móðurætt afkomandi Eggerts.
Hefð var fyrir því að grafa fyrirfólk inni í kirkjunni, oft nálægt altarinu, og má nota það til
þess að ákvarða staðsetningu kirkjunnar sem lýst er í úttektinni 1684 og Gottrupskirkju,
en þær hafa verið byggðar á sama stað. Móðir Gottrups, Mette Nielsdóttir, sem var 58
ára, lést ári eftir komuna til Þingeyra, 16. október 1685. Var hún „grafin þar í kórnum
fyrir altarinu“ samkvæmt Vallaannál (Annálar 1400–1800 I [1922–27], 405). Þetta var í
gömlu klausturkirkjunni því Gottrupskirkja var fyrst byggð áratug síðar. Og samkvæmt
sama annál er Gottrup sjálfur, sem lést á Þingeyrum mánaðamótin febrúar–mars árið 1721,
„grafinn norðanvert í kórnum þar að kirkjunni 8. Martii, laugardag annan langaföstu, með
virðulegri og vel afleystri útför í margra góðra manna viðurvist“ (Annálar 1400–1800 I
[1922–27], 518). Gottrupskirkja var sumsé reist á sama stað og gamla klausturkirkjan og er
hún jafnbreið henni þótt hún hafi verið nokkrum metrum styttri.
HEIMILDIR UM KLAUSTURKIRKJUNA Á ÞINGEYRUM