Gripla - 2022, Page 294
GRIPLA292
Skjalfræðileg greinargerð fyrir úttektunum
Úttektin 1684 er í Skjalasafni umboðanna á Þjóðskjalasafni, þar geymd
í öskju sem merkt er „Þingeyraklaustur VII, 2“ ásamt fleiri úttektum,
vísitasíum, uppskriftum máldaga og fleiru þess háttar. Talning og verðmat
á lauseyri Þingeyraklausturs var gerð 22. ágúst 1684 (1v-2r). Kirkjan var
tekin út mánuði síðar, 21. september 1684 (2r-3r). Dagsetningar þessar
miðast við gamla stíl. Lýsing annars húsakosts á Þingeyrum var gerð næstu
daga á undan og eftir (3r-4v). Tilefni úttektarinnar 1684 var afhending
Þingeyraklausturs Lárusi Gottrup eftir dauða Jóns Þorleifssonar klaustur-
haldara í lok febrúar eða byrjun mars árið 1682.52 Árið 1662 hafði faðir
Jóns, Þorleifur Kortsson, orðið lögmaður norðan og vestan, og árið eftir
tók hann Þingeyraklaustur. Jón sonur hans fékk Þingeyraklaustursumboð
1677 eða 1678 fyrir tilstilli föður síns en dó í embætti 26 ára. Í úttektinni
er nefndur „einn kertahjálmur í Miðkórnum með níu liljum, vænn og
vel umvendaður“ sem er sagður gjöf Þorleifs Kortssonar og konu hans
Ingibjargar Jónsdóttur til kirkjunnar á Þingeyrum „í minning þess blessaða
manns Jóns sáluga Þorleifssonar“ (2v). Á blaði 4v er vísað til ástands
Fiskaskemmunnar „þá Hr. Þorleifur við tók“. Af því virðist mega ráða að
sá „fyrri reikningsskapur“, sem nefndur er á blaði 2v, sé frá þeim tíma er
Þorleifur Kortsson kom að Þingeyrum 1663. Sú úttekt hefur ekki fundist.
Giska má á að engin úttekt hafi verið gerð á Þingeyraklaustri þegar Jón
Þorleifsson tók við umboðinu um 1677/1678. Slíkar úttektir voru reikn-
ingsskil gamals umboðshaldara gagnvart nýjum sem hafa þá sennilega ekki
þótt nauðsynleg þegar svo skyldir aðilar áttu í hlut.
Úttektarmennirnir 1684 eru nafngreindir og votta skjalið með undir-
skriftum sínum. Alþingisskrifarinn Árni Geirsson afritaði frumskjalið
skömmu síðar og dagsetti uppskrift sína í Snóksdal 6. nóvember 1684.
Úttektinni hefur fylgt kvittunarbréf á dönsku frá Lárusi Gottrup til
Þorleifs Kortssonar, dagsett 1. júní 1685, til staðfestingar greiðslu hans
við afhendingu Þingeyraumboðs. Umboðsmenn áttu að varðveita eigur
staðarins óskertar og greiddu uppbót/ábót fyrir rýrnun þeirra. Nítján árum
52 Annálar 1400–1800 II (1927–32), 459 (Kjósarannáll við 1682): „Deyði Jón Þorleifsson á
Þingeyrum, er það klaustur hafði fest að föður sínum lifandi.“ Í athugasemd neðanmáls
skrifar Hannes Þorsteinsson: „Í ísl. ártíðarskrám bls. 194, 217 er Jón talinn látinn 25. febr.
1682, en 4. marz í Vallaannál (I, 393), og eru hvorttveggja góðar heimildir, þótt ekki beri
saman um dánardaginn, en dánarárið er með vissu 1682.“