Gripla - 2022, Síða 462
GRIPLA460
eitt mýmargra dæma um þá kvenfyrirlitningu sem margir karlkyns
þjóðsagnasafnarar og -ritstjórar gerðu sig seka um, þar sem þeir gerðu
markvisst lítið úr kvenpersónunum, drógu úr jákvæðum eiginleikum
þeirra, sér í lagi sjálfstæði, völdum og styrk, og ýttu þannig undir neikvæð
viðhorf til kvenna og stúlkna almennt. Þessar breytingar eru þáttur í því
sem Jack Zipes, sem rannsakað hefur elstu gerðir Rauðhettusögunnar,
kallar siðvæðingarferli („civilizing process“) þjóðsagnanna í prentuðum
útgáfum fyrir börn af efri borgarastétt þar sem vald karlpersóna eykst á
kostnað kvenpersóna.47 Við sjáum fleiri dæmi um þennan kynjahalla síðar
í greininni.
Ferðalagi hópsins að „húsabæ einum“ er lýst með nokkuð fleiri orðum
en í frásögn Ragnhildar þar sem hann
47 Jack Zipes, The Trials and Tribulations of Little Red Riding Hood. Versions of the Tale in Socio-
cultural Context (Lundúnir: Heinemann, 1983), 13. Zipes bendir á dæmi um þetta í ævintýrum
Charles Perraults (1628–1703) frá 1697, þar sem hann gerir m.a. Rauðhettupersónuna, sem í
frönskum munnmælasögum hafði verið „ákveðin, hugrökk og klók“ bóndastúlka („forthright,
brave, and shrewd“ „peasant girl“, sama rit, 9) sem „platar úlfinn með klókindum og bjargar
sér sjálf, án hjálpar frá ömmu, veiðimanni eða föður“ („shrewdly outwits the wolf and
saves herself. No help from granny, hunter, or father!“, sama rit, 7) „fallega, ofdekraða,
auðtrúa og ósjálfbjarga“ („pretty, spoiled, gullible, and helpless“, sama rit, 9). Í Þýskalandi
gerðu Grimms-bræðurnir sambærilegar breytingar á þjóðsögunum sem þeir gáfu út á
19. öld. Í yfirlitsgrein um feminískar þjóðsagnarannsóknir vitnar Donald Haase m.a. til
rannsókna Ruth. B. Bottigheimer sem „sýndi í greinaröð frá 1980 til 1985 fram á hvernig
ritstjórnaraðgerðir bræðranna – þar á meðal þeim sem virðast einfaldar orðalagsbreytingar
– veiktu kvenpersónur sem [í niðurskrifuðum munnmælasögum] voru sterkar, gerðu
valdamiklar konur djöfullegar, bættu við karllægu sjónarhorni í sögum þar sem konur
vöktu máls á óánægju sinni, og gerðu kvenhetjur valdalausar með því að gera þær mállausar“
(„In a series of articles from 1980 to 1985, Bottigheimer demonstrated how the Grimms’
editorial interventions – including their apparently simple lexical revisions – weakened
once-strong female characters, demonized female power, imposed a male perspective on
stories voicing women’s discontents, and rendered heroines powerless by depriving them
of speech,“ Donald Haase, „Feminist Fairy-Tale Scholarship,“ Fairy Tales and Feminism.
New Approaches, ritstj. Donald Haase (Detroit: Wayne State University Press, 2004), 11).
Í íslensku samhengi má annars vegar nefna rannsókn Baldurs Hafstaðs á því hvernig
sifjaspell og kynferðisleg misnotkun gagnvart dætrum af hálfu feðra hvarf þegar Öskubuska
og aðrar þjóðsögur með sama minni voru prentaðar; í eldri gerðum Öskubuskusagnanna
voru það ekki eingöngu stjúpan og stjúpsysturnar sem beittu söguhetjuna ofbeldi, heldur
einnig faðirinn, með sifjaspelli (Baldur Hafstað, „Mjaðveig og Öskubuska“, Hrafnaþing
2 (2005): 20). Hins vegar sýndi rannsókn Aðalheiðar Guðmundsdóttur á mismunandi
gerðum Úlfhams sögu hvernig rímnaskáldið og fræðamaðurinn Jón Ólafsson úr Grunnavík
(1705‒79) dró úr hlutverki sterkra kvenna í rímnagerð sinni (Bgerð) en jók að sama skapi
hlut karlanna (Aðalheiður Guðmundsdóttir, „Inngangur,“ Úlfhams saga, útg. Aðalheiður
Guðmundsdóttir (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, 2001), cxxiii‒vi).