Gripla - 2022, Page 470
GRIPLA468
neðanmálsgrein 9, að mestu óþekktar í Gríshildarfræðunum fram að Cand.
Mag.-ritgerð greinarhöfundar frá árinu 2004. Rímurnar virðast einungis
varðveittar í einu handriti, Lbs 4407 8vo, afriti af eiginhandarriti skáldsins.
Titillinn í handritinu er Frásagann | Raunir Gríshilldar (þolinnmóðu) og
fylgdi rafræn uppskrift greinarhöfundar á rímunum sem fylgiskjal með
ritgerðinni.
Rímur Andrésar byggja á þjóðsagnaútgáfu Jóns Árnasonar og fylgja
frásögninni þar nokkuð vel, t.a.m. er þar að finna aukna sorg Gríshildar
við sonarmissinn:
Sína dóttir, svo sem þótti að missa,
hálfu | midur mæt sig bar,
missir viður sveinsinns | þar.|68
Þetta er annars eina íslenska gerð Gríshildarsögunnar sem inniheldur
þennan kynjamun, auk þjóðsögu Jóns. Þrátt fyrir að fylgja þeim texta vel
bætir Andrés nokkrum smáatriðum við, t.d. gagnrýnir sögumaður kónginn
með þessum orðum í mansöng þriðju rímu:
enn sjóli sá
sem seigi eg frá,
sízt var góður mað|-ur.|69
Í næstu erindum heldur gagnrýnin á framferði kóngs við konu sína
áfram.70 Í þjóðsögunum var áherslan á góðlyndi Gríshildar en í titli
rímnanna er hún á þolinmæði hennar sem þannig fær á ný aukið vægi.
Andrés breytir þó í raun aldrei söguþræðinum. Aftur á móti gefur hann
konungi nafnið Guðvarður í upphafi frásagnarinnar sem hann staðsetur
í Garðaríki.71 Andrés setur söguna sem sé í norrænt sagnasamhengi
og tengir hana norrænum svæðum í því sem nú er hluti Rússlands og
Úkraínu, í kringum Kænugarð, án þess þó að gera meira úr því síðar í
frásögninni.
68 Andrés, Frásagan Raunir Gríshildar (þolinmóðu), 1890, 2. ríma, 59. erindi (Lbs 4407 8vo,
bls. 15).
69 Sama rit, 3. ríma, 6. erindi, 3.–4. lína (sama handrit, bls. 20).
70 Sama rit, 3. ríma, 7. –15. erindi (sama handrit, bls. 20–21).
71 „hjet Goðvǀ=arður hauður sá, hjellt í Garðaríki.“ (Sama rit, 1. ríma, 16. erindi, 3.–4. lína
(sama handrit, bls. 2).