Árbók Reykjavíkurborgar - 01.08.1975, Blaðsíða 92
82
ORKUBÚSKAPUR íSLENDINGA
Inngangur
Þjóðlífsbreytingar þessarar aldar eiga fyrst og fremst rætur að rekja til
aukinnar og fjölbreyttari notkunar orku en áður þekktist. ógerningur er að
gera í stuttu máli grein fyrir þessum breytingum og áhrifum þeirra á fólkið,
sem landið byggir, en svo mjög munu hugmyndir manna og almenn lífsviðhorf
hafa breytzt, að segja má með nokkrum sanni, að hér búi önnur þjóð en forðum.
1 huga núlifandi íslendinga væri landið tæpast byggilegt án þess orku- og
vélbúskapar, sem nú er rekinn. Enn er þessi búskapur í mótun og því fer fjarri,
að menn geti gert sér fulla grein fyrir þýðingu hans x framtíðinni, þótt fyrir
liggi all ítarlegar skýrslur um áformaða virkjun vatnsafls og jarðvarma
hérlendis á næstu árum.
í þessum kafla verður ekki gerð nein grein fyrir hugmyndum manna um aukna
orkunotkun í framtíðinni, heldur er reynt að bregða upp mynd af heildarorku-
notkun landsmanna eins og hún reyndist árið 1973.
Margt orkar tvímælis í þessari mynd eins og hún er dregin upp, en svo virðist
sem ekki hafi til þessa verið lagt nægjanlegt kapp á að afla traustra gagna
um alla þætti orkubúskaparins. Birt hafa verið all ítarleg gögn um vinnslu
og dreifingu raforku í tímariti Orkustofnunar, Orkumálum. Einnig hafa öðru
hverju birzt gögn um jarðvarmanotkun, en þau eru af ýmsum ástæðum vandmeðfarin.
Þá liggja fyrir upplýsingar olíufélaganna um árlega sölu á ýmsum olíutegundum,
en þar þyrfti annars vegar að bæta við eldsneytiskaupum til íslenzkra skipa og
flugvéla erlendis og hinsvegar að draga frá eldsneytiskaup til erlendra skipa og
flugvéla, sem hér hafa viðkomu. Hugmyndir manna um orkutöp við notkun mismunandi
orkugjafa eru einnig nokkuð á reiki. í skýrslu iðnaðarráðherra um nýtingu
innlendra orkugjafa í stað olíu, sem að mestu er byggð á álitsgerð Verkfræði-
stofu Sigurðar Thoroddsens s/f, dagsettri 14. marz 1974, er að finna nokkrar
upplýsingar um heildarorkunotkun landsmanna 1972. Ekki er þó stuðzt við þær
í þeim töflum, sem hér birtast, heldur safnað saman gögnum frá Orkustofnun og
olíufélögunum um orkunotkunina árið 1973, meðal annars ti1 þess að fá samanburð
við gögnin í skýrslu iðnaðarráðherra. Þá er uppsetning einnig nokkuð á annan veg
en í skýrslu iðnaðarráðherra, enda snerist hún fyrst og fremst um hitun húsa.
Rétt er að taka skýrt fram, að hér er aðeins um að ræða tilraun til þess að
draga upp mynd af heildarorkunotkun landsmanna í grófustu dráttum, auk þess sem
verð til notenda er reiknað á því verðlagi, sem gilti á miðju þessu ári, til þess
að gefa hugmynd um þá fjármuni, sem eru í húfi. Margt orkar án efa tvímælis í
þeirri mynd, sem dregin er upp, en henni fylgir jafnframt sú spurning, hvort
uppsetningin standist, og ef ekki, hvernig megi draga myndina upp á viðunandi
hátt.