Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.02.2017, Blaðsíða 8

Skinfaxi - 01.02.2017, Blaðsíða 8
8 SKINFAXI tímarit Ungmennafélags Íslands Margrét Lilja Guðmundsdóttir segir að Íslendingar séu fyrirmynd annarra þjóða í forvarnamálum. Skipulagt tómstunda- starf utan skólatíma vegi þar þungt. Hollendingar horfa til Íslands í forvarna- málum. „Íþróttastarfið hér er einstakt, forvarnagildi þess er til fyrirmyndar á heimsvísu,“ segir Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt á íþróttasviði Háskólans í Reykjavík og sérfræð- ingur hjá rannsóknarfyrirtækinu Rannsóknir og greining. Hún kynnti niðurstöður Ánægju- vogarinnar á fundi hópsins Náum áttum í vor. Fram kemur í niðurstöðunum að meiri- hluti barna, sem stunda íþróttir einu sinni í viku eða oftar, er virkur í íþróttastarfi eða öðru skipulögðu tómstundastarfi og lætur áfengi og vímuefni að mestu í friði. Hlutfall þeirra sem æfa fjórum sinnum eða oftar með íþróttafélagi er lægra í neyslu en annarra. Hlutfall þeirra sem nota hvorki áfengi né önnur ávanabindandi efni er hæst í neðri bekkjum grunnskóla en lækkar eftir því sem börnin eldast. Þá benda niðurstöður Rannsókna og greiningar til að þau börn sem eru virk í íþróttastarfi og tómstundastarfi finni síður fyrir kvíða og þunglyndi en önnur börn. „Við sjáum alltaf að krökkum, sem eru virkir í íþróttum, líður betur, andlega og líkamlega, þau hreyfa sig og hugsa um sig. Rannsóknir sýna okkur æ betur að hreyfing virkar, ef ekki betur þá jafn vel og lyf sem fólki eru gefin vegna andlegra sjúkdóma,“ segir Margrét og hnykkir á að lífshamingja, ánægja og námsárangur ungmenna fylgi þeim sem er virkur í íþróttafélagi. Hættulegt að hafa ekkert að gera Margrét segir niðurstöður Ánægjuvogarinnar mjög jákvæðar. En um leið og íþróttastarf og skipulagt tómstundastarf skili góðum árangri í forvarnamálum þurfi að huga að þeim sem eru ekki í neinu starfi. „Á miðstigi í grunnskóla er ekki mikið í boði fyrir börn eftir skóla. Íþróttastarfið og skipulagt tómstundastarf er því mikilvægt,“ segir Margrét og bætir við að það sé í raun alveg sama hvar borið sé niður, hópurinn, sem er ekki í skipulögðu starfi, komi alltaf verr út í samanburði við þann sem er virkur í íþróttum. „Ég hef meiri áhyggjur af þeim sem eru ekki í íþróttum eða öðru skipulögðu tóm- stundastarfi. Ég er ekki ein um það. Fullt af fagfólki beinir nú sjónum sínum að þeim hópi,“ segir Margrét og leggur áherslu á að Íslendingar hafi náð miklum árangri í forvar- namálum. Eftir því sé tekið í öðrum löndum. Áhyggjur af börnum sem eru ekki í skipulögðu íþróttastarfi Hollenski fréttamaðurinn Rudy Bouma telur fullvíst að Íslendingar geti verið fyrirmynd Hollendinga í forvarna- málum. Í byrjun árs las hann grein í bandaríska tímaritinu The Atlantic um árangur Íslendinga í forvarnamálum og til hvaða ráða var gripið hér til að draga úr unglingadrykkju og forða ungmennum frá neyslu fíkniefna. Hann er á ferð um Evrópu um þessar mundir við vinnslu á þáttaröð sem áformað er að sýna í sumar í fréttaskýringaþættinum Nieuwsuur sem sendur er út á hverjum degi á hollensku ríkissjónvarpsstöð- inni NOS. Bouma áætlar að vera á Íslandi í nokkra daga um miðjan júní við vinnslu innslaga í þáttinn. Skjáskot af greininni í The Atlantic. Margrét Lilja og fleiri þátttakendur á fundi Náum áttum.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.