Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.02.2017, Blaðsíða 12

Skinfaxi - 01.02.2017, Blaðsíða 12
12 SKINFAXI tímarit Ungmennafélags Íslands Þ ingkonan Áslaug Arna Sigur- björnsdóttir er fyrirmynd. Hún er með yngstu þingmönnum Íslands og hefur verið á góðri uppleið í hinum pólitíska heimi. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2016 fór hún fram gegn sitjandi ritara flokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem dró framboð sitt til baka. Áslaug hefur unnið um árabil að ýmiss konar félagsstörfum. Hún er nú ritari Sjálfstæðisflokksins, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og varaformað- ur þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hvernig sérðu fyrir þér aðkomu félagasamtaka að forvarnamálum? „Félagasamtök eru mjög mikilvægur hlekkur í öllu forvarnastarfi. Þar þarf allt að spila saman, ríkið, félagasamtök og velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfi. Ég held að við þurfum á mörgum sviðum að byrja fyrr að hugsa um forvarnastarf. Við höfum áttað okkur á því en tökum of smá og hæg skref. Við þurfum að einblína í meiri mæli á mikilvægi forvarna fyrir alla aldurshópa en aðallega fyrir ungt fólk. Þegar okkur tekst að sinna forvörnum vel léttum við á öllum kerfum ríkisins, ekki síst velferðar- og heilbrigðiskerfinu.“ Kemur til greina að auka fjárveitingar til forvarna? „Það hefur verið í umræðunni. Ég veit að ráð- herrar ýmissa málaflokka hafa rætt það og ég mun þrýsta á það. En forvarnir þurfa að þróast. Það er gagnkvæmur skilningur á mikilvægi forvarna. Þótt áherslurnar séu mis- munandi, þegar kemur að boðum og bönnum, hefur það sýnt sig að forvarnir eru langbesta leiðin í lýðheilsumálum. Íþróttahreyfingin gegnir þar mikilvægu hlutverki. Við eldumst hratt og getum lítið gert við því. En um leið hefur ofþyngd aukist mikið. Þar þarf að grípa í taumana. Þetta helst líka allt í hendur og hugsa þarf málin í stærra samhengi. Fangelsismálin eru af sama meiði. Við getum byggt fleiri fangelsi. En við getum líka horft fram á við og velt fyrir okkur hvað við getum gert í dag svo að staðan verði betri í framtíð- inni. Markmið okkar hlýtur að vera að fækka föngum og koma í veg fyrir að fólk brjóti af sér. Í því samhengi skipta æskulýðs- og for- varnamálin máli fyrir framtíðarsýnina.“ Er framtíðarsýnin til? „Það eru margar ákvarðanir teknar í dag sem eiga að hafa áhrif eftir mörg ár. Í menntakerf- inu þurfum við sem dæmi að ákveða hvar þörfin verður á næstu árum. Við þurfum þess vegna að reyna að beina fólki í réttar áttir í nútímanum. Við sjáum ekki ávinninginn af starfinu strax. En þannig eiga stjórnmálin meira að vera, ákvarðanir teknar í dag eiga að hafa áhrif til lengri tíma og til framtíðar, en ekki aðeins ákvarðanir sem hafa góð áhrif til skamms tíma.“ Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2015 réðstu ekki á garðinn þar sem hann var lægstur. Þú og annað ungt fólk í flokknum gagnrýndir flokksforystuna fyrir að hlusta lítið á jafningja ykkar. Þú fórst svo fram gegn sitjandi ritara. Hvernig stuðlar maður að breytingum í svona formföstu félagi? „Það er mikilvægt að þora stíga fram. Ég ákvað að láta á það reyna hvort Sjálfstæðis- flokkurinn væri í raun tilbúinn til að bjóða ungt fólk velkomið í forystuna til að breikka hana og hafa áhrif. Ég var mjög skýr í máli um það að flokkurinn yrði að hlusta á unga fólkið, sem flokkurinn gerði. “ Fannstu fyrir fordómum? „Já, einhverjum, en ekki miklum. Fordóm- arnir fólust í gagnrýninni sem sagði að ég gæti ekki hafa gert þetta allt sjálf því að ég væri svo ung. Þetta eru aldursfordómar. En ég held að ég hafi sprengt blöðru. Margir telja nú mikilvægt að hafa blandaða forystu í flokknum. Þetta sýnir að öflugt, málefnalegt ungt fólk, sem sýnir öðrum að það gefur ekkert eftir og sýnir árangur, getur haft eitt- hvað til málanna að leggja.“ Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: Ungt fólk þarf að þora að stíga fram og tapa „Hvernig ætlið þið að laga þetta?“ Það kom á óvart þegar Áslaug Arna greindi frá því á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október árið 2015 að hún ætlaði að bjóða sig fram til ritara flokksins. Þar var fyrir Guðlaugur Þór Þórðar- son, 48 ára þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Lengi vel leit út fyrir að hann yrði sjálfkjörinn. Guðlaugur ákvað að stíga til hliðar í ljósi framboðs Áslaugar. Hún var þá 24 ára laganemi. Guðlaugur sagði í viðtali við Ríkissjónvarpið þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína. „Mín niðurstaða er þessi; það er best fyrir flokkinn minn og flokkinn okkar, þegar kemur öflugt fram- boð frá ungri manneskju, að ég stígi til hliðar og gefi henni tæki- færi til þess að halda áfram þessu starfi og styðja hana vel í því.“ Í ræðu sinni á landsfundinum sagði Áslaug Arna að flokks- forystan væri einsleit, hleypa yrði ungu fólki að, því þurfi meira frelsi og minna íhald. „Ég ætlaði ekki alveg strax inn á þing. En þegar ég kom á landsfund Sjálfstæðisflokksins á laugardags- morgninum sátu ráðherrar flokksins fyrir svörum. Ég benti þeim á að meðalaldur þjóðarinnar er 37 ár en þingflokks Sjálfstæðis- flokksins 52 ára. Ég spurði: „Hvernig ætlið þið að laga þetta?“ Ég áttaði mig á því að spurning mín var fáránleg og að við þyrftum að fara fram ef við ætluðum að yngja flokksforystuna. Ég ákvað því samdægurs að fara fram.“ Ráð til ungs fólks sem vill hafa áhrif „Ég segi alltaf við ungt fólk að maður búi að öllum félagsstörf- um sem maður tekur þátt í. Ég hef sagt við þá sem leita ráða hjá mér: Það þurfa ekki allir að fara í pólitík til að hafa áhrif. Þú getur haft áhrif á svo ótrúlega mörgum sviðum. En þú þarft þor til að stíga fram, þor til að mistakast og þora að njóta þess sem þú ert að gera á þeim tíma þegar þú gerir það. Þú þarft líka að þora að stíga feilspor og tapa fyrir einhverjum. Oft lærir maður meira á því en að sigra. Það býr þig heldur ekkert betur undir næsta sigur en síðasta tap. Eitt sinn kom til mín ung kona sem hafði tapaði í kosningum í formannskjöri í nemenda- félagi. Hún sagðist hafa lesið ráð mín og áttaði sig þá á því hvað hún hafði lært mikið á því. Ég held að ungt fólk sé smeykt við að fara fram í forystuslag í félagsstörfum því að það er hrætt við að ná ekki markmiðum sínum. Krakkar eru oft með stóra drauma. En þótt þeir rætist ekki þarf það ekki að vera endir alls. Þú lærir af því sem þú getur nýtt þér. Krakkar eiga að njóta þess sem þau gera og vera opin fyrir því hvert lífið leiðir þau.“

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.