Íslenska leiðin - 01.05.2022, Blaðsíða 11
11ÍSLENSKA LEIÐIN TÍMARIT STJÓRNMÁLAFRÆÐINEMA
ÍSLENSKA LEIÐIN
þingi sýndi okkur hversu mikilvægt það er að
breyta 46. gr. stjórnarskrárinnar enda er það ekki
við hæfi að þingmenn staðfesti sitt eigið kjör.
Eftir allt sem á undan er gengið trúi ég því ekki
að þingmenn vilji áfram vera dómarar í eigin sök
og úrskurða sjálfir um kjör sitt. Alþingi hlýtur að
hafa lært eitthvað af þessu klúðri. Sérstaklega í
ljósi gagnrýninnar sem Alþingi sætti í kjölfar
staðfestingar á seinni talningunni.
Lýðræði er eitt af grunnstoðum í íslensku
samfélagi og ber að gera allt til að varðveita það
og styrkja það eins mikið og hægt er. Varðveiting
lýðræðisins á ekki að velta á skapi eða stöðu
þingmanna enda snúast stjórnmál um eitthvað
stærra en eigin hagsmuni fólksins í þessum
valdastöðum sem við kusum það í. Rétt eins og
stjórnarskrárgjafinn er þjóðin einnig sú sem
veitir fólki umboð sitt til að starfa í þágu þess
sem hluti af löggjafarvaldinu. Ég á erfitt með
að bera traust til þessa þings enda veit enginn
hver raunverulegur vilji þjóðarinnar er. Það
er staðreynd að enginn veit hvernig atkvæði
skiptust nákvæmlega í Norðvesturkjördæmi.
Í þessum kosningum tel ég því enn vera uppi
vafi um vilja kjósenda sem er ekki í takti við
lýðræðið né traustið sem almenningur ætti að
bera til kosninga og Alþingis. Við erum hluti af
kynslóðinni sem tekur við keflinu í stjórnmálum
en núverandi ráðamenn hafa ákveðið að afhenda
okkur laskað traust til lýðræðisins og kosninga.
Síðan Alþingi tók til starfa og nýja
ríkisstjórnin var kynnt hafa margir gagnrýnt störf
þeirra. Ríkisstjórnin kynnti ráðherraembætti
sem enginn botnar í, krukkuðu í Stjórnarráðinu
þannig að ráðherrar vita varla hvaða hlutverki
þau gegna og innan hvaða valdsviðs þau starfa
og í þokkabót tóku þau allt svigrúm í burtu
fyrir stjórnarandstöðuna til að hafa aðhald
með ríkisstjórninni, sem fáir hafa þó gagnrýnt.
Stjórnarandstaðan fékk formennsku í einni af
átta fastanefndum Alþingis og ríkisstjórnin
skýlir sig á bak við það að „samstarfið hafi
ekki gengið vel á síðasta kjörtímabili.“ Að
gera þá kröfu að nefndarsamstarf milli
stjórnarliða og stjórnarandstöðu gangi eins
og í draumi er óraunhæf þar sem hlutverk
stjórnarandstöðunnar er að gagnrýna og veita
aðhald. Þetta eru afsakanir sem halda ekki vatni.
Rétt er jafnframt að benda á að stjórnarandstaðan
nýtur stuðnings um 40% þjóðarinnar sem
endurspeglast ekki í þingstörfunum. Eins með
fjárlögin sem voru unnin á methraða. Venjulegur
tími fyrir afgreiðslu fjárlaga eru þrír mánuðir en
vegna starfsemi Kjörbréfanefndar, sem breytti
engu verulegu, voru fjárlögin afgreidd á þremur
vikum. Á síðustu dögum þingsins fyrir áramót
var ég viðstödd og tók þátt í að greiða atkvæði
um fjárlög. Þetta var góð reynsla en sýndi mér þó
hvernig hlutir eiga ekki að vera gerðir og hvernig
starfsemi þingsins á ekki að vera.
Til að draga þetta saman voru kosningar að
hausti til heimatilbúinn vandi sem var búið að
margvara við. Kjörbréfafíaskóið var kannski ekki
viðbúið en það er þó mikilvægt að gera ráðstafanir
til að fyrirbyggja að eitthvað slíkt endurtaki
sig. Fyrstu skrefin væru að breyta 46. grein
stjórnarskrárinnar og hafa alþingiskosningar
framvegis á vorin. Þetta Alþingi mun seint njóta
trausts og virðingar hjá stórum hluta þjóðarinnar
enda er auðvelt að draga allt í efa sem þau segja,
enginn veit hvort þetta séu réttkjörnir fulltrúar
eða ekki. Lenya Rún Taha Karim,
varaþingmaður Pírata
& laganemi