Heima er bezt


Heima er bezt - 01.11.2008, Blaðsíða 22

Heima er bezt - 01.11.2008, Blaðsíða 22
Veturinn 1953, í janúarmánuði, þá leigði ég í húsi á Akureyri, sem neíhdist Jerúsalem. í næsta herbergi við mig bjó skólapiltur, sem var oft nokkuð hávaðasamur á kvöldin og fram eftir nóttu og gat ég þá stundum ekki sofnað fyrr en klukkan var orðin 2. Eina nótt dreymdi mig, að ég var kominn inn til hans og fór að ávíta hann fyrir hávaðann. En þá kom ffam kona, sem mér virtist honum nákomin, en mundi vera framliðin. Þóttist ég þá fara inn í rúm mitt aftur og vakna. En þá var konan komin þar og ég í einhverju móki. Sló þá konan einhverjum sprota í brjóstið á mér og fannst þá fara um mig titringur, líkastur því þegar svæft er á skurðarborði og eftir augnablik fór ég að svífa í loftinu fyrir ofan líkama minn og sá hann liggja í rúminu. Ég reyndi að komast í líkama minn aftur og stóð það yfir aðeins augnablik uns ég var kominn i sömu skorður aftur, láréttur í loftinu, svo sem meters hæð frá líkamanum. Fór ég þá að íhuga ástand mitt og datt helst í hug að ég hefði orðið bráðkvaddur. Leitaði þá hugurinn til systur minnar, sem þá var stödd hjá mér, hversu hryggilegt það mundi verða fyrir hana að koma að mér önduðum um morguninn. Einnig hvarflaði hugurinn til allra ættingja minna og fylltist ég hryggð. Ég íhugaði mál mitt, en fyrst svona var komið þýddi ekkert að fást um það. Nú skipti allt í einu um, og ég fór að sjá alla mína liðnu ævi líða hjá, líkt og kvikmynd og ég gladdist og hryggðist í senn, allt eftir því hvernig ævi mín hafði verið. Ég hrópaði þá upp og sagði: „Fyrst svona er komið, þá vil ég helst fara til Ibbu,“ en það var gælunafn konunnar minnar. En uni leið og ég sagði þetta þá sveif ég af stað í gegnum vegginn í herberginu eins og engin fyrirstaða væri, út í dimman næturhimin eins og oft er í janúarmánuði á þessum tíma nætur og sveif í gegnum loftið með svo miklum hraða og var láréttur og fannst sem sterkviðri léki um herðar mér og höfúð. Þannig sveif ég lengi uns ég nam staðar. En þegar ég beitti huganum, þá endurtók sig sami hraðinn aftur og eftir litla stund tók að birta og ég var kominn á land, sem ég þekkti ekki. Þar stóð ég á rótarskoti út úr tré og var það um einn metri að sverleika og sprunginn á því börkurinn og mikið lauffall á jörðu eins og þama væru engir vindar. Skógur mikill og hár var á hægri hönd og lauf þessa skógar líkust lárbeijalaufi, en heldur stærri og græn að lit. Ég leit í allar áttir og sá að himinninn var allur jafnbjartur og gulhvítur á lit, ekki blár, og hitinn eins og í þægilegu sólskini hér og bar engan skugga á, en jafnbjart úr öllum áttum. Nú sá ég mann stutt frá inér og kallaði til hans og spurði hann hvort hann hefði hjálpað mér. „Já, ég aðstoðaði þig,“ svaraði hann. Ég fylltist þakklæti og sveif til hans frekar en gekk og faðmaði hann að mér, en hugsaði um leið, hvemig stendur á þessu. Ég var ekki svona framhleypinn. Fór ég þá á sama staðinn og ég var á fyrst og fómaði þar upp höndunum og þakkaði guði fyrir öll hans kærleiks- og máttarverk, og sveif þá um leið upp í loftið yfir skógarþykknið og fannst ég fara í austurátt og landið vera þakið skógi og margs konar blómaskrúði, þar til ég staðnæmdist við stóra höll, sem var með kúlumynduðu þaki og súlur undir öllum hliðum, líkt sem þær væm úr marmara eða einhverjum öðmm fallegum efhum. Fordyr voru á byggingunni og nokkrar tröppur upp að dyrunum. Ég gekk upp tröppumar og á móti mér var tvívængja hurð. Ffurðin laukst upp af sjálfú sér og gekk ég inn í dymar og sá þar mann inni, er ég hugði að væri eins konar dyravörður. Ég spurði hann: „Hefur faðir minn komið hér?“ „Ég veit ekki við hvem þú átt.“ Ég fann að ég roðnaði af því að ég sagði þetta við ókunnan mann, en sagði honum þó nafnið. Þá mælti maðurinn: „Já, hann hefúr komið hér, en er ekki hér nú.“ Bað ég þá manninn leyfis hvort ég mætti ganga yfir forstofugólfið, en það var allt tíglum sett og eins og göt fyrir tíglana. Steig ég svo inn á gólfið og svignaði það um leið allmikið undan mér svo ég spurði manninn hvort óhætt væri að ganga um gólfið. Sagði hann það vera óhætt og um leið leit hann um öxl sér og mælti í hálfúm hljóðum: „Hann er nokkuð þungur því hann er ekki skilinn við.“ Gekk ég þá yfir gólfíð og svignaði það um leið allmikið undan mér. Sá ég þá inn í stóran súlnasal, og milli súlnanna stóðu einar tíu konur, allar í snjóhvítum kyrtlum. Tók ein konan sig út úr hópnum og leið til mín, en í því hún var rétt að segja komin til mín, fómaði hún upp höndunum og sagði: „O, það er ekki hann, sem ég átti von á.“ Ég þreifaði svo á mér öllum og spurði sjálfan mig: Er þetta allt saman blekking? En finn þá að líkami minn var allur eðlilegur og eins fotin, sem ég var í. Sá ég þá allt í einu inn á milli súlnanna. Vinstra megin í salnum, en þó heldur til hliðar, sá ég konu koma svífandi, og vom klæði hennar snjóhvít eins og hinna kvennanna, að öðru en því, að mér virtist, þar sem fellingarnar á búningnum standa hæst, stafaði geislum, líkast því, þegar sólin skín á gler. Nú, þegar þessi kona nálgast þá þekkti ég hana, þetta var konan mín. Kom hún alveg fast til mín og ég breiddi út faðminn móti henni og fylltist mjög mikilli geðshræringu. Og um leið vaknaði ég með uppréttar hendumar i ruminu. Heb 1962 502 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.