Úrval - 01.04.1976, Blaðsíða 59
Og þú heyrir helga óma
hljóma gegnum myrkrið svarta,
fínnur angan fölra blóma,
falinn eld hins kalda hjarta.
Þú sérð stjörnur lífsins ljóma,
lýðnum bendir skinið á,
svalar mannsins þorsta og þrá,
þjóðum bjargar glötun frá,
þekkir lífsins duldu dóma,
drottins hjarta heyrir slá.
Þú átt lönd til yztu ósa,
elfur, fossa og hæstu tinda,
Þú átt eldfjöll, öll, sem gjósa,
ofurmætti hafs og vinda,
angan hinna rauðu rósa,
regns og sólar gróðarmátt,
hamingjunnar hjartaslátt,
hugsjónanna andardrátt,
draumanætur, daga Ijósa;
djúpsins gull og loftið blátt.
Þú sem eldinn átt í hjarta,
yljar, lýsir, þó þú deyjir.
Vald þitt eykst og vonir skarta,
verk þín tala, þótt þú þegir.
Menn sjá alltaf bjarmann bjarta
blika gegnum húmsins tjöld.
Eldurinn hefur æðstu völd;
uppskera hans er þúsundföld.
Mannssálin og myrkrið svarta
mundu án hans dauðaköld.