Goðasteinn - 01.09.1968, Side 39
inni hið efra, lá þjóðleiðin um Meðallandið og yfir fljótið hjá
Söndum. Svo að segja allir ferðamenn, sem ekki áttu heima á
fljótsbakkanum, fengu sér fylgd yfir það, og oftast allra manna
urðu Sandamenn til þess að fylgja, enda engir jafn kunnugir og
þeir, hvernig og hvar vatnið var mest á hverjum tíma, en það
var mjög breytilegt. Það var vissulega íþrótt að vera slyngur
vatnamaður, en sú íþrótt gat oft verið bæði erfið og hættuleg,
en jafnframt skemmtileg. Einkum voru það vetrarferðirnar, sem
varasamar voru, hvort sem riðið var milli skara eða farið á
veikum og viðsjálum ís. Þegar fljótið var riðið milli skara, var
alltaf um marga ála að ræða, því ófært var það með öliu, ef svo
var að því kreppt, að það væri komið í einn ál. Vatnamaðurinn,
sem þá var á ferð yfir Kúðafljót, þurfti vissulega að mörgu að
hyggja og skipti miklu máli, hvort frost var og fljótið að leggja
eða um þýðviðri var að ræða og vatnið að sprengja af sér ís-
fjötrana og í nokkrum vexti. í frosti var það grunnstingullinn,
sem sérstaklega þurfti að varast, en hann er ísnálar, sem myndast
á yfirborðinu við áframhaldandi kælingu vatnsins, sökkva til botns
og sitja þar kyrrar. Heldur þetta áfram að hækka, meðan frostið
helzt, þar til hann hefur náð yfirborðinu. Mcðan grunnstingull-
inn er enn á kafi í vatninu, getur hann líkzt furðanlega mikið
hinum raunverulega botni, en er ofar, þannig að vatnið sýnist
grynnra, vegna þess að sandurinn, sem vatnið flytur með sér,
hefur setzt að í honum og gert hann eins á litinn. Yfirborð grunn-
stingulsins er samt ekki eins og vatnsbotninn. Hann er dálítið ó-
sléttari. Þessar ójöfnur koma fram á yfirborði vatnsins, og á því
einu gat vatnamaðurinn þekkt fyrirbærið og varazt það. Ef stig-
ið er út á grunnstingulinn, veitir hann ekki viðnám, heldur sekk-
ur maður til botns, en grunnstingullinn flýtur upp á allstóru svæði
og myndast þá geil þvert yfir álinn, þar sem yfir var farið. En
saga hans er ckki öll sögð með þessu. Hann hefur víða náð upp
úr vatninu og orðið að ísi. Þegar svo ísalausnir fara fram, hversu
oft sem það kann að vera á vetri hverjum, losna þessir grunn-
stingulsjakar og koma niður álana morrandi í hálfu kafi, jafn
viðsjálir allri umferð, hvort sem það er maður, hestur eða bátur.
Þeir eru ósýnilegir flestum augum. Aðeins glöggur og þaulreynd-
Goðasteinn
37