Ársrit Torfhildar - 01.11.1990, Side 75
að endurskapa þessi stöðluðu gildi heldur að skapa nýtt.
Sköpunin er byggð á tilvistarlegri glímu við tungumálið, glímu
sem er merkt leit og tilraun til að höndla merkingu gegnum tákn,
goðsögur og frummyndir. Hin nýja sýn lesandans á veruleikann
opnast ekki nema að formið sé endurskoðað og umskapað og nái
þar með að gefa merkingarleit mannsins nýtt gildi.
SAMBANDIÐ VIÐ LESANDANN
Skrif og ummæli Matthíasar mótast skiljanlega af hlutverki
hans sem verjanda og boðbera táknsæisins en þau opna engu að
síður dyr að betri skilningi á því hvað greinir í raun táknsæi og
raunsæi að, eða öllu heldur hvað gerir það ekki. Það má því segja
að það sé ekki formið sjálft sem greinir stefnurnar í sundur heldur
afstaða höfundanna til þess. Hinn raunsæislegi þáttur í byggingu
táknsæju verkanna vex beint út úr nýraunsæinu og þó að
sáttmálinn við lesandann, sem lá táknheimi og merkingarmynd
nýraunsæju verkanna til grundvallar, sé rofinn á margvíslegan
hátt hefur það hins vegar ekki í för með sér að raunsæisforminu
sé varpað fyrir róða. Þetta er mjög áberandi einkenni á ýmsum
verkum sem standa á mörkum nýraunsæis og táknsæis, svo sem
Vinur vors og blóma (1983) eftir Anton Helga Jónsson, Sólin og
skugginn (1981) eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur og fleiri verkum.
Svipur þeirra með nýraunsæinu er mjög áberandi en ýmsir nýir
þættir í formgerð og stíl halda innreið sína og ljá verkunum nýjan
blæ sem þó getur ekki talist fullkomiega táknsær. Táknsæ geta
verkin í raun fyrst talist þegar veruleikaskilningur þeirra hættir
að fela í sér að hin "konkreta" raunvera sé ein raunveruleg.
Táknsæið sér veruleikann fremur sem skapaðan veruleika, sem
afmarkaðan táknheim í verkunum, og því verður verkið sjálft í
raun að veruleika eða veruleikaígildi. Heimurinn sem tákn
verksins vísa til er ekki til nema í verkinu sjálfu eða öllu heldur í
tungumálinu, í táknmiðakeðjunni. Þessi útvíkkun
veruleikahugtaksins felur samt ekki í sér að lesandanum sé gert
73