Læknablaðið

Ukioqatigiit

Læknablaðið - 01.11.2023, Qupperneq 25

Læknablaðið - 01.11.2023, Qupperneq 25
L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109 509 S J Ú K R A T I L F E L L I dómur í taugum eða vöðvum? Mögulega einkenni á grunni langvarandi sykursýki? Engin skyneinkenni voru til staðar, engir krampar eða erfiðleikar við að slaka á vöðvum eftir áreynslu (myotonia). Þar sem ekki var um viðvarandi og hratt vaxandi máttminnkun að ræða mátti setja taugasjúkdóma á borð við hreyfitaugungahrörnun (motor neuron disease, MND) eða vöðvasjúkdóma á borð við erfðar vöðvadystrofiur mjög neðarlega á listann. Einkenni bentu frekar til vöðvakvilla (myopathy) af einhverri gerð með (vöðva)verkjum og máttleysi mest í aðlægum (proximal) vöðvum. Önnur möguleg mismuna­ greining væri samhverfur fjöltaugakvilli af hreinni mótorískri gerð. Vöðvakvilli er sjúkdómur í vöðvum og eru þekktar yfir 100 mismunandi tegundir slíkra sjúkdóma.1 Klínískt getur verið nær ómögulegt að greina vöðvakvilla frá úttaugakvillum (per- ipheral neuropathy) og þar koma taugalífeðlisfræðilegar rann­ sóknir á borð við tauga­ og vöðvarit sterkar inn. Taugakvilli er ástand sem verður vegna truflunar í virkni taugasíma (axon), þess hluta taugarinnar sem flytur rafboðin áleiðis. Slíkt getur orsakast af beinum skaða á taugasímanum, til dæmis vegna sykursýki, eða vegna niðurbrots á mýelínslíðrinu sem umlykur taugasímann (demyelination).2 Meðal einkenna taugakvilla eru máttminnkun og minnkuð sinaviðbrögð en máttminnkunin er þá almennt meira áberandi í fjarlægum (distal) vöðvum ólíkt því sem sást í þessu tilfelli. Taugakvilla fylgir oft skyntrufl­ un sem eðli málsins samkvæmt sést ekki í vöðvakvillum.3 Í umræddu tilfelli varð mikil töf á greiningu þar sem einkenni voru lengi talin stafa af undirliggjandi sykursýki. Í mismunandi tauga­ og vöðvakvillum geta lífeðlisfræði­ legar rannsóknir verið mjög breytilegar, stundum sést lág spenna vegna truflunar í starfsemi tauga­ og/eða vöðvaþráða og hún eykst ekki með endurtekinni örvun sem er mikilvægt atriði í þessu tilviki. Í umræddu tilfelli sýndu lífeðlisfræðilegar rannsóknir mynstur sem er einkennandi fyrir Lambert­Eaton myasthenic syndrome (LEMS), sjúkdóm sem verður vegna truflunar í fortaugavöðvamótunum (pre-synaptic). Klíníkin gaf líka góða vísbendingu um þennan sjúkdóm eins og verður far­ ið í hér á eftir. Orsök og einkenni LEMS­sjúkdómurinn verður vegna myndunar sjálfsónæm­ ismótefna gegn jónagöngum (voltage-gated calcium channels, VGCC) í taugaendum taugavöðvamóta, svokölluðum fortauga­ mótum (pre-synaptic). Undir eðlilegum kringumstæðum losa þessi göng nægilegt kalsíum til að valda losun á boðefninu acetýlkólín sem síðan veldur samdrætti í viðtakandi vöðva. Í LEMS fækkar þessum jónagöngum vegna myndunar mótefna gegn alfa­1­undireiningu þeirra, losun kalsíums minnkar og þar með losun acetýlkólíns, niðurstaðan verður minni örvun á vöðvasamdrætti.4 Einkenni LEMS eru því máttminnkun án skyntruflunar, mest áberandi í stórum aðlægum vöðvum út­ lima. Truflun í ósjálfráða taugakerfinu er algeng þar sem þessi göng gegna sambærilegu örvunarhlutverki þar. Þau einkenni eru í formi hægðatregðu, ójafns blóðþrýstings, munnþurrks, minnkaðrar svitamyndunar, ristruflana hjá karlmönnum og svima. Sjaldan verður truflun í andlitsvöðvum. Undirliggj­ andi orsök myndunar sjálfsónæmismótefna gegn VGCC­jóna­ göngunum er í um helmingi tilfella illkynja mein og þá oftast smáfrumulungnakrabbamein (SCLC, krabbameinsfrumur af neuroendocrine­uppruna).5 Þannig tilheyrir LEMS sjúkdómum af flokki æxlishjákenna (paraneoplastic) sem öll eru afar sjald­ gæf. Þó er mikilvægt að hafa í huga að greininguna er hægt að setja þótt ekki finnist þessi sjálfsónæmismótefni. Í helm­ ingi tilfella er engin þekkt orsök fyrir tilurð sjúkdómsins, viss tenging er við ákveðna HLA­hópa (HLA­B8, HLA­DR3 og HLA­DQ2) sem hafa síðan tengingu við aðra sjálfsónæmissjúk­ dóma eins og vöðvaslensfár (myasthenia gravis, MG).6 Greining LEMS byggir þannig á klínískri skoðun, taugalífeðlisfræðileg­ um rannsóknum og leit mótefna í blóði. Vöðvasýni getur ver­ ið eðlilegt eða sýnt vöðvarýrnun (atrophy) og hjálpar ekki við greininguna. Faraldsfræði LEMS er sjaldgæfur sjúkdómur, rannsóknir hafa sýnt algengi um 2,6 staðfest tilfelli á hverja milljón íbúa.7 Hjá LEMS­sjúk­ lingum með undirliggjandi illkynja mein eru 60­75% sjúklinga karlmenn og meðalaldur við greiningu er 58 ár. Hjá öðrum LEMS­sjúklingum er aldursdreifing líkari því sem sést í MG með tvítoppa dreifingu í kringum 35 ára aldur og hærri toppi í kringum 50­60 ára aldur og flestir sjúklingar eru konur.8 Greining Klíník Klínísk einkenni LEMS geta verið nokkuð almenns eðlis en ákveðin einkenni ættu að vekja grun um sjúkdóminn. Sjúklingar finna oft fyrir máttminnkun í nærvöðvum neðri útlima og lýsa gjarnan óþægindum og stífleika í vöðvum, sérstaklega eftir hvíld en komast síðan í gang og liðkast með hverju skrefi (post-activation facilitation). Þetta skýrist af trufl­ un í fortaugamótum í LEMS, ólíkt MG þar sem truflunin er í eftirtaugamótunum. Þrenningin: 1. göngulagstruflanir/mátt­ minnkun í fótum, 2. minnkuð eða horfin sinaviðbrögð (hypo- reflexia/areflexia) og 3. truflun á ósjálfráða taugakerfinu ætti að vekja grun um LEMS (þótt vissulega séu ekki öll einkenni endilega til staðar). Ólíkt MG eru áhrif á augn­, kyngingar­ og öndunarvöðva yfirleitt væg eða engin. Áhrif á ósjálfráða taugakerfið eru einnig oft væg og sjúklingar vekja sjálfir ekki endilega athygli á þeim en þau geta komið fram ef spurt er um þau (munnþurrkur, lágþrýstingur, hægðatregða og ris­ truflanir). Talið er að slík einkenni megi finna hjá meirihluta sjúklinga. Mikilvæg vísbending um LEMS er þegar kvartanir sjúklings eru úr hlutfalli við það sem kemur fram við klíníska skoðun og er þetta ólíkt því sem yfirleitt sést í MG. Kraftapróf­ un getur verið nær eðlileg, sérstaklega ef sjúklingur er ekki að koma beint úr hvíld við skoðunina. Sinaviðbrögð koma oft bet­ ur fram eftir smávægilega áreynslu (og því best að prófa eftir hvíld, „reflex augmentation“ er vísbending um sjúkdóminn). Við skoðun getur truflun á ósjálfráða taugakerfinu komið fram sem léleg ljósviðbrögð sjáaldra.

x

Læknablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.