Goðasteinn - 01.09.1996, Blaðsíða 86
Goðasteinn 1996
og aðrir ungir menn hafi getað orðið
sér úti um kærustu. En reiðhjól held ég
að hann hafi aldrei eignast, því Klem-
enz keypti ekki aðra hluti en þá sem
þörf var fyrir og það hafði hann lært af
biturri reynslu.
Danmerkurdvöl Klemenzar verður
ekki löng, því fátækt og erfiðar heimil-
isástæður verða þess valdandi að
Klemenz heldur heim.
Fátækt
Heima býður fátækt og endalaus
þrældómur, því það mun hafa orðið
hlutskipti Klemenzar að vinna fyrir
heimilinu að meira eða minna leyti.
1921 er svo aftur haldið til Dan-
merkur til starfa og náms, eftir að
örlítils farareyris hefur verið aflað hér
heima með botnlausum þrældómi.
Hann dvelur svo í Danmörku og
Noregi, þar sem hann leggur stund á
sín hjartans hugðarefni, ræktun jarðar-
innar, til þess að geta bætt okkar kalda
og oft gróðursnauða land. Og enn rekur
fjárskoturinn hann heim fyrr en hann
hefði viljað, því hann vildi læra sem
mest og vita sem flest. Hann vissi að
gamla Island beið eftir mönnum sem
höfðu vilja, kjark og þor.
Heima bíður enn fátækt og basl.
Faöir hans er fallinn frá og stjúpa hans
heilsulítil. Gáfuðum og námfúsum
bróður, Sverri, verður að koma til
mennta. Enn er Klemenz veginn og
léttvægur fundinn eins og fyrri daginn.
Sverrir fer í menntaskóla og síðan í
Hafnarháskóla, þar sem hann lærir
sagnfræði og verður einn okkar mesti
sagnfræðingur og ritsnillingur, þótt
hann eins og fleiri góðir Islendingar
hafi lent í mikilli bleytutíð í Kaup-
mannahöfn.
Austur fyrir fjall
Og svo verða kaflaskilin stóru.
Klemenz heldur aftur austur fyrir fjall.
Og nú til að hefja æfistarfið, sem hann
hafði verið að búa sig undir og alla tíð
dreymt um. Að yrkja ljóð í íslenska
mold. A Islandi var allt hægt að gera,
sem gert var annars staðar. Kannski
ættu þeir sem allt vilja flytja til Briissel
að lesa æfisögu Klemenzar.
Þessi ferð Klemenzar austur fyrir
fjall varð heldur ekki nein þjóðhöfð-
ingjareisa, með fánaburði og lúðra-
blæstri.
Þetta er á útmánuðum 1927 og hann
fór tvíhesta á fylfullri meri og gráum
hesti stöðum.
Mér er sem ég sjái lestina silast yfir
slakkann sem Eystri-Rangá hefur graf-
ið í bakkann vestan við Hvolsvöll og
heimamenn kalla hinu virðulega nafni
Djúpidalur, áfram austur og framhjá
ásnum norðan við þorpið, sem
„orginal“ Sunnlendingar kalla fjall, allt
að því fjallið eina. Enn er það talið með
afreksverkum að klífa þetta 40 m. háa
fjall.
Fljótshlíðingar tóku vel á móti
Klemenzi, þegar hann sneri aftur eins
og Gunnar forðum. Báðum fannst
Hlíðin fögur, báðir vissu þeir að þar
áttu að vera bleikir akrar og slegin tún.
Og það verður að segja Fljótshlíð-
ingum til verðugs hróss að mikið höfðu
-84-