Helgarpósturinn - 27.02.1986, Side 4

Helgarpósturinn - 27.02.1986, Side 4
INNLEND YFIRSYN Sjálfstæðisflokkurinn víða sterkur í sveitarfé- lögum við Faxaflóann. Búist til bardaga Það verða sveitarstjórnakosningar í vor. Og eins og menn hafa séð og heyrt í fjölmiðl- um undanfarnar vikur, þá eru flokkarnir hver af öðrum að setja saman framboðslista sína. Kastljósi fjölmiðlanna hefur eins og venjulega einkum verið beint að Reykjavík, en tíðindi af framboðsmálum annars staðar fremur legið í láginni. Það er hins vegar fróðlegt að líta yfir sviðið og stöðu mála í sveitarfélögunum í nágrenni við Reykjavík. Því hefur verið haldið fram að framþróun mála í kosningabaráttunni í höf- uðborginni ráði miklu um niðurstöður kosn- inga annars staðar á landinu, þá sérstaklega á suðvesturhorninu, en þó verður ekki fram- hjá því horft að á hverjum stað eru sérmál og séraðstæður sem ráða miklu um kosningaúr- slit. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki aðeins með hreinan meirihluta í henni Reykjavík. Flokk- urinn er einnig með hreinan meirihluta á Seltjarnarnesi, Garðabæ og Njarðvík. Þá er, Sjálfstæðisflokkurinn í meirihlutasamstarfi í Hafnarfirði (með Óháðum borgurum), í Keflavík (með Framsókn), í Grindavík (með Framsókn) og á Akranesi (með Alþýðu- fiokknum). í stuttu máli sagt, þá fer Sjálf- stæðisflokkurinn með stjórn mála í öllum kaupstöðum á suðvesturhorninu, einn eða með öðrum, að undanskildum Kópavogs- kaupstað. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu, en vinstri flokkarnir, AI- þýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðu- bandalag í meirihlutasamstarfi. Til viðbótar er Sjálfstæðisflokkurinn með hreinan meiri- hluta í Mosfellshreppi. Það er því ekki aðeins í Reykjavík, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sterkt afl við stjórn mála, heldur og á öllu Faxaflóa- svæðinu. Ef litið er á kosningatölur frá 1982 hvað varðar hina 8 kaupstaði á þessu svæði, þ.e. Kópavog, Seltjarnarnes, Garðabæ, Hafn- arfjörð, Grindavík, Keflavík, Njarðvík og Akranes, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn 35 bæjarfulltrúa af þeim 68 sem til skiptanna eru á þessu svæði. Flokkurinn er sem sagt með meirihluta fulltrúa. En þegar saman eru dregnar atkvæðatölur í þessum sveitarfélög- um, þá horfir málið eilítið öðruvísi við, því Sjálfstæðisflokkurinn er með minna en helming atkvæða, eða 11380 atkvæði af þeim 26886, sem greidd voru í þessum átta kaupstöðum. Það er því dreifing atkvæða milla hinna flokkanna, sem orsakar að hluta til hina gífurlega sterku stöðu Sjálfstæðis- flokksins hvað varðar fjölda bæjarfulltrúa og' þarmeð stjórnarstöðu í þessum sveitarfélög- um. Ef litið er á hina flokkana varðandi full- trúafjölda og atkvæðatölur í síðustu kosning- um, 1982, þá lítur dæmið þannig út: Alþýðu- flokkurinn er með samtals 4603 atkvæði og 10 bæjarfulltrúa, Framsóknarflokkurinn 4602 atkvæði og 14 bæjarfulltrúa og Alþýðu- bandalagið 4061 atkvæði og 7 bæjarfulltrúa. Þá eru Óháðir borgarar í Hafnarfirði með tvo bæjarfulltrúa. Ef saman eru lagðar atkvæðatölur vinstri flokkanna svokölluðu, Alþýðuflokks, Al- þýðubandalags og Framsóknarflokks, þá hlutu þeir 13266 atkvæði samtals í þessum sveitarfélögum eða tæpum tveimur þúsund atkvæðum fleira en Sjálfstæðisflokkurinn, en þó aðeins 31 fulltrúa á móti 35 bæjarfull- trúum Sjálfstæðisflokksins. Mörg atkvæði þessara þríflokka detta því augljóslega „dauð“ vegna atkvæðadreifingar. í snöggri yfirferð um þetta svæði, þá er hægt að afgreiða Seltjarnarnes og Garðabæ sem „heiðblá" svæði. í þessum sveitarfélög- um hafa sjálfstæðismenn nú 5 bæjarfulltrúa af sjö í hvorum kaupstað og tryggan meiri- hluta. Kunnugir telja sáralitlar líkur á stór- breytingum í þeim efnum. Ef litið er til Kópavogs, sem félagshyggju- menn nefna gjarnan „vinina í eyðimörk íhaldsins“ þá liggur það fyrir að Sjálfstæðis- flokkurinn sækir fast á að ná meirihluta. Flokkurinn hefur nú fimm fulltrúa en vinstri flokkarnir í meirihlutasamstarfinu hver um sig tvo. Eins og sakir standa er á brattann að sækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn í því efni. Framsókn, Alþýðuflokkur og Alþýðubanda- lag voru alltryggir með sína menn í síðustu kosningum og kunnugir í Kópavogi telja ólík- legt að á því verði stórar breytingar í kom- andi kosningum. Hvað Hafnarfjörð áhrærir, þá hefur fram- boð Óháðra borgara ævinlega sett mark á kjörfylgi flokkanna. Óháðir hafa boðið fram frá 1966 og voru þá klofningsframboð frá Al- þýðuflokknum og hafa jafnan setið í meiri- hluta; lengst af með Sjálfstæðisflokknum. Al- mennt er þó álitið að Óháðir, sem hafa haft tvo menn, tapi nokkru fylgi. Spurningin er hvert það fer. Möguleiki Sjálfstæðisflokksins á hreinum meirihluta í Firðinum er hverf- andi að mati langflestra. í þessu gamla krata- eftir FriSrik Þór Guðmundsson vígi eru alþýðuflokksmenn ennþá sterkir og langstærsti minnihlutaflokkurinn. í Grindavík urðu miklar sveiflur á kjörfylgi flokkanna í síðustu kosningum og það hefur gerst áður. Síðast voru það framsóknarmenn sem ruku upp, mörgum að óvörum og náðu þremur fulltrúum kjörnum, bættu við sig tveimur. Almennt er talið að eitthvað af því fylgi gangi til baka. Alþýðuflokkurinn sem lengi var sterkur í Grindavík hlaut óvenju slaka kosningu síðast og Alþýðubandalagið sömuleiðis. Líklegt er að A-flokkarnir bæti við sig. Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá menn af sjö, en mjög ólíklegt er talið að hann eigi möguleika á fjórða manni og þarmeð hreinum meirihluta. Njarðvíkingar hafa búið við hreinan meiri- hluta sjálfstæðismanna; 4 af 7 bæjarfulltrú- um. Þeir eru naumir og í síðustu kosningum fengu tvö framboð, Alþýðubandalagið og óháðir, samtals 180 atkvæði en engan mann. Ef þau atkvæði hefðu nýst vinstri flokkun- um, þá hefði meirihluti sjálfstæðismanna staðið glöggt. Hins vegar er nú búist við framboði Bandalags jafnaðarmanna í kaup- staðnum og spurning er um áhrif þess á nið- urstöður. Nú hefur Alþýðuf lokkurinn tvo full- trúa og Framsókn einn í bæjarstjórninni. í Keflavík hafa framsóknarmenn og sjálf- stæðismenn haft meirihluta, sex fulltrúa af níu. Kratar hafa tvo og Alþýðubandalagið einn. Sáralitlu munaði á fjórða manni Sjálf- stæðisflokksins og þriðja manni Alþýðu- flokksins í síðustu kosningum. Um þann mann verður m.a. tekist í kosningunum í maí. Hins vegar er von á óháðu, þverpóli- tísku framboði í Keflavík. Spurningin er um áhrif þess. Mörg ný nöfn verða á ferðinni í framboð- um fyrir flokkana á Akranesi og menn velta því fyrir sér hvort það geti orðið til að breyta styrkleikahlutföllum flokkanna frá því sem verið hefur. Eftir eiðtökuna skipaði Corazon Aquino í valda- stöður flóttamenn úr stjórn Marcos. Forsetaskiptin ein lægja ekki ólguna á Filippseyjum ERLEND YFIRSYN Almenningur á Filippseyjum hefur sigrað tveggja áratuga gamalt kúgunarvald. Marc- os forseti dirfðist ekki að beita mannfjöldann á götunum og stofnanir kaþólsku kirkjunnar vopnavaldi, eftir að bæði Filippseyingar og öll heimsbyggðin með þeim hafði átt kost á að fylgjast með fölsun manna hans á úrslit- um kosninga. Álappalegar tilraunir Reagans Bandaríkjaforseta til að koma Marcos vini sínum til hjálpar gerðu aðeins illt verra. Þeg- ar Bandaríkjaforseti sló því fram að kosn- ingasvik á báða bóga mætti leggja að jöfnu, og frambjóðendur ættu að sættast og taka höndum saman undir forustu harðstjórans, fékk Corazon Aquino tækifæri til að skír- skota til þjóðarmetnaðar landa sinna. Viðbrögð Bandaríkjaþings og bandarískt almenningsálit knúðu Reagan til að snúa við blaðinu. Þá var ekki að sökum að spyrja í Manila. Valdsmenn tóku að yfirgefa Marcos og fylgja fjöldanum til liðs við Corazon Aqu- ino. Fremstir voru í flokki landvarnaráðherr- ann og varaforseti herráðsins. Herstyrkur þeirra var lítill í fyrstu, en yfirburðir Marcos í vopnum og mannafla nýttust honum ekki. Liðið var deigt að berjast fyrir harðstjórn í upplausn, og mannfjöldinn sló skjaldborg um bækistöðvar uppreisnarmanna. Corazon Aquino er orðin forseti Filippseyja, en raunverulegt vald stjórnar hennar er í höndum samstarfsmannanna. Salvador Laurel, varaforseti og forsætisráðherra, er af stjórnmálamönnum og stórjarðeigendum kominn langt fram í ættir. Svipuðu máli gegnir um Juan Ponce Enrile landvarnaráð- herra, sem þar að auki gegndi sama ráð- herraembætti í stjórn Marcos. Enrile sat í stjórn forsetans fallna frá upphafi, og tók nú síðast virkan þátt í að falsa kosningaúrslitin honum í hag í Illocos, heimahéraði beggja. Nýi yfirhershöfðinginn, Fidel Ramos, hef- ur lengi verið næstráðandi í hernum á eftir Fabius Ver, þeim sem talinn er hafa skipulagt morðið á Benigno Aquino fyrir Marcos. Á síðustu mánuðum hefur Marcos tvívegis lát- ið í veðri vaka að hann hygðist gera Ramos yfirhershöfðingja í stað Ver, en í bæði skiptin látið sitja við orðin tóm. Stuðningslið Ramos er hreyfing ungra her- foringja, sem myndast hefur fyrir illa stjórn fráfarandi forseta á hernum. Marcos hefur látið tugi hershöfðingja halda stöðum sínum langt fram yfir eftirlaunaaldur, svo eðlileg forfrömun lægra settra foringja hefur stöðv- ast. Þar á ofan hafa Ver og menn hans gert herinn að verkfæri forsetans til morða á and- stæðingum hans og háð baráttuna gegn Nýja alþýðuhernum, skæruher kommúnista, með því að brytja sveitafólk niður hvar sem til bardaga kemur. Laurel, Enrile og Ramos eiga því hver sinn bakhjarl í hefðbundnu valdakerfi á Filipps- eyjum, en Aquino forseti á engan slíkan. Hún er af ættum stórjarðeigenda eins og Laurel, og það var Benigno maður hennar líka, en mestallur ættbogi þeirra hefur verið hliðholl- ur Marcos. Forsetinn hefur því ekki við að styðjast samstæðan og stjórnmálavanan hóp fylgismanna. Styrkur hennar felst í almennri lýðhylli annars vegar og stuðningi kaþólsku kirkjunnar hins vegar. Undir forustu Jaime Sin, kardinála í Man- ila, hefur kaþólska kirkjan á Filippseyjum gerst sjálfstætt þjóðfélagsafl. Með mannúð- arstarfi og fréttaflutningi hefur kirkjan leitast við að halda harðstjórn Marcos í skefjum Prestarnir hafa átalið illvirki valdhafanna úr prédikunarstólnum. Kirkjan er sama sinnis og vinstri menn, að brýnasta verkefni í þjóð- málum Filippseyja sé að rétta hlut örbjarga og réttlausrar sveitaalþýðu. Þar vill kirkjan taka upp þráðinn sem féll niður við lát Mags- aysay forseta á sjötta tug aldarinnar. Hann sigraði skæruher kommúnistahreyfingar sem kallaði sig Hukbalahap, var kjörinn for- seti en féll frá áður en hann gat efnt fyrirheit sín um að aflétta ánauð landeigenda með lagasetningu. Á fyrsta kjörtímabili sínu hafði Marcos svipuð fyrirheit á lofti, en af fram- kvæmd varð lítið. Tveir þriðju 50 milljóna Filippseyinga eru sveitafólk, og tæpur helmingur þess fjölda telst til leiguliða og landbúnaðarverka- manna. Mestur hluti þessara stétta býr við örbirgð og öryggisleysi, háður landeigend- um í hvívetna. Tilraunum leiguliða og land- búnaðarverkamanna til að mynda samtök til að rétta hlut sinn er mætt með morðum og brennum. Úr þessum jarðvegi er Nýi alþýðuherinn sprottinn. Haft er fyrir satt í bandarískum heimildum, að hann skipi nú 12.000 til 20.000 skæruliðar, sem séu að staðaldri und- ir vopnum, auk'hjájparliðs sem kalla má til vopna í viðlögum. A þeim þrem eyjum sem einkennast af stórjarðeignum og stórrekstri eftir Magnús Torfa Ólafsson, í landbúnaði, Luzon, Mindanao og Negros, er talið að Nýi alþýðuherinn ráði yfir fimmta hluta landsins. Á mörkum yfirráðasvæðanna hefur her stjórnar Marcos herjað undanfarin ár með báli og brandi, með þeim afleiðing- um að yfirráðasvæði Nýja alþýðuhersins færist stöðugt út. Stanley Karnow, sem verið hefur fréttamaður bandarískra fjölmiðla frá Filippseyjum í aldarfjórðung, segir að skæru- liðar láti nú til sín taka í 62 héruðum Filipps- eyja, en þau eru 74 alls. Ástandið í borgum Filippseyja er litlu skárra en á landsbyggðinni. Kreppa ríkir í at- vinnulífi og atvinnuleysi er yfir 20%. Skuldir ríkisins við erlenda lánardrottna eru komnar yfir 24 milljarða Bandaríkjadollara. Banda- rísk efnahagsaðstoð hefur á liðnum árum runnið í vasa fjölskyldu Marcos og gæðinga hans. Síðan herlögum var aflétt hefur myndast öflug stjórnmálahreyfing vinstri manna, sem nefnist Nýja þjóðernisbandalagið, eða Bayan á máli þarlendra. Að Bayan standa samtök verkamanna, stúdenta og bænda, alls tvær milljónir manna að sögn forustumanna bandalagsins. Bayan lét verulega til sín taka í mótmælaaðgerðum og ólgu síðustu vikna, einkum í Manila. Átökum er því ekki lokið á Filippseyjum, þótt Marcos fari með skylduliði sínu til Bandaríkjanna. Corazon Aquino hófst til valda á fyrirheiti um að losa þjóðina við harðstjórn og óstjórn. Stefna hennar í viður- eign við djúpstæð þjóðfélagsvandamál er enn óráðin. Sumir af nánustu samstarfs- mönnum forsetans bera að sínum hluta ábyrgð á, hversu komið er, þótt þeir hafi yfir- gefið sökkvandi skip fráfarandi forseta á síð- ustu stundu. LEIÐRÉTTING í síðasta pistli var ranghermi vegna brengl- aðrar heimildar. Það var Philip E. Culbert- son, aðalframkvæmdastjóri NASA, banda- rísku Geimferðastofnunarinnar, sem lét af starfi, ekki William R. Graham starfandi að- alforstjóri eins og hermt var. 4 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.