Morgunblaðið - 01.06.2007, Page 12

Morgunblaðið - 01.06.2007, Page 12
12 FÖSTUDAGUR 1. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is ALÞINGI var sett í 134. skipti í gær. Þingsetningarathöfn hófst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni og að henni lokinni gengu forseti Íslands, og biskup landsins, ráðherrar og al- þingismenn til þinghússins þar sem forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, setti þingið. Að lokinni ræðu forseta tók starfsaldursforsetinn, Jóhanna Sigurðardóttir, við stjórn þing- starfa. Undir stjórn Jóhönnu voru niðurstöður rannsóknar á kjör- bréfum kynntar auk þess sem nýir þingmenn voru látnir skrifa undir drengskaparheit við stjórnarskrána. Nýir þingmenn eru 24 talsins, en 7 þeirra hafa áður vermt þingbekkina. Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var að því loknu kjörinn forseti Alþingis og gerði hann m.a. að umtalsefni að efla þyrfti ásýnd Alþingis fyrir almenn- ingi og marka umræðum á þinginu hnitmiðaðri og skýrari farveg. Kosningaþátttaka einstök Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í setningarræðu sinni á Alþingi í gær að nýafstaðnar kosn- ingar væru til vitnisburðar um að lýðræðishefðin hér á landi væri enn sterk og hefði í raun öðlast nýjan þrótt. Kosningaþátttakan hefði verið einstök sem fyrr og fjölmiðlaflóran hefði veitt öllum flokkum fjölþætt tækifæri til að koma boðskap til skila. Ólafur telur að hin margradda umræða í sérhverjum miðli sé ótví- ræð framför frá fyrri árum þegar málgögn stjórnmálaflokkanna hafi þrengt að umræðu og umræðuþætt- ir í ljósvakamiðlum verið af skornum skammti. Samtakamátturinn dýrmætur Ólafur Ragnar sagði að þótt víg- lína stjórnar og stjórnarandstöðu setti sinn svip á þingið, eins og eðli- legt væri, væru mál afgreidd í æ rík- ari mæli með samkomulagi allra flokka, hugsanlega vegna þess að stjórnmálin hefðu sífellt tekið meira mið af umsköpun þjóðfélagsins og sáttargjörð á öðrum sviðum. „Ágreiningur, oft djúpstæður og langvarandi, verður þó aldrei umflú- inn með öllu … Mikilvægt er að þingheimur allur kappkosti jafnan að ólík afstaða til deilumála fari ekki svo úr böndum að þjóðin lamist vegna deilna og nái ekki að nýta dýrmætan samtakamátt,“ sagði Ólafur og tók fram að á liðnum vetri hefði þjóðin orðið vitni að því að ágreiningur sem klauf þjóðina í ára- tugi hefði gufað upp og í staðinn komið víðtæk samvinna við að breyta gamalli herstöð í há- skólabyggð. Lýðræðishefðin staðist tímans tönn að mati forseta Í HNOTSKURN »Nýtt Alþingi kom saman ígær á sínum fyrsta fundi frá nýafstöðnum kosningum. »Kom það í hlut JóhönnuSigurðardóttur félags- málaráðherra að stýra þing- störfum, en hún tók sæti á þingi árið 1978 og er því starfsaldursforseti. »Af 24 nýjum þingmönnumhafa aðeins 7 setið áður á Alþingi, og því þurftu 17 þing- menn að undirrita drengskap- arheit við stjórnarskrána. Alþingi var sett í 134. skipti í gær. Í ræðu sinni af því tilefni fjallaði forseti Íslands um styrk lýðræðisins. Morgunblaðið/Sverrir Þingsetning Menn voru léttir í spori á fyrsta degi nýs þings. „VALDIÐ er gilt og valdið er gott, en valdið skemmir fyrr en varir. Þess vegna er þetta ógæfulegur þingsetningardagur,“ sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknar- flokksins, þegar greiða átti atkvæði um afbrigði frá þingsköpum á Al- þingi í gær, en meirihlutinn lagði til að kjör í þrjár nefndir, sem til stend- ur að breyta með sérstökum lögum, færi ekki fram á þingsetningarfundi, heldur þegar frumvarp um breyt- ingu á þingskaparlögum hefði hlotið afgreiðslu. Breyta þarf lögum um þingsköp Alþingis áður en hægt verður að kjósa formlega í efnahags- og skattanefnd, viðskiptanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Gagn- rýndi stjórnarandstaðan þessi. Guð- jón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, óskaði eftir fundi sjávarútvegsnefndar á mánu- daginn og spurði hvað yrði um þá beiðni sína. Stjórnarflokkar skiptu nefndarformennsku jafnt Birgir Ármannsson verður for- maður allsherjarnefndar Alþingis, en Bjarni Benediktsson verður for- maður utanríkismálanefndar. Ásta Möller verður formaður heilbrigðis- nefndar og Pétur Blöndal formaður efnahagsnefndar, Sigurður Kári Kristjánsson formaður menntamála- nefndar og Arnbjörg Sveinsdóttir formaður sjávarútvegs- og landbún- aðarnefndar. Gunnar Svavarsson, Samfylkingu, verður í forsvari fyrir fjárlaganefnd og Katrín Júlíusdóttir formaður iðn- aðarnefndar. Helgi Hjörvar verður formaður umhverfisnefndar og Guð- bjartur Hannesson formaður félags- mála- og trygginganefndar. Varafor- maður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, verður formaður viðskiptanefndar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður samgöngu- nefndar. Ásta Ragnheiður Jóhann- esdóttir, Samfylkingu, verður fyrsti varaforseti Alþingis. „Ógæfuleg- ur þingsetn- ingardagur“ FRÉTTASKÝRING Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is EIGNAUPPTAKA! Rán! Atvinnubótavinna fyrir lögfræðinga! Meðal annars þessi orð hafa verið notuð um þjóðlendumálin og starf óbyggðanefndar. Þessi stóru orð sýna að miklir hagsmunir eru í húfi í þjóðlendumál- um, en þau sýna kannski líka að ekki hafa all- ir áttað sig á hvers vegna menn fóru út í það verkefni að skilgreina í eitt skipti fyrir öll landamerki allra jarða á Íslandi. Þegar þjóðlendulögin voru sett árið 1998 hafði ríkt óvissa í áratugi um eignarmörk jarða. Aðaldeiluefnið var hver ætti afréttina. Árið 1955 féll dómur í Hæstarétti um eign- arhald á Landmannaafrétti og dæmdi dóm- stólinn að hvorki hreppurinn né bændurnir ættu afréttinn. Í reynd var niðurstaða Hæsta- réttar að enginn ætti Landmannaafrétt. Þegar fram liðu stundir komu upp mál sem urðu þess valdandi að stjórnvöldum og hags- munaaðilum fannst nauðsynlegt að taka á þeirri óvissu sem ríkti um mörk eignarlanda. Í því sambandi má nefna að dómstólar fengu til úrlausnar nokkur mál þar sem rjúpna- skyttur voru teknar fyrir meintar ólöglegar veiðar í afréttum. Dómstólar sýknuðu oftar en ekki mennina á þeirri forsendu að ekki hefði verið skorið úr því hver ætti afréttinn. Þegar áhugi manna á nýtingu náttúrugæða á hálendinu jókst mögnuðust deilur um þessi mál. Það voru ekki síst átök um hver ætti að fá arð af nýtingu jarðhita sem knúðu á um setningu þjóðlendulaga. Margir gagnrýndu að landeigendur ættu að fá arð af nýtingu gufu- afls. Það er svo aftur annað mál að þeir sem gengu hvað harðast fram í að gagnrýna „einkavæðingu“ jarðhitans eru oft sömu að- ilar og gagnrýna nú framgöngu ríkisins í þjóðlendumálum. Samstaða um þjóðlendulög Almenn samstaða var um það á Alþingi ár- ið 1998 að nauðsynlegt væri að taka á þessari réttaróvissu. Sett var á stofn sérstök nefnd sem fékk nafnið óbyggðanefnd. Henni var ætlað að taka við kröfum frá ríki og landeig- endum og kveða upp úrskurði um ágreinings- mál. Allir gerðu sér grein fyrir að verkefnið væri viðamikið og tæki nokkur ár. Óbyggðanefnd skipti landinu í 11 land- svæði. Búið er að úrskurða í ágreiningi á fjór- um svæðum, eitt svæði er á lokastigi og máls- meðferð er hafin á einu til viðbótar. Á fimm svæðum er málsmeðferð ekki hafin, þ.e. Vest- urlandi, Vestfjörðum, vestanverðu Norður- landi og Austfjörðum. Þjóðlendulögin kveða á um að leysa skuli úr ágreiningi um mörk jarða og að svæði sem landeigendum takist ekki að færa sönnur á að þeir eigi skuli teljast þjóðlenda og jafnframt að ríkið skuli fara með málefni þjóðlenda. Þjóðlendulögin segja ekkert um hvernig á að skilgreina mörk jarða. Ekkert er þar heldur að finna um hvaða kröfur eigi að gera til gagna sem ríkið eða landeigendur leggja fram máli sínu til stuðnings. Sumir töldu reyndar að Alþingi hefði átt að setja í lögin ákvæði sem hefði styrkt lagagrundvöll landa- merkjabréfa sem gefin voru út á grundvelli landamerkjalaga frá árinu 1882, en þau lög voru á sínum tíma tilraun til að greiða úr þeirri óvissu sem ríkti um mörk jarða. Hæsti- réttur hefur í gegnum tíðina ekki talið nægi- legt að styðjast eingöngu við þessi bréf held- ur sé nauðsynlegt að styðja kröfur frekari gögnum. Þegar fyrstu kröfugerðir ríkisins komu fram urðu margir landeigendur undrandi á hversu langt ríkið gekk í kröfugerð sinni. Ríkið lét ekki nægja að gera kröfu í afrétt- arlönd jarða heldur gerði það líka kröfu í jarðirnar sjálfar. Óbyggðanefnd hefur hafnað langflestum kröfum ríkisins í jarðir, en þó ekki öllum. Nefndin hefur hins vegar ýmist úrskurðað að afréttarlönd skuli tilheyra jörð- um eða skuli teljast þjóðlendur. Landeig- endur, sem tapað hafa málum fyrir óbyggða- nefnd, hafa reynt að fá afrétti sína viðurkennda fyrir dómstólum og oft haft er- indi sem erfiði. Þó hefur máli í einu tilviki verið snúið við fyrir dómstóli, þ.e. afréttur sem nefndin úrskurðaði að tilheyrði jörð var skilgreindur sem þjóðlenda. Ekki nýr ágreiningur Það er nauðsynlegt að hafa í huga að deilan um mörk jarða er ekki ný. Árið 1882 töldu al- þingismenn málið það knýjandi að sett voru sérstök lög til að greiða úr ágreiningi. Þess var því tæpast að vænta að það gengi þrauta- laust nú að skera endanlega úr um mörk allra jarða á Íslandi. Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að meginregla í eignarétti er að maður sem ger- ir kröfu í eign verði að færa sönnur á að hann eigi hlutinn. Þessari reglu hefur verið fylgt í öllum málum sem varða ágreining um eign á landi, ekki bara frá setningu þjóðlendulag- anna heldur alla tíð. Í dómum Hæstaréttar á síðustu áratugum, þegar tekist var á um eign á afréttum og heiðarlöndum, réði það ávallt úrslitum hvort Hæstiréttur taldi þann sem gerði kröfu um eignarhald hafa lagt fram nægilega traust gögn sem sönnuðu kröfurnar. Óbyggðanefnd hóf störf árið 1998 og er áætlað að nefndin ljúki störfum árið 2011. Þá verður án efa ólokið málum fyrir dómstólum. Ekki er einu sinni víst að málum ljúki þegar Hæstiréttur hefur kveðið upp dóma sína því búið er að vísa fjórum málum til Mannrétt- indadómstóls Evrópu. Það er hins vegar óvíst hvort dómstóllinn mun taka málin fyrir og hvort landeigendur ná fram kröfum sínum. Af hverju þjóðlendulög?  Með þjóðlendulögum á að skilgreina landamerki allra jarða á Íslandi í eitt skipti fyrir öll  Það mun taka óbyggðanefnd 13 ár að úrskurða í öllum málum, en margir úrskurðir fara til dómstóla Morgunblaðið/RAX Þjóðlenda Óbyggðanefnd er m.a. ætlað að úrskurða hver eigi Vatnajökul.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.