Tölvumál - 01.06.2006, Blaðsíða 11

Tölvumál - 01.06.2006, Blaðsíða 11
T Ö LV U M Á L | 1 1 Háskólamenntunin ein og sér opnar margar dyr, það þarf ekkert að orðlengja það. Hins vegar er menntun eitt en áhugi, reynsla og þekking annað sem ekki eru síður mikilvægir þættir þegar að starfsvali kemur. Þeir sem hafa stundað nám í sálfræði hafa flestir áhuga á því að mæla hið huglæga sem ekki virðist endilega svo mælanlegt svona við fyrstu sýn og kjarni málsins er auðvitað að beita hinni vísindalegu aðferð til að komast nær kjarnanum. Ég tel sálfræðina afar hagnýtt nám sem getur nýst vel í hvaða fyrirtæki sem er og það sama er eflaust að segja um aðrar félagsvísindagreinar. Verður þú vör við að í þessari starfsgrein sé “karlaveldi”? Ekki er hægt að segja annað en að í greininni séu karlar í meirihluta, en mér finnst ég alltaf vera að sjá fleiri og fleiri konur komnar til starfa og margar afar frambærilegar þannig að karlaveldið er eflaust í nokkurri hættu! Ég reyndar tel að konur séu jafnan ekki teknar eins alvarlega og karlar vegna þess að þær útskýra hlutina yfirleitt á einfaldari hátt (betri hátt að mínu mati), tileinka sér síður fagtungumál og byrja að nota það eins og það sé þeirra móðurmál og þær kunna síður að eða vilja síður fara pólitísku leiðirnar innan fyrirtækja. Ég get hins vegar alls ekki tekið undir að erfitt sé að vinna í greininni vegna þessa en viðurkenni fúslega að þetta almenna vandamál hái konum. Hafa konur jafn mikla möguleika á að ná langt á því sviði sem að þú ert á? Já, það er engin spurning. Hvers vegna heldur þú að svona fáar konur séu í þessu? Reyndar tel ég að fleiri konur hafi t.d. áhuga á því sviði sem Sjá starfar heldur en í öðrum tölvutengdum geirum. En auðvitað er það svo að konur hafa mjög fáar t.d. áhuga á að tileinka sér rekstur tölvukerfa og of fáar telja að t.d. tölvunarfræði eigi við þær. Að miklu leyti tel ég að ofangreint karlaveldi haldi mörgum konum frá geiranum og hann virðist þeim ekki eins spennandi og hann er nefnilega í raun og veru. Hann verður svona pínu táfýlulegur. Maður gæti t.d. séð fyrir sér að ef störfin væru líkleg til að leiða til samstarfs við blandaðri hóp þ.e. fleiri konur, en líklegt er að þau geri í dag, væri geirinn ekki eins fráhrindandi. Hægt er að benda á fjölda þátta til að reyna að skýra þetta en enginn veit auðvitað hvað veldur þessu og kannski er þetta bara tímaspursmál. // Margrét Harðardóttir Við hvað starfar þú? Ég er svokallaður „Program Manager“ yfir kerfi sem heitir Libra Securities (Verðbréfavogin) hjá fyrirtækinu OMX. Í mínu starfi felast samskipti við viðskiptavini og umsjón með verkefnum sem tengjast kerfinu. Einnig er ég að vinna sem gagnagrunnsforritari, þá aðallega fyrir SQL server. Hvaða nám/námsgráðu hefur þú, hvar lært, hve lengi ? Ég lærði kerfisfræði í Háskólanum í Reykjavík, það er tveggja ára nám. Útskrifaðist árið 2000. Hvernig kom það til að þú ákvaðst að vinna við þetta? Ég lærði aðeins forritun þegar ég var í framhaldsskóla og fannst það mjög spennandi. Ég fór samt ekki strax í tölvunarfræði eftir stúdent, en þessi áhugi blundaði alltaf í mér. Svo þegar Viðskiptaháskólinn (nú Háskólinn í Reykjavík) tók til starfa þá ákvað ég að sækja um og komst að. Hvað hefurðu starfað lengi á þessum vettvangi? Síðan ég útskrifaðist árið 2000. Hvernig er vinnuumhverfið? Vinnuaðstaðan er góð á mínum vinnustað. Vinnutími er nokkuð frjáls. Ég heimsæki viðskiptavini talsvert og er því mikið á ferðinni út um allan bæ. Hvaða störf bjóðast þér með þessa menntun? Ég hef svo sem ekki kannað það. Annars held ég að það sé af nógu að taka þarna úti og störfin sem bjóðast eru mjög fjölbreytt. Verður þú vör við að í þessari starfsgrein sé „karlaveldi“? Meirihlutinn af starfsmönnum á mínum vinnustað eru karlmenn. Ég verð samt ekki vör við að það hái mér neitt nema síður sé. Hafa konur jafn mikla möguleika á að ná langt á því sviði sem að þú ert á? Já það tel ég, þetta er allt undir einstaklingnum komið. Hvers vegna heldur þú að svona fáar konur starfi við þetta? Ætli það sé ekki vegna þess að konur hafa almennt minni áhuga á tæknilegum pælingum heldur en karlmenn. Það höfðar meira til kvenna að vera í mannlegum samskiptum, en ekki að vera fyrir framan tölvu í eigin heimi að forrita. Svo hefur fest sig við þessa grein svona nördaímynd, þ.e. af luralegum karlforritara, illa hirtum etc. Sú ímynd er ekki að höfða til kvenna. Ég vil hins vegar hvetja konur til að læra þetta, það er svo margt annað hægt að gera í þessum bransa en að forrita. Eins og t.d. að sjá um prófanir á hugbúnaði og verkefnastjórnun svo fátt eitt sé talið upp. „Svo hefur fest sig við þessa grein svona nördaímynd, þ.e. af luralegum karlforritara, illa hirtum etc. Sú ímynd er ekki að höfða til kvenna.“ Margrét Harðardóttir

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.