Morgunblaðið - 25.09.1979, Síða 31
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 25. SEPTEMBER 1979
31
Minning:
Björn Bessason
aðalendurskoðandi
Fæddur 5. marz 1916.
Dáinn 9. júlí 1979.
Sé horft til baka yfir farinn veg
finnst manni oft að straumur
tímans hafi verið of hraður. Þegar
vinur er kvaddur i hinsta sinn á
góðum aldri vaknar sú tilfinning í
brjósti að lífið sé stutt og stopult,
og valt yndi ævistunda. „Vinir
berast burt með tímans straumi".
Björn Bessason er hniginn í faðm
fósturjarðarinnar sem hann unni.
Minningin lifir um góðan dreng
sem ekki mátti vamm sitt vita og
féll með skíran skjöld og fullri
sæmd í orrustunni síðustu.
Björn var elsta barn hjónanna í
Kýrholti í Viðvíkursveit, þeirra
Bessa Gíslasonar hreppstjóra og
Elínborgar Björnsdóttur. Þar
fæddist hann og ólst upp í örmum
ástríkra foreldra og í glöðum
systkinahópi. Systkini hans eru:
Frú Margrét Fjeldsteð, læknis-
ekkja í Reykjaví, Gísli fyrrverandi
bóndi í Kýrholti, Haraldur pró-
fessor og ritstjóri í Winnipeg í
Kanada, og hálfsystir frú Elín-
borg húsfreyja í Hofsstaðaseli í
Skagafirði.
Fegurð Skagafjarðar hefur
snortið margan draumlyndan
ungling, ekki síst þegar hið víð-
lenda hérað og eyjarnar á firðin-
um eru böðuð í sólarbirtu vordýrð-
arinnar. Slíkir átthagar fylgja
manni í minningunni langa ævi-
daga „þótt leiðir liggi um borgir".
Æskuheimili Björns stendur í
miðri sveit með útsýni til aðal-
héraðs Skagafjarðar til vesturs en
Hjaltadals og útsveita héraðsins
að austan. Þar hefur verið ættar-
jörð frá 1866. Á þessum tíma hafa
þar vaxið upp og búið fjórar
kynslóðir af sömu ættinni. Allt
hefur þetta verið duglegt og vel
gefið fólk og bændurnir þar verið í
forystuliði sveitarinnar mann
fram af manni. Eftir svo langa
búsetu sömu ættarinnar skapast
traust tryggðabönd við ættaróðal-
ið og ættarhéraðið, sem ekki slitna
þótt örlögin ráði öðrum dvalar-
stöðum.
Bessi í Kýrholti var af traustum
bændaættum úr Skagafirði, mjög
greindur og gegn maður. Ein af
formæðrum hans var á sínum
tíma kölluð gáfaðasta kona á
Norðurlandi. Hann var duglegur
bóndi og var hreppstjóri í fjölda
ára. Elínborg, móðir Björns og
kona Bessa, var dóttir séra Björns
prófasts á Miklabæ í Blönduhlíð
Jónssonar frá Broddanesi og konu
hans Guðfinnu Jónsdóttur frá
Verðará í Önundarfirði. Séra
Björn var fyrst prestur á Bergs-
stöðum í Svartárdal í þrjú ár en á
Miklabæ í 42 ár. Þessi prestshjón
eignuðust 11 börn og er mikill
fjöldi góðra manna og kvenna út
af þeim kominn. Móðurbræður
Björns Bessasonar voru séra Guð-
brandur Björnsson prófastur í
Viðvík og Hofsósi og séra Bergur
Björnsson prófastur í Stafholti.
Fimm náfrændur Björns eru nú
starfandi prestar og mun hugur
hans einnig hafa hvarflað til
slíkra starfa á tímabili.
Það kom snemma í ljós að Björn
var ekki hneigður til búskapar og
að hugur hans stefndi til mennta.
Hann las mikið sem unglingur og
spurningar um lífið og tilveruna
leituðu ákaft á hug hans. At-
hyglisgáfa hans var sterk. Hann
ATHYGLI skal vakin á því, að
afmælis- og minningargreinar
verða að berast blaðinu með
góðum fyrirvara. Þannig
verður grein, sem birtast á í
miðvikudagsblaði, að berast í
síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með
greinar aðra daga. Greinar
mega ekki vera í sendibréfs-
formi eða bundnu máli. Þær
þurfa að vera vélritaðar og
með góðu línubili.
gleymdi oft daglegum störfum
sem unglingur þegar hann var að
brjóta einhver viðfangsefni til
mergjar. Var hann því oft það sem
kallað er viðutan. Hann þráði að
fá tækifæri til góðrar menntunar,
en slíkt var miklum erfiðleikum
bundið, eins og flestir af þeirri
kynslóð þekktu og margir urðu að
líða fyrir. Kreppan mikla var
byrjuð og fjárpestir og verðfall
herjuðu á íslenskan landbúnað.
Búin gáfu lítið af sér og dugnaður
og elja hrukku skammt. í Kýrholti
var talið vera gott bú og sæmilega
góð efni á þeirrar tíðar mæli-
kvarða. En húsbóndinn var ekki
aflögufær og mun líka hafa talið
eðlilegt að elsti sonurinn byggi sig
undir það að taka við ættarjörð
forfeðra sinna.
Sem ungur maður var Björn á
unglingaskóla á hinu fræga
menntasetri Hólum í Hjaltadal.
Fn frekara nám þar fullnægði
ekki löngunum hans. Hann fór því
í Menntaskólann á Akureyri og
vann fyrir skólakostnaði sínum á
sumrin. Helst var þá sumarvinnu
að fá á Siglufirði, sem gæfi eitt-
hvað í aðra hönd, og þangað sóttu
ungir menntamenn á þessum ár-
um til þess að afla fjár til greiðslu
námskostnaðar. Þar sem þessir
peningar voru misjafnlega miklir
eftir veiðum og árferði nægðu þeir
stundum ekki til slíkra þarfa.
Brugðu því margir á það ráð að
lesa utanskóla til þess að spara
kostnaðinn. Slíkt gerði Björn
stundum á sinni námsbraut. Er
hann var langt kominn með
menntaskólanám hætti hann í
skóla. Brá hann þá á það ráð að
fara til Danmerkur til starfa við
garðyrkju. Náttúrufræði var ein
af mörgum hugðarefnum Björns
og þá sérstaklega grasafræði. Stóð
hugur hans á tímabili til fram-
haldsnáms í þeim greinum. Hann
dvaldi í Danmörku aðeins í eitt ár.
Eftir heimkomuna stundaði hann
áfram störf á Siglufirði að sumar-
lagi og í tvo vetur farkennslu á
Siglunesi, en þá var þar marg-
menni sem oft áður. Stúdentsprófi
lauk hann svo vorið 1941.
Nú atvikaðist það svo að honum
voru boðin störf hjá Kaupfélagi
Eyfirðinga, en til undirbúnings
fór hann í endurskoðunarstörf hjá
Sambandi íslenskra samvinnu-
félaga og stundaði jafnframt nám
V
í þeim greinum. Hann réðst síðan
til K.E.A. sem endurskoðandi og
varð það hans ævistarf. Lengst af
var hann aðalendurskoðandi hjá
þessu stóra fyrirtæki. Það voru
mikil ábyrgðarstörf og yfirgrips-
mikil. Þó bætti hann á sig ýmsum
aukastörfum í starfsgrein sinni.
Hann kenndi t.d. um tíma bók-
færslu í Iðnskóla Akureyrar.
Hann naut mikils trausts hjá
yfirboðurum sínum, enda sam-
viskusamur og skyldurækinn í
öilum sínum störfum.
Margar hamingjustundir mun
Björn hafa átt, er hann sinnti
sínum áhugamálum, sem lágu
utan við lífsstarfið. Hann hafði
yndi af tungumálum og bók-
menntum. Hann lék sér að því að
yrkja bæði í bundnu og óbundnu
máli á íslensku og dönsku og var
ritfær í besta máta. Hann las
heimsbókmenntirnar á ensku og
var mikill fagurfræðingur. Eftir
að hann lauk sínu skólanámi, hélt
hann sleitulaust áfram að full-
nægja sínum fróðleiksþorsta.
Varð hann fjölmenntaður og
margfróður.
Björn var mjög hógvær og yfir-
lætislaus maður, og lét lítið yfir
kunnáttu sinni. En í góðum félags-
skap komst hann ekki hjá því að
miðla öðrum af sinni miklu þekk-
ingu. Nokkrar greinar hafa birst
eftir hann í blöðum og tímaritum,
og má þar m.a. nefna frásagnir í
tímariti Ferðafélags Akureyrar,
sem heitir Ferðir. Á yngri árum
hafði Björn mikinn áhuga á ferða-
málum og kynnisferðum um okkar
fagra ættarland.
Kynning okkar Björns hófst er
við vorum ungir námsmenn á
hinum forna Hólastað. Við urðum
strax góðir vinir. Hann var glaður
og hugljúfur félagi. Nokkrum
árum síðar áttum við ánægjuleg
samskipti er við dvöldum báðir í
Danmörku. Hann var þá sem fyrr
hinn káti og hressi lagsbróðir.
„Ört hvikar æð
um unglingsdaga
þá er oss létt í lund“.
(Svb. Egilsson).
Þegar ég kom heim til íslands,
eftir nokkurra ára útivist, hitt-
umst við á ný á Siglufirði. Var
hann þá hinn bjartsýni og glaði
nýstúdent sem stráði birtu í
kringum sig eins og sólskinsdagur.
Síðan áttum við margar samveru-
og ánægjustundir á heimili hans,
á vettvangi hins daglega lífs og í
góðra vinahópi. Á okkar vináttu
sló aldrei neinum fölskva. Er vegir
skiljast er gott að minnast slíkra
vina og þakklæti og söknuður fylla
hugann.
Björn var gæfumaður um sína
lífs daga. Hann kvæntist þann 9.
maí 1942 eftirlifandi eiginkonu
sinni Þyrí Eydal tónlistarkennara.
Ungu hjónin byggðu sér glæsilegt
heimili á Gilsbakkavegi 7 á Akur-
eyri, Þar ríkti ástúð, gagnkvæm
virðing. Gestrisni og glaðværð.
Þyrí og Björn eignuðust tvær
dætur. Eldri dóttirin Elínborg er
gift og búsett í Svíþjóð. Maður
hennar er Lars-Erik Shilling verk-
fræðingur. Yngri dóttirin Þyrí
Guðbjörg stúdent er í heimahús-
um og starfar á skrifstofu K.E.A.
Björn var heilsuhraustur þar til
fyrir tveimur árum að hann
kenndi nokkurrar vanheilsu. Þá
missti hann heyrn að mestu, en
fékk þó aftur nokkra bót á þeim
sjúkdómi. Um síðustu áramót
ágerðist sjúkdómur hans. I janúar
var hann sjúklingur á Landsspít-
alanum og hresstist nokkuð eftir
þá dvöl. Var gleði hans einlæg að
fá að koma aftur á sitt kæra
heimili. Hann reyndi að halda
áfram störfum sínum, meðan
kraftur entist en þrekið var lítið
og sjúkdómurinn ágerðist. Dvaldi
hann þá á heimili sínu undir
umsjá sinnar ágætu konu og
dóttur sem spöruðu hvorki um-
hyggju né erfiði til þess að létta
honum þrautirnar í þungum sjúk-
dómi. Þann 2. júní var hann
fluttur helsjúkur á Fjórðungs-
sjúkrahúsið á Akureyri og þar lést
hann 9. júlí.
Jarðaförin fór fram þann T8.
júlí, að viðstöddu fjölmenni.
Vígslubiskup Norðlendinga flutti
hugnæma kveðjuræðu yfir vini
sínum, og þar hljómuðu fagrir
tónar héraðssöngs Skagfirðinga,
sem kveðja ættarbyggðarinnar.
Góður drengur er genginn allrar
veraldar veg. Samferðamennirnir
þakka góð kynni. Við geymum
góðar minningar og trúum því að
„Vort líf sem svo stutt og stopult
er það stefni á æðri leiðir." (E.
Ben.)
Ég og fjölskylda mín vottum
ástvinum og ættingjum Björns
heitins Bessasonar okkar innileg-
ustu samúð í sorg þeirra og sökn-
uði.
Þ. Ragnar Jónasson.
Arný Jónína
Leifsdóttir
Ég krýp og faðma fótskör þina.
frelsari minn i bænastund.
Hún elsku Árný, vinkona mín,
er dáin aðeins 23 ára gömul. Mig
langar til að kveðja hana og þakka
henni fyrir þessi 5 ár sem við
höfum verið vinkonur. Það var svo
einkennilegt með Árnýju ef eitt-
hvað amaði að þá brást það ekki
að Árný hringdi og spurði hvernig
gengi. Það var eins og hún fyndi
eitthvað á sér, alltaf tilbúin til að
hjálpa ef hún mögulega gat. Núna
þegar hún er dáin hrúgast allar
minningar upp í hugann, allt sem
skeð hefur, bæði skemmtilegt og
sorglegt.
Kvöldið sem mér var tilkynnt
andlát hennar spurði ég í sífellu:
hvers vegna Árný, hún sem nýbú-
in var að stofna heimiii og beið
eftir fyrsta barni sínu, hvers
vegna Árný? Vonandi líður henni
vel þar sem hún dvelur núna. En
áður en Árný mín kvaddi þennan
heim, skildi hún eftir sig litla
dóttur, sem verður huggun í harmi
fyrir eftirlifandi eiginmann henn-
ar. En Árný giftist Guðmundi
Guðjónssyni í nóvember á síðasta
ári.
Megi almáttugur Guð styrkja
Guðmund og litlu dótturina í
þessari miklu sorg, einnig föður,
systur og Ingibjörgu svo og alla
ættingja hennar. Votta ég þeim
mína dýpstu samúð.
Hvíli hún í friði.
Herdís.
MEÐ KAUP Á TELEFUNKEN
LITSJÓNVARPSTÆKI TRYGGIR ÞÚ ÞÉR
BJARTARI OG BETRIMYND
Þegar þú velur þér
litsjónvarp skaltu velja rétt
tæki, tæki frá
uppfinningamönnunum
sjálfum.
Telefunken fann upp Pal
kerfið sem
sjónvarpsframleiðendur í
Evrópu nota.
Þú getur að sjálfsögðu
fengið ódýrari
litsjónvarpstæki en ekki
sambærileg að gæðum.
I m
!* *>,
m Ko
Telefunken býður upp á
alla þá möguleika sem
aðrir bjóða eins og til
dæmis Inline myndlampa,
fullkomið einingakerfi,
lága orkunotkun (90-130
Wött), bjartari og betri
mynd, sjálfvirkur lita- og
birtustiliir, tengimöguleiki
fyrir leiktæki og
myndsegulbönd.
En það sem mestu máli
skiptir er að tækin eru
betri.
BRÆÐURNIR ORMSSON %
LAGMULA 9 SIMI 38820