Morgunblaðið - 06.01.1980, Page 36

Morgunblaðið - 06.01.1980, Page 36
36 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 6. JANÚAR 1980 Björn Jónsson — Minningarorð Fæddur 15. júní 1911. Dáinn 10. desember 1979. I Samskiptum okkar manna er undarlega farið. Líf okkar mótast að verulegu leyti af framkomu þeirra, sem við umgöngumst á hinum ýmsu skeiðum aevinnar. Jákvæð samskipti leiða oft til vináttu, sem seint fyrnist — eða aldrei, — jafnvel þótt samfundir strjálist einhverra hluta vegna. Á sama hátt geta neikvæð samskipti oft leitt til óvildar, sem oft setur mark sitt á líf okkar. Mér flaug þetta í hug, er ég fékk ekki frið fyrir þeirri hugsun að ég ætti gömlum vini skuld að gjalda, sem mér hafði láðst að gjalda í tíma. Betra er seint en aldrei. Það má ekki minna en ég setji fáein orð á pappír til minningar manni, sem með samskiptum sínum við mig mótaði í huga mér mynd heiðarlegs mannkostamanns, sem mátti ekki vamm sitt vita, — góðs drengs í þess orðs fyllstu merkingu. Þetta verður þó engin ævisaga hans, — aðrir þekktu hann lengur en ég, — aðeins fáein fátækleg orð að leiðarlokum, sem endast skammt til þess að tjá dýpt tilfinninganna, sem inni fyrir búa. II Björn Jónsson var þegar kom- inn á miðjan aldur, er fundum okkar fyrst bar saman. Starf skólastjóra barnaskólans í Vík í Mýrdal hafði verið auglýst laust til umsóknar. Hann sótti aðeins einn um starfið, að því er mig minnir. Ég þekkti hann ekki, en taldi sjálfsagt að mæla með hon- um í starfið sem formaður skóla- nefndar, er ég frétti af langri reynslu hans í skólamálum, þótt hitt væri vitað, að skoðanir okkar mundu tæplega falla saman á öllum sviðum, því að ég frétti jafnframt, að maðurinn væri „kommúnisti" austan af fjörðum. Mér fannst það þó litlu máli skipta, ef hann væri góður skóla- stjóri og góður maður. Og ég man, að það gladdi mig, þegar gamall pólitískur andstæðingur, sem háð hafði við hann marga hildi á þeim vettvangi, gjörði sér það að setja sig í samband við mig í þeim tilgangi einum að mæla sterklega með Birni Jónssyni sem góðum skólamanni, og þó enn meir sem góðum dreng. Ég man, að ég beið fyrstu samfunda okkar með nokk- urri forvitni. Björn kom vel fyrir, snaggara- legur, hreinn og beinn í fram- komu, átti auðvelt með að tjá sig og bjó yfir þeirri græskulausu kímni, sem því miður virðist of sjaldgæfur eiginleiki manns „á þessum seinustu og verstu tím- um“. Og þó hélt hann fast við skoðanir sínar og sannfæringu. Mér sagði svo hugur eftir fyrstu samfundi okkar, að hér færi maður, sem stæði vel fyrir sínu. Þarf ekki að orðlengja, að með okkur tókst ekki aðeins hin bezta samvinna, sem ég minnist ekki, að nokkru sinni félli skuggi á, heldur hafði ég eignazt vin, sem um áratugs skeið varð einn nánasti vinur minn. Og sama gilti um fjölskyldur okkar. Þegar ég renni huganum til samvistaráranna, man ég vart eftir nokkru sviði almennra þjóð- og menningarmála, sem við leidd- um ekki einhvern tíma tal að. Og því fór víðs fjarri, að skoðanir okkar féllu alltaf saman. En það skipti engu. Ég held við höfum báðir leyft okkur þann „lúxus“ að virða og meta hvor annan alveg án tillits til þess, hvort við værum jábræður eða ekki. En snöggtum voru þau málin fleiri, þar sem skoðanir okkar fóru saman. Björn var með allra félagslynd- ustu mönnum, kom víða við — og ólíkt hefði mannlífið í Vík á þeim árum verið lágkúrulegra og snauð- ara en það þó var, þrátt fyrir allt, ef hans hefði ekki notið við. Gilti þá einu, hvort vantaði liðtækan mann í skák, mann til þess að taka lagið, ræðumann á samkomu eða skemmtikraft á hátíðastundu. Honum var lagið að setja saman og flytja græskulaust gaman um náungann, sem jafnan var vel tekið. Björn var einlægur stuðnings- maður kirkju og kristindóms og tók fullt tillit til óska og þarfa sóknarprestsins í starfi fyrir börnin. Og heilan vetur mætti hann sjálfur vikulega í sunnu- dagaskólanum og tók þátt í starf- inu þar af sama einlæga áhuganum og honum var lagið. Þar fylgdi hugur máli eins og jafnan þar, sem hann lagði hönd á plóginn. Þau voru ekki mörg heimilin í Vík, sem leið mín og okkar hjónanna lá oftar til en til skóla- stjórahjónanna, Borghildar og Björns. Og fáir gestir komu oftar á heimili okkar en þau, og áttum við þó marga vini þar eystra, — og eigum enn. Síðan skildi leiðir eins og oft gengur í mannlífinu, þegar við fórum burt úr Víkinni vinalegu til annarra starfa fjarri ströndum fósturlandsins. Samfundir strjál- uðust og urðu næsta fáir og engir seinustu árin, þótt alltaf vissi ég um hann í fjarska. Og alltaf var ætlunin að taka aftur upp þráð- inn, en einhvern veginn dróst að hrinda þeim áformum í fram- kvæmd. En á þessari stundu og þessum stað langar mig til þess að þakka honum drengilega og ómet- anlega liðveizlu, er að mér var veizt úr launsátri. Kom þar skýrt í ljós, hver drengur Björn var, og hann gat leyft sér þann munað að meta mann án alls tillits til skoðanamunar. III Það fór ekki mikið fyrir ytri umsvifum Björns seinustu árin. Heilsan tók að bila langt um aldur fram, og hann entist því skemur við skólastarfið en vonir stóðu til. En kosti sína varðveitti hann til hinztu stundar. Hann var skoð- anafastur og varði mál sitt rökum hins málsnjalla manns, alla ævi ákveðinn málsvari þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu og gat oft hitnað í hamsi, ef honum þótti á rétt þeirra hallað. Þar sem annars staðar var hann heilsuhug- ar og einlægur og gekk ótrauður þær brautir, sem hann hugði helztar til úrbóta á kjörum þeirra. En hann var jafnan málefnalegur í afstöðu sinni og kunni skýrt að gjöra mun á mönnum og málefn- um. Þessi fátæklegu orð verða að nægja sem smáþakkarkveðja til hans héðan frá borginni við Sund- ið, þar sem mér er fyrirmunað að heiðra minningu hans með því að fylgja honum hinzta spölinn. Ég geymi í hjarta mér mynd góðs drengs og blessa minningu hans, um leið og ég þakka Guði fyrir að hafa átt samleið með honum á liðnum árum og geta kallað hann vin minn. Guð blessi fjölskyldu hans. Kaupmannahöfn, 13. desember 1979. Jónas Gíslason Mánudaginn 17. desember var til moldar borinn á Stöðvarfirði Björn Jónsson fyrrverandi skóla- stjóri í Vík í Mýrdal. Hann varð bráðkvaddur vegna hjartaáfalls hinn 9. desember síðastl. í heima- byggð sinni austur á Stöðvarfirði. Björn var Austfirðingur að ætt og uppruna. Hann fæddist á Kirkjubóli í Stöðvarfirði 15. júní 1911. Faðir hans var Jón Björns- son hreppstjóri á Stöðvarfirði og móðir hans Jónína Þorbjörg Er- lendsdóttir að Kirkjubóli, fæð- ingarheimili Björns. Ungur að árum fór Björn til náms í Héraðsskólanum að Eiðum og lauk námi þaðan vorið 1931. Þá stundaði hann nám í Samvinnu- skólanum eitt ár, en síðar lauk hann kennaraprófi frá Kennara- skóla íslands. Hann var kennari í Stöðvarfirði 1931-33, í Breiðdal 1940-43 og á Raufarhöfn 1943—44. Síðan varð hann kennari á Seyðisfirði haustið 1944 við barna- og unglingaskól- ann þar. En unglingaskólinn þar var rekinn frá 1946 skv. lögum um gagnfræðanám og fór þar fram landspróf miðskóla 1948, sem Björn átti ásamt fleirum góðan þátt í. Björn kvæntist á Seyðisfirði 1947 eftirlifandi konu sinni að nafni Borghild Katrina, fædd Joensen, hjúkrunarkona, færeysk að ætt. Hún vann þá við Sjúkra- hús Seyðisfjarðar og hefur mjög unnið við hjúkrunarstörf síðan í Reykjavík og Kaupmannahöfn hin síðustu ár. Börn þeirra hjóna eru þessi: Anna, kennari í Vík í Mýrdal, gift Þóri Kjartanssyni múrara; Nína, hjúkrunarfræðingur á Stöðvar- firði, gift Guðmundi Gíslasyni kaupfélagsstjóra þar; Jón verslun- armaður, Stöðvarfirði og Ásgerð- ur Erla, gift Kurt Peter Larsen bakaranema í Álaborg. Yngstu börnin eru aðeins komin nokkuð yfir tvítugsaldur. Barnabörn Björns og Borghild- ar eru orðin fimm að tölu. Björn starfaði við skólann á Seyðisfirði til vors 1953 er hann fluttist suður á land með fjöl- skyldu sína. Skömmu seinna varð hann skólastjóri í Vík og gegndi því starfi í 17 ár. Þar fékk hann orlof í eitt ár og varði því til náms í Englandi og við Kennaraháskól- ann í Kaupmannahöfn. Frá Vík fluttist svo fjölskyldan til Reykjavíkur og kenndi Björn þar árin 1972—74, bæði við Álft.a- mýrarskóla og stundaði auk þess forfallakennslu við Iðnskólann í Reykjavík. En hann varð fyrir því óhappi að lærbrotna snemma vetrar 1974 og varð að hverfa frá kennslu. Næstu ár kenndi hann þó talsvert við Iðnskólann. Alla tíð meðan Björn var við kennslu var hann sívinnandi á sumrin; stundaði hann sjóróðra á Stöðvarfirði og í Vík. Sýnir það hvílíkur atorkumaður hann var. Hann virtist hafa yndi af að komast í „krappan dans“ við Ægi. Einnig vann hann talsvert við síldarverksmiðjuna á Kletti í Reykjavík, síðustu árin við efna- greiningu og færslu á verksmiðju- skýrslum yfir framleiðsluna. Kynni okkar Björns hófust er hann gerðist kennari á Seyðisfirði. Vorum við þar samkennarar þau níu ár er hann dvaldist þar, og skólastjóri var hann ráðinn í forföllum mínum, enda vel til þess fallinn. Tókst með okkur mikil vinátta, sem aldrei bar skugga á. í fyrsta lagi áttum við margt sam- eiginlegt í skólastarfinu sem gott er að minnast og er það mest um vert. En einnig varð samstarf okkar mikið á öðrum sviðum. Við vorum félagar í Sósíalistafélagi Seyðisfjarðar og áttum þar marga góða fundi og heillaríkt samstarf með félögum okkar. Björn var einn þeirra sem hafði óbilandi trú á að bæta mætti mannlífið og vildi leggja fram krafta sína í því skyni. Af sjálfu leiðir um slíkan hæfi- leikamann sem Björn var að á hann hlóðust margs konar störf á sviði félagsmála. Hann var bæj- arfulltrúi á Seyðisfirði 1946—50 og landskjörinn varaþingmaður um svipað leyti. Þá var hann um tíma í stjórn Kaupfélags Aust- fjarða Seyðisfirði og í stjórn togaraútgerðarfélagsins Bjólfs hf. um allmörg ár. Björn var afburðakennari og hafði gott lag á börnum og unglingum og þar af leiðandi hafði hann ágæta stjórn í bekk, enda var hann elskaður og virtur af nemendum sínum. Þá var hann gæddur góðum hæfileikum til að leiða félagsstarf nemenda, bæði í stjórn á smásjónleikjum og fleira, enda góður leikari sjálfur. Þá kunni hann heilmikið af alls konar þjóðlegum leikjum og víkivökum og notaði það óspart á skemmti- fundum nemenda, þeim til mikill- ar ánægju. Var þá oft glatt á hjalla. Það var mikil eftirsjá að Birni, þegar hann fór frá skólan- um. Ég held hann hefði nú viljað vera lengur, þó að örlögin höguðu því svona. Björn var maður vel greindur og höfðingsmaður í lund, enda höfð- inglegur í útliti. Hann virtist eiga svo auðvelt með að greina um- hugsunarefnin rétt og komast að kjarnanum í hverju máli. Hann var og ræðumaður góður og skáld- mæltur vel. Mun hann hafa ort talsvert, þótt eigi hafi hann flíkað ljóðum sínum og því fátt birst af þeim. Þá var Björn víðlesinn og hafði mikla ást á kveðskap, enda hafði hann á reiðum höndum ívitnanir í hvers konar Ijóð góðskáldanna. Var ánægjulegt að eiga stund með honum, þegar sá andinn var yfir honum. Björn var mikill heimilisvinur hjá okkur Arnþrúði, konu minni; áttum við margar ánægjustundir saman. Þá er mér það sérstaklega minnisstætt, hve hamingjusöm Adda mín var yfir því, að þau Björn og Borghild skyldu halda brúðkaup sitt á heimili okkar. Jók það enn á vináttuna við þau hjónin. Annars var Björn hvers manns hugljúfi, þeirra er þekktu hann vel. Samstarfsmönnum hans hvarvetna, bæði kennurum og öðrum, var ákaflega vel til hans. Til að undirstrika það álit mitt skal þess getið, að Jónas Jónsson, framkvæmdastjóri verksmiðjunn- ar á Kletti, tjáði mér, að verka- mennirnir þar hefðu haldið mjög upp á Björn. Og nú er hann horfinn af sviðinu, og eftir standa vinir og vandamenn hnipnir af söknuði. Ég vil votta konu hans og fjölskyldu allri innilega samúð mína vegna fráfalls þessa ágætismanns, en það er huggun harmi gegn að „gráta góðan mann“. Fari minn góði vinur vel. Ætti ég mér ósk, vildi ég óska þess, að hann hitti góðskáldin, sem voru honum svo hugstæð, handan við djúpið mikla, sem aðskilur heim- ana tvo. Mínar bestu óskir fylgja honum yfir í ókunna landið, þang- að sem hann heldur „meira að starfa Guðs um geim.“ Hafi hann heila þökk fyrir samfylgdina. Steinn Stefánsson. + Konan mín op móöir okkar, ALFHEIDUR TÓMASDÓTTIR LORANGE, sem lést á Landakotsspítala 23. desember, veröur jarösungin frá Fossvogskirkju 8. janúar kl. 10.30 f.h. Blóm afþökkuö, en þeim sem vildu minnast hennar er bent á Krabbameinsfélag íslands. Aage Lorange og dætur. t Ástkær eiginkona mín, móöir okkar, tengdamóöir og amma, VILBORG SVEINSDOTTIR, Hjarðarhaga 40, veröur jarösungin frá Dómkirkjunni föstudaginn 11. janúar kl. 13.30. Jarösett veröur í gamla kirkjugaröinum viö Suöurgötu. Friöjón Sigurbjörnsson, Ingiberg Guöbjartsson, Jóhanna Þórisdóttir, Kristján Guöbjartsson, Þóranna Þórarinsdóttir, og barnabörn. + Hjartans þakkir færum viö öllum sem sýndu okkur samúö við andlát og útför LILJU MATTHÍASDÓTTUR, Furugeröi 1, Reykjavík. Sérstaklega þökkum viö félögum hennar úr stúkunni Einingunni nr. 14, starfsfólki Landspítalans og öörum er önnuöust hana á löngum veikindaferli hennar. Jónfna Pótursdóttir, stúpbörn og systkini hinnar látnu. + Þökkum innilega auösýnda samúö viö andlát og útför, EDVAROS INGÓLFSSONAR, frá Steinsstööum, Skagafiröi. Sérstakar þakkir færum viö læknum og hjúkrunarfólki á deild 8 á Landspftalanum fyrir góöa umönnun í veikindum hans. Gísli Ingólfsson, Daniel Ingólfsson, Friörik Ingólfsson, Jón Ingólfsson. + Þökkum innilega auösýnda samúö og vinarhug viö andlát og jaröarför fööur okkar, tengdafööur og afa, GUÐMUNDAR MARIUSSONAR, húsvarðar, Austurbrún 2. Ásdís Guömundsdóttir, Júlíus B. Guömundsson, Jens Guömundsson, Jón G. Guömundsson, Anna Einarsdóttir, Birgir Guömundsson, Hannesína Á. Ásgeirsdóttir, örn Guömundsson, Hafdís Valdimarsdóttir.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.