Morgunblaðið - 12.10.1980, Blaðsíða 14
14
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 12. OKTÓBER 1980
Gamli Ögri í reynslusiglingu við Molde í Noregi 1%4.
Sverrir Hermannsson
stjórnarformaður Ögurvikur:
Gefðum fyrst-
ir Islendinga
samninga um
kaup og smíði
á skuttogurum
Útgerðarfélagið Ögurvík er 10 ára um þessar mundir.
var formlega stofnað 1970 af hlutafélögunum Ögra og
Vigra. en aðaleigendur þeirra voru Þórður og Gísli Jón
Hermannssynir og Halldór Þorbergsson og Pétur Gunnars-
son. Ögurvík hf. varð svo fyrsti islenzki aðilinn til að
semja um nýsmíði skuttogara erlendis og á það nú og rekur
skuttogarana ögra og Vigra. Auk þess á Ögurvík einn þriðja
hlut í fyrstihúsinu Kirkjusandi og rekur það með SÍS.
Sverrir Hermannsson er stjórnarformaður Ögurvíkur og í
tilefni 10 ára afmælisins ræddi blaðamaður Mbl. við hann
um aðdraganda að stofnun útgerðarinnar. Fyrst var Sverrir
beðinn að segja deili á þeim Ögurvíkurbræðrum.
„Við erum Djúpmenn, Vestfirð-
ingar, bræðurnir, Strandamenn í
föðurætt og Skötfirðingar og Djúp-
menn í móðurætt. Foreldrar okkar
bjuggu í Ögurvík á Svalbarði, en
fyrstu átta ár búskapar síns áttu
þau reyndar heima í Ögri. í Ögurvík
byggðu þau þurrabúð, grasbýli, og
voru þar til 1945 er þau fluttu til
ísafjarðar. Faðir okkar stundaði
auðvitað sjóinn eins og aðrir og þá
fyrst á árabátum, en frá 1930 reri
hann á trillu og var þá vor og haust
sótt á hin gjöfulu Djúpmið, á
vetri ,n lágu fiskveiðar að mestu
niðri og á sumrum milli vertíða var
heyjað fyrir þessar 30 til 40 rollur
og einu kú, sem foreldrar okkar voru
með.
Ég var alltaf sjóveikur og slakur
til róðra og því var brugðið á það
ráð að senda mig í skóla. Allir hinir
bræður mínir fimm, urðu hins vegar
skipstjórar, enda aldir upp á trill-
unni og síðar stærri bátum frá
ísafirði. Nú er það bara Halldór,
bróðir okkar, sem enn er skipstjóri í
starfi, en hann á og gerir út
rækjubát frá ísafirði. Yngstur
bræðranna er Birgir, sem var skip-
stjóri á vegum SÞ í Vestur-Indíum
og á Malasíu um árabil, nú starfs-
maður hjá Fiskifél. íslands. Ég
vandist loks af sjóveikinni á síld
1947, en það var of seint og þá var ég
sendur í Menntaskólann á Akureyri,
en vettvangur allra hinna varð
sjórinn.
Gunnar heitinn var skipstjóri hjá
Jóni Gíslas.vni í Hafnarfirði og var
þá með Faxaborgina, mikið og gott
síldarskip. Það var svo í kringum
1958, að Þórður Helgason vélstjóri
og Gunnar bróðir stofnuðu Eldborg
hf. Þeir létu þá smíða 140 lesta skip
í Molde í Noregi og var ég hafður
með í fyrirtækinu, sem algjör auka-
maður til snúninga í landi og ég
man að Jóhann Hafstein lánaði mér
20 þúsund, svo að ég gæti orðið
hluthafi. Þeim vegnaði strax vel og
það sýndi sig, að samvinna skip-
stjóra og vélstjóra, sem báðir unnu
um borð, var skynsamlegt skipulag.
1964 létu þeir byggja nýja Eldborg á
sama stað og áður og var hún 220
lestir. Þremur árum seinna byggðu
þeir svo þriðju Eldborgina, sem þá
var stærsta fiskiskip byggt hérlend-
is og var það Slippstöðin á Akureyri,
sem byggði það, og var kostnaður-
inn 28 milljónir og 136 þúsund og
þótti það geypiverð. Lokahnykkur-
inn í samstarfi þeirra var svo
nýjasta Eldborgin, sem er stærsta
fiskiskip flotans og byggt í Udevalla
í Svíþjóð.
Þórður og Gísli Jón voru framan
af togarasjómenn, Þórður var með
Þorstein Ingólfsson hjá Bæjarút-
gerðinni og Gísli bátsmaður og
stýrimaður á togurum. Upp úr 1960
fara þeir að hugsa sér til hreyfings,
en þá var Gísli Jón orðinn stýrimað-
ur hjá Gunnari á Eldborginni. Þeir
taka saman höndum við vélstjóra,
Þórður við Halldór Þorbergsson og
strofnar Ögra hf., og Gísli Jón við
Pétur Gunnarsson og stofnuðu þeir
Vigra h.f., en ég var snúningamaður
í landi hjá báðum fyrirtækjunum.
Þessi fyrirtæki sömdu síðan um
smíði tveggja 200 lesta skipa í Molde
í Noregi, þar sem fyrstu tvær
Eldborgirnar voru smíðaðar og fet-
uðu þannig í fótspor þeirra Gunnars
og Þórðar Helgasonar. Þessi skip,
Ögri og Vigri, komu síðan til
landsins 1963 og hófu þegar síld-
veiði, sem þá var í algleymingi.
Skipin stunduðu svo síldveiðarnar
þar til síldin hvarf af miðunum, en
eftir það sneru þau sér aðallega að
togveiðum, þar sem loðnuveiðar
voru ekki byrjaðar enn að marki.
Þeim félögum þótti annars lítil
framtíð í þessum veiðum, þetta
gerði ekki meira en svo að standa á
jöfnu.
Svo er það haustið 1968 að bæði
Ögri og Vigri höfðu verið teknir upp
í slipp í Reykjavík og lágu í höfninni
eins og nýjar mublur. Þá kemur
maður hingað til lands, fulltrúi
útgerðarfyrirtækis í Valvis Bay í
Suðvestur-Afríku, sem líklega heitir
Namibía nú, og var hann að leita
eftir kaupum á notuðum nótaskip-
um. Hann gerir tilboð í bæði skipin
og býðst til að borga þau út í hönd,
verði þeim siglt suður eftir og þeim
kennt að fara með þau.
Árið 1968 var mikið kreppuár, þá
var verðfall og mikið atvinnuleysi,
þó Viðreisninni tækist reyndar á
ótrúlega skömmum tíma að bjarga
þeim málum. Okkur var fullkunnugt
um að útflutningsleyfi þurfti til að
selja skipin úr landi og ég fór því til
Bjarna Benediktssonar þáverandi
forsætisráðherra og spurði hann,
hvort við mættum selja skipin úr
Sverrir Hermannsson
landi. Hann sagði að slíkt leyfi
fengjum við ekki vegna þess hve
slæmt atvinnuástand væri í Reykja-
vík, nema að við hæfumst handa um
framtak í atvinnuskyni, sem að
minnsta kosti yrði jafngilt því sem
áður var.
Bræður mínir höfðu áður rætt og
fengið áhuga á skuttogaraútgerð, en
á þessum tíma höfðu íslendingar
verið uppteknir um langa hríð af
síldinni og síldargróðanum og því
var togaraútgerðinni ekki sinnt sem
skyldi. Viðreisnarstjórnin hafði þó,
áður en þetta var, skipað nefnd til
að athuga þessi mál.
Það verður svo ofan á að fyrir-
tækin Ögri og Vigri taka ákvörðun
um að láta smíða tvo skuttogara í
Póllandi og 1969 var gerður bráða-
birgðasamningur við skipasmíða-
stöðina í Gdynia og er það fyrsti
samningur um kaup og smíði á
skuttogurum á íslandi.
Við fengum því útflutningsleyfið
og litlu bátunum var siglt suður
eftir og þeir borgaðir út í hönd og
gerði það þetta allt saman mögu-
legt. Bæði skipin, Ogri og Vigri,
komu svo hingað 1972, en formlega
var Ögurvík hf. stofnað 1970 og því
er fyrirtækið 10 ára um þessar
mundir.
Aðaleigendur eru gömlu hlutafé-
lögin Ögri og Vigri og þeir sem að
þeim fyrirtækjum stóðu. Nýir hlut-
hafar eru svo skipstjórarnir Hans
Sigurjónsson og Brynjólfur Hall-
dórsson, Þórður Jónsson, bókari
Ögurvíkur, og Björn Þórhallsson,
félagi minn, sem hafði verið með í
Ögra og Vigra. Við keyptum strax í
upphafi skrifstofuhúsnæði við Týs-
götu 1 og höfum við verið þar síðan.
1975 keyptum við svo einn þriðja
hlut í frystihúsinu Kirkjusandi og
eigum það og rekum með sjálfu
Sambandinu. Framkvæmdastjóri
Ögurvíkur er Gísli Jón Hermanns-
son og skrifstofustjóri Þórður Her-
mannsson. Þeir bræður ásamt félög-
um þeirra hafa haft allan veg og
vanda af rekstri þessa fyrirtækis.
Það hefur gengið vel, enda hafa þeir
haft á að skipa eínvala liði mann-
skaps frá upphafi. Það var nýlega í
athugun hjá okkur að bæta við einu
skipi, en samkvæmt útreikningum
okkar hefði það aldrei gengið upp,
og ef út í það hefði verið farið,
hefðum við lent í endalausu skulda-
feni, sem við treystum okkur ekki til
vegna þess að við þurfum að reka
fyrirtækið sjálfir og getum ekki
skattlagt neina aðra til að bjarga
okkur. Jafnvel þó vel hefði fiskazt
og allt gengið eins og í sögu, blasti
tap við. Það er ekki gott að verða að
fullnýta skipin án þess að geta
endurnýjað þau. Nú stendur til að
lengja bæði skipin og kassavæða
þau, auk annarra eðlilegra breyt-
inga og viðhalds og verður það gert í
Póilandi. Ögurvík er sjálft með
neta-, hlera- og víraverkstæði og sá
ágæti maður, Pétur Gunnarsson
vélstjóri, hefur umsjón með skipun-
um í landi, svo við þurfum ekki að
sækja mikið til annarra.
Við erum bjartsýnir á framtíð
útgerðar á íslandi, fiskurinn er
alltaf að aukast í sjónum svo það
hlýtur að vera bjart framundan,"
sagði Sverrir Hermannsson að lok-
um.
Nýi Ögri í Reykjavíkurhöfn, nýkominn til landsins.