Morgunblaðið - 12.09.1981, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 12.09.1981, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 12. SEPTEMBER 1981 17 þeirra hafi verið rangt. Mér sýnist aug- ljóst af þeim orðum Hayeks í fyrirlestrin- um, sem urðu tilefni til dóms Þorsteins, að hann ætti við þetta. (Hitt get ég glatt Þorstein með, að ég vel heldur að sækja heimspekifyrirlestra hans en hljómleika Björgvins, en furðulega kokhreysti þarf til að segja, að það val mitt sé vísindalega rétt.) III. Þorsteinn snýr sér eftir þessa sleggju- dóma um Hayek að Friedman og tveimur bókum hans, Capitalism and Freedom og Free to Choose. Friedman er að vísu snjall hagfræðingur og mjög einbeittur áróðurs- maður, en óhætt er að telja Hayek miklu merkari heimspeking, svo að eðlilegra hefði verið að ræða um kenningu hans, ekki síst með því að í bókinni Leiðin til ánauðar, sem komið hefur út á íslensku, skýrir Hayek hugtakanotkun frjáls- hyggjumanna, en á hana deilir Þorsteinn einkum. Ég get einnig bætt því við, að Friedman er ekki eins saklaus af „barns- legri vísindatrú" og Hayek. Hann er í rauninni framhyggjumaður (pósitífisti) eins og sjá má í ritgerðarsafni hans, Essays in Positive Economics, en um þá skoðun efast ég mjög. Fyrsta athugasemdin, sem Þorsteinn gerir við kenningu Friedmans, er, að hann geri „naumast neina tilraun til að rök- styðja hana nema með fullyrðingum eins og þeim að í Bandaríkjunum sé markaðs- frelsi og líka margt annað frelsi en í Ráðstjórnarríkjunum sé ekki markaðs- frelsi og naumast neitt annað frelsi". Þessi athugasemd Þorsteins er furðuleg. heldur hann, að enginn, sem lesi greinar hans, hafi lesið þessar tvær bækur Friedmans? Sannleikurinn er sá, að í fyrsta kaflanum í Capitalism and Freedom (Sem Þorsteinn segist hafa lesið, þótt hann vitni að vísu hvergi í þá bók) er ágæt rökfærsla fyrir þessu. Þorsteinn getur líka fundið glögg rök færð fyrir því í tveimur bókum á íslensku, Frjálshyggja og alræðishyggja og Leiðin til ánauðar, að atvinnufrelsi sé skilyrði fyrir almennum mannréttindum. Önnur athugasemdin, sem Þorsteinn gerir, er þessi: Hitt er svo annað mál að hugmyndin um efnahagslegar forsendur sem ráði öllu um afganginn af þjóðfélaginu er auðvit- að alls ekki ný. Hún er satt að segja öldungis ómengaður marxismi og heitir söguleg efnishyggja. Þorsteinn misskilur kenningu Fried- mans illa. Friedman og aðrir frjálshyggju- menn telja, að frelsið verði nafnið tómt, ef ríkið ráði yfir öllum framleiðslutækjun- um. Á þeirri kenningu og hinni, sem marxsinnar hafa, að hugmyndir manna ráðist af því, hvaða framleiðslutækjum þeir ráða yfir, er að sjálfsögðu reginmun- ur. Friedman leiðir reyndar rök að því í Free to Choose, að hugmyndir manna breyti mestu um rás sögunnar, en það sé ekki öfugt eins og marxsinnar haldi. Hann og flestir aðrir frjálshyggjumenn eru því „hughyggjumenn" í skilningi marxsinna. Þorsteinn víkur síðan að hugtakanotkun Friedmans, ræðir um nokkur frumhugtök stjórnmálanna, frelsi, jaínrétti og rétt- læti. Ég held, að ástæða sé til að ræða rækilega um þessi hugtök, því að Þor- steinn hefur því miður misskilið kenningu frjálshyggjumanna um þau. Hvað er frelsi? Þorsteinn hefur aðra kenningu um það hugtak en um frjálshyggjuhugtakið: Frelsið er eitt, segir hann, þótt frjáls- hyggjurnar séu margar. Lendir hann ekki í mótsögn við sjálfan sig, ef hann notar ádeilu Wittgensteins á eðlishyggju til að sýna, að frjálshyggjan hafi ekkert eðli, en kennir síðan sjálfur, að frelsið hafi eðli? Mér sýnist ekki betur. En það skiptir þó litlu máli. Það skiptir meira máli að reyna að leggja skynsamlega merkingu í orðið „frelsi", svo að það auðveldi rökræður, en torveldi ekki. Ég held, að söguleg merking orðsins „frelsi" sé skýr. Áð fornu var gerður greinarmunur á frjálsum mönnum og þrælum. Hvers vegna var sagt, að þrælar væru ófrjálsir? Vegna þess að þeir fengu ekki að velja sjálfir, voru seldir undir aðra menn. Á okkar dögum er sagt, að fangar séu ófrjálsir menn af sömu ástæðu, aðrir ráða yfir þeim og beita þá ofbeldi, ef þeir óhlýðnast. M.ö.o. hefur frelsið fengið merkingu sína af ófrelsinu, og ófrelsið hefur verið, að aðrir menn hafa notað nauðung, beitt ofbeldi. Þetta er frelsishugtak frjálshyggjumanna. Þorsteinn segir, að frelsið sé eitt, það sé hvort tveggja, frelsi undan einhverjum hömlum og frelsi til einhvers. Þetta kann að vísu að vera rétt. Hinn gamli greinar- munur heimspekinga á Jákvæðu" frelsi (frelsi til einhvers) og „neikvæðu" (frelsi undan einhverju) kann að vera ófullkom- inn, enda er frelsi til einhvers frelsi til alls annars en þess, sem hamlar, svo að frelsið ræðst af hömlunum, hvort sem það er frelsi til einhvers eða frelsi undan ein- hverju. Við getum því notað þessa for- sendu Þorsteins með góðri samvisku. En það breytir engu um það, að hömlurnar á frelsinu eru ólíkar, og þær skipta öllu máli. Komið er að stærstu gloppunni í greinum Þorsteins. Hann gerir frelsis- hugtaki frjálshyggjumanna, sem er hug- tak Friedmans eins og annarra, engin skil, en segist þó vera að gagnrýna hugtaka- notkun þeirra! Frelsi í skilningi frjáls- hygKjumanna er umfram allt frelsi undan nauðung, það er frelsi til að velja, án þess að aðrir beiti ofbeldi eða hóti því til að breyta valinu. Menn skilja ekki frjáls- hyggju nema þeir skilji þetta. Þær hömlur, sem frjálshyggjumenn telja ófrelsi, felast i ofbeldi annarra manna. Þorsteinn nefnir ýmsar hömlur, lög, óskráðar siðareglur og fátækt. Ekkert af þessu takmarkar í rauninni val einstakl- inga, þannig að talist geti ófrelsi í almennum skilningi. Lög eiga að vera almennar reglur, sem auðveldi einstakl- ingunum að keppa að markmiðum sínum án árekstra. Þau eru til af þeirri einföldu ástæðu, að frelsi eins manns hlýtur að takmarkast af sama frelsi annars. Nauð- ung kemur ekki til sögu, fyrr en einn maður ræðst á annan og brýtur lögin, en nauðung við brotamanninn er eðli málsins samkvæmt réttlætanleg. Óskráðar siða- reglur fela ekki í sér neitt ofbeldi, almenningsálitið getur að vísu verið ómilt, en það er ekki vopnað lögreglukylfum. Um fátæktina verður að hafa lengra mál. Þorsteinn sakar Friedman um ósamkvæmni. Friedman segi í öðru orðinu, að fátækt sé ekki ófrelsi, en í hinu, að hún sé það. Hvað hefur Þorsteinn fyrir sér í því? Hvaða rök færir hann fyrir þessu? Hann segir: Einir fjötrar sem ekki eru bundnir í lögum blasa við: fjötrar fátæktarinnar. Sem er hefðbundin kenning jafnaðar- manna um frelsi og jafnrétti. Og raunar Friedmans líka þegar á hólminn sé komið, því hann er raunar ekki einungis fjandmaður fátæktar heldur vill hann meira að segja beita sjálfu ríkisvaldinu til að vinna bug á fátækt. Engin ósamkvæmni er í þessu, þótt Þorsteinn segi það. Okkur getur fundist fátækt böl, án þess að við teljum hana ófrelsi. Fátækt er ekki ófrelsi nema við notum orðið „ófrelsi" í svo víðtækri merkingu, að það verði gagnslaust. Að sjálfsögðu er það rétt, að fátæklingur getur ekki valið jafnmarga kosti og efnamaður, en það merkir ekki, að einhver meini honum með ofbeldi að velja. Fátækl- ingurinn og efnamaðurinn hafa sama frelsið til að velja, þótt efnamaðurinn sé einn fær um að greiða kostnaðinn af sumum tiltækum kostum. Heimspekilekt- or eins og Þorsteinn kann að hafa hærri tekjur en hafnarverkamaður, en í því felst ekki, að hafnarverkamaðurinn sé þess vegna ófrjálsari en Þorsteinn. Þorsteinn segir síðan, að Friedman telji tekjujöfnun rekast á frelsi, og hefur það til marks um, að frelsi í skilningi Friedmans sé ekkert annað en eignarrétturinn. Hvað er að segja um það? Friedman aðhyllist að vísu þá tekjujöfnun, sem felst í tekjutryggingu, þ.e. „neikvæðum tekjuskatti", en hún er sú hugmynd, að þeir, sem ekki geti aflað sér nægilegra tekna af óviðráðanlegum ástæð- um, t.d. öryrkjar, fái lágmarkstekjur frá ríkinu (sem aflar þeirra síðan með skött- um á aðra). En þessi hugmynd er önnur en sú, að ríkið eigi að breyta þeirri dreifingu lífsgæðanna, sem verður á markaðnum, til að jafna tekjur. Tekjujöfnun í fyrri skilningnum er að dómi flestra frjáls- hyggjumanna eðlileg, en tekjujöfnun í síðari skilningnum ekki. Tekjujöfnun í síðari skilningnum er frelsinu hættuleg. Og í rauninni eru þau sannindi sjálfsögð, að tekjujöfnun rekist á frelsið, ef við skiljum frelsið skilningi frjálshyggju- manna. Tekjujöfnun er ekkert annað en notkun ríkisvaldsins til þess að færa fé frá einum manni til annars. Sá, sem féð er fært frá, lætur það ófús, ella hefði ekki þurft að nota ríkisvaldið, sveifla lögreglu- kylfunni. Menn mega ekki gleyma því, að ríkið er eina samlífsfyrirbærið, sem telur sig geta beitt ofbeldi. Hvað gerist, ef menn greiða ekki skattana, sem lagðir eru á þá? (Færa má sérstök rök fyrir tekjujöfnun í fyrri skilningnum, þótt hún rekist á frelsið, en ég get ekki lengt þessa grein með því.) Frelsishugtak Friedmans og annarra fjálshyggjumanna er víðara en eignarrétt- arhugtakið (nema menn skilji eignarrétt- arhugtakið mjög víðum skilningi, segi, að maðurinn eigi sjálfan sig, líf sitt og frelsi), þótt Þorsteinn segi annað, enda misskilur hann þetta hugtak, eins og bent hefur verið á. En eitt af því, sem veldur nokkurri ruglandi, er að val eins manns takmarkast af vali annarra. Segjum sem svo, að tveir menn keppi um ástir sömu stúlkunnar og að hún velji annan þeirra. Hinn getur ekki kvartað, hún hefur notað frelsi sitt, þótt það komi honum illa. Hann á enga heimtingu á neinu frá henni öðru en því, að hún láti honum eftir sama frelsið til að velja. Taka má sambærilegt dæmi úr atvinnulífinu. Tveir menn sækja um sama starfið, og annar þeirra er ráðinn. Hinn getur ekki kvartað fremur en sá, sem var hryggbrotinn. Hann kann að verða að sætta sig við annað starf og lægri tekjur, en það kemur engu ófrelsi við. Hitt er annað mál, að hann kann að kjósa þá stjórnmálaflokka, sem segja honum, að hann eigi meira skilið og að þeir ætla að færa fé frá öðrum til hans. Vanmetakind- ur eiga það til að safnast saman í eina hjörð og jarma, en það breytir engu um þessi rök. IV. Við höfum fært rök fyrir þvi, að tekjujöfnun sé óframkvæmanleg án ofbeldis og rekist því á frelsið í skilningi frjálshyggjumanna. Ádeilur Þorsteins á Friedman í þessu viðfangi eru í rauninni ekki annað en ádeilur á orðnotkun hans. En hvert er samband frelsisins við jafn- rétti og réttlæti? Ég er sammála Fried- man um, að frelsi og jafnrétti eru tvö hugtök um hið sama, jafnan rétt allra einstaklinganna til frelsis. Frelsið rekst ekki á jafnrétti, heldur á jöfnun. Þorsteinn kallar jöfnunina að vísu Jöfnuð", sem ég tel heldur óheppilegt. Að fornu voru menn taldir ójafnaðarmenn, ef þeir sættu sig ekki við sömu lög og aðrir, t.d. Hrafnkell Freysgoði. Mér finnst rétt að halda þessari fornu merkingu orðsins Jöfnuður", nota það í svipaðri merkingu og orðið „réttlæti" um það, að allir séu jafnir fyrir lögunum. En mestu máli skiptir þó, að hugtökin jafnrétti og jöfnun eru ólík og rekast jafnvel á. Jöfnun, þannig að allir verði jafnir að leikslokum, er stundum talin nauðsynleg af sanngirnisástæðum. Friedman deilir mjög á þá kenningu í bókinni Free to Choose, og Þorsteinn tekur að sér að svara honum. Rök Friedmans eru svipuð þeim rökum Hayeks, sem þegar hefur verið minnst á: Enginn algildur vísindalegur mælikvarði er til, sem nota má til að komast að því, hvað sé sanngirni í dreifingu lífsgæðanna. Hugmyndir manna um það rekast á. Þessa kenningu Fried- mans og Hayeks kallar Þorstein „fávíslega fordæmingu á sjálfri hugmyndinni um réttlæti". Þorsteinn misskilur þetta allt. Hvorki Friedman né Hayek neita því, að orðið „réttlæti" hafi skynsamlega merkingu. En þeir eru sammála um, að enginn nothæfur mælikvarði sé til á sanngirni. (Friedman notar orðið „fair- ness“ í þessu viðfangi, sem Þorsteinn íslenskar „réttlæti", en það er hæpið. „Sanngirni" kemst nær merkingu enska orðsins, og sanngirni er miklu óákveðnara hugtak en réttlæti. Þorsteinn hikar ekki við að hagræða orðum, ef honum þurfa þykir.) Mér finnst, að Þorsteinn eigi að láta okkur hina vita, ef hann hefur fundið sjálfa sanngirnina, jafnvel „innsta eðli“ hennar, en þangað til hljótum við að efast. Þorsteinn hafnar kenningu Friedmans án nokkurra raka. En síðan deilir hann á hann fyrir að nota hugtakið sanngirni, sem hann hafi þó talið ónothæft. Fried- man segir í bók sinni, að jöfnunarsinnum finnist ósanngjarnt, þegar börn njóti þess í lífinu að eiga efnafólk að foreldrum. Friedman tekur undir þetta, en segir, að lífið sjálft sé ósanngjarnt. Athugasemd Þorsteins er reyndar ekki út í bláinn. Friedman notar orð ónákvæmlega. En enginn vandi er þó að skilja hvað hann á við. Hann á við það, að það, sem gerir menn eftirsótta eða auðveldar þeim lífið, fær aðra m.ö.o. til að velja þá, er ekki komið undir þeim sjálfum í öllu. Það dreifist ekki á þá eftir neinum sanngirn- issjónarmiðum. Er það sanngjarnt, að ein stúlkan sé miklu fallegri en önnur? Eða að einn drengurinn hafi miklu meiri náms- hæfni en annar? Eða að eitt barnið hljóti miklu meiri arf en annað? (í þessu viðfangi skiptir ekki máli, hvað það er, sem börnin fá í vöggugjöf, en Þorsteinn hneykslast mjög á því, að Friedman geri ekki greinarmun á erfðum og arfi.) Við getum kallað þessa ónákvæmni Friedmans „mótsögn", ef við kærum okkur um, en það haggar hvorugri kenningu hans: að enginn algildur eða vísindalegur mælikvarði sé til á sanngirni í dreifingu lífsgæðanna og að skerfur manna sé ekki og geti ekki verið kominn undir þeim sjálfum í öllu. En Þorsteinn telur sig finna aðra mótsögn í máli Friedmans. Friedman bendir á, að fé sé fært frá efnalitlu fólki til riks, þegar framhaldsskólaganga er ekki kostuð af þeim, sem hennar njóta, heldur af almannafé. (Þetta sýna rannsóknir í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú, að miklu fleiri börn ríks fólks en efnalítils ganga í framhaldsskóla, en efnalítið fólk er miklu fleira en ríkt og greiðir þess vegna miklu stærri hluta af sköttum.) Friedman segir, að þessi tekjutilfærsla sé ranglát. Ég vek athygli á, að hann notar ekki orðið „ósanngjarn", þ.e. „unfair", heldur orðið „unequitable", þótt Þorsteinn noti sama orðið um þetta hvort tveggja og telji sig í því finna mótsögn. En að sjálfsögðu er þessi tekjutilfærsla ranglát (eins og öll önnur tilfærsla, því að réttur þess, sem tekið er frá, til að velja er brotinn), en jöfnunarsinnar ættu ekki síst að taka undir það. Hvers vegna reyna jöfnunarsinnar allt- af að breyta þeirri dreifingu lífsgæðanna, sem verður til á markaðnum? Vegna þess að þeir sætta sig ekki við val einstakl- inganna, sem dreifingin ræðst af, er eitt svarið. Ég skil það vel, að Þorsteinn og aðrir menntamenn geti illa sætt sig við það, að Bjöggi eða Tommi í Tommaham- borgurum séu valdir af fleiri mönnum en þeir. En það afsakar ekki tilhneigingu þeirra til að skálda upp kenningar um, að eðlilegt sé að nota ríkisvaldið til að.breyta þessu vali. Við erum flestir sammála um, að hæfni manna á að ráða því, hvað þeir fá í sinn skerf af iífsgæðunum. En spurning- in er sú, hver á að fella dóm um hæfnina. Eina skynsamlega svarið er, að það eigi aðrir einstaklingar að gera með vali sínu. Það felur það síðan í sér, að markaðurinn eigi að dreifa lífsgæðunum. Eða hver er sá alvitringur, að hann geti tekið það að sér? Eða sá hópur, sem getur náð samkomulagi um dreifinguna? Þegar hefur verið minnst á þá tekjutil- færslu, þegar ríkið veitir sumum þjónustu, sem allir bera kostnaðinn af. Friedman tekur dæmi af framhaldsskólagöngu. Þorsteinn tekur annað dæmi — af „þörfum þjóðfélags fyrir listir og vísindi" eins og hann segir, en hann telur Friedman ekki svara því með neinum rökum, hvernig þeim eigi að fullnægja. (Ég get ekki stillt mig um að benda á eina mótsögn í þessu máli Þorsteins. Hann hneykslaðist á því, að Friedman segði, að „lífið" væri ósann- gjarnt, með því að ósanngirni mætti aðeins eigna einstaklingum. Getum við ekki með sömu rökum hneykslast á Þorsteini, sem segir, að „þjóðfélag" hafi þarfir, með því að þörf má aðeins eigna einstaklingum?) Vera kann, að færa megi rök fyrir ríkisafskiptum af listum og vísindum. Þessar greinar eru þó blómleg- astar í Bandaríkjunum, þar sem einka- framtakið annast þær einkum. Annað mál er það, að við höfum að sjálfsögðu óteljandi þarfir, ef við getum komið kostnaðinum af að fullnægja þeim á einhverja aðra. En er ekkert réttlæti til? Er þetta gamla hugtak gagnslaust? Því fer fjarri. Ég held, að réttlæti hljóti að miðast við skipti einstaklinga, en ekki þá skiptingu. sem verður til úr þeim, því að hún er síbreytileg. M.ö.o. getum við ekki sagt um skiptinguina í heild, að hún sé réttlát eða ranglát. Réttlæti er, ef og þegar menn virða þann jafna rétt einstaklinganna til frelsis, sem orðin „frelsi" og Jafnrétti" merkja bæði. En að lokum langar mig til að svara einni spurningu, sem einhverjir lesendur hafa líklega: Er þetta ekki heldur hörð kenning? Vantar ekki einhverja mannúð í hana, einhverja samúð með lítilmagnanum? Svarið er, að það sé ekki til marks um mikla mannúð að reyna að beita ofbeldi til að breyta vali einstakl- inganna. Og reynslan sýnir, að lítilmagn- inn er best kominn í frjálsræðisskipulagi, kjör hans hafa miklu fremur batnað síðustu tvö hundruð árin á Vesturlöndum en kjör efnafólks. Frelsið — frelsi í skilningi Freidmans og annarra frjáls- hyggjumanna — er skilyrði fyrir þeim framförum, sem eru nauðsynlegar til þess að útrýma fátæktinni og öðru böli af jörðinni.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.