Morgunblaðið - 26.10.1984, Page 50
50
MORGUNBLAÐID, FÖSTUDAGUR 26. OKTÓBER 1984
Júlía Sveinbjarnar-
dóttir — Minning
Fedd 29. igúst 1931
Dáin 21. olctóber 1984
Köld birta hausts og hrímhvit
fjöll minna okkur þessa daga á að
enn eitt sumar er gengið hjá. Á
huga sumra sækir angurværð yfir
hve hratt það hefur liðið og kemur
aldrei aftur. í kvöldgustinum sem
feykir burt laufum vorsins barst
sú fregn fyrir fáum dögum að ein
af liljum þeim sem prýddu völl
okkar fámennu þjóðar, Júlía
Sveinbjarnardóttir, Lólí, eins og
hún nefndist i vinahópi, væri ekki
lengur meðal okkar og mörgum
finnst að ævisumar hennar yrði
helst til skammt. En þó lauk hér
langri, hetjulegri en vonlausri
baráttu.
Júlia var eldri dóttir hinna al-
kunnu hjóna, Soffíu Ingvarsdóttur
og Sveinbjarnar Sigurjónssonar,
fyrrverandi skólastjóra. Bar hún
nafn móðurömmu sinnar, Júlíu
Guðmundsdóttur frá Keldum á
Rangárvöllum, konu Ingvars
Nikulássonar prests í Gaulverja-
bæ og síðar á Skeggjastöðum á
Langanesströnd. Stóðu að henni
ættir gáfu- og glæsifólks um Suð-
urland og víðar og kom brátt í ljós
að stúlkunni kippti i kynið.
Á foreldraheimili Júliu var
starfshyggja og dagfarsprýði aðal
og einkenni. Þar leið enginn dagur
svo að kvöldi að ekki hefði verið
unnið með alúð að einhverju þvi
sem fegrar og bætir mannlífið,
hvort sem sáð var frækorni þekk-
ingar i huga æskufólks i forsjá
menntamannsins, föður hennar;
hvatt til þjóðfélgslegra umbóta og
aukins réttlætis með félagsstarf-
semi húsfreyjunnar, eða hlúð að
blómi og tré i garði beggja. Það er
mikil gæfa hverjum ungling að
komast til vits og ára á slíku
æskuheimili og allt líf Júliu bar
þess vott hvert vegarnesti henni
var að heiman búið.
Þegar á barnsaldri komu ágætir
námshæfileikar Júliu í ljós og ekki
síst tónlistarhæfileikar. Hóf hún
nám í pianóleik hjá ágætum kenn-
urum og hélt síðan áfram þvi
námi í Tónlistarskólanum jafn
framt þvi að hún settist i mennta-
skóla. Megum við skólasystkini
hennar minnast margra ánægju-
legra stunda þegar hún skemmti
okkur með list sinni i skólahúsinu
gamla við Lækjargötu. Var hún þá
þegar orðinn ágætur píanóleikari
og lauk einnig stúdentsprófi korn-
ung, 1950, með mikilli prýði. Að
stúdentprófi loknu lá leiðin í Há-
skóla íslands þar sem hún lauk
prófi i tungumálanámi 1955, en
starfaði jafnframt á vegum ís-
lenskra flugfélaga og jók kunnáttu
sína enn með námsferðum til
Þýskalands og Danmerkur.
Á þeim árum kynntist hún eft-
irlifandi eiginmanni sínum, Bald-
vin Tryggvasyni, lögfræðing. Þau
gengu í hjónaband 1956 og eignuð-
ust tvo syni, Sveinbjörn rithöfund,
fæddur 27. ágúst 1957, og Tryggva
tónlistarnema, fæddur 4. ágúst
1965. Uppfrá þvi helgaði Júlia líf
sitt að mestu heimili sinu og börn-
um og var manni sínum stoð og
stytta í þeim mörgu og annríku
trúnaðarstörfum sem á hann hafa
hlaðist á sviði stjórnmála, bóka-
útgáfu, lista og fjármála. Hefur
heimili þeirra jafnan verið einkar
smekklegt og skemmtilegt enda
gestkvæmt þar i meira lagi. En
Júlía átti einnig áhugamál utan
heimilis sem hún sinnti eftir því
sem annir leyfðu. Auk tónlistar
fékkst hún á stundum við ritstörf
en ferðalög voru þó eitt hennar
aðalyndi. Hún kynnti sér ferðamál
og ferðaleiðsögn og varð brátt ein
helsta driffjöðrin í félagsskap
þeirrar nýju stéttar sem skapast
hefur á siðustu tveim áratugum
vegna síaukins ferðamanna-
straums til landsins. Hún sat i
stjórn Félags leiðsögumanna frá
stofnun þess og var formaður þess
frá 1979. Var hún vakin og sofin í
því að beina stefnu ferðamála í
menningarlegra horf en verið hef-
ur um sinn.
Þetta er i örfáum dráttum hin
ytri saga hæfileikakonu sem kall-
ast burt á miðri starfsævi í blóma
lífsins; lífsmynd sem þann er hér
stýrir penna skortir flest til að
draga upp af gjörhygli. Að dómi
þeirra sem þekkingu hafa, hefði
Júlía komist langt á listabrautum
þeim, sem hæfileikar hennar
stóðu til, hefði hún snúið á þær
leiðir alfarið. í stað þess gat hún
tekið undir orð Cornelíu Scipio, og
ótal annarra hæfileikakvenna á
öllum öldum, er hún benti á börn
sín og sagði að hér væru þau djásn
sem hún kysi að prýddu ævistarf
sitt.
Það er hins vegar harmsefni öll-
um, og þeim mest er þekktu best
að einmitt í þann mund sem hiut-
skipti því er hún hafði kosið sér,
var eðlilega að ljúka og hún hugði
gott til að takast á við ný verkefni
og áhugamál, kvaddi sá fylgdar-
maður dyra sem öllum vísar á veg
hinsta spölinn. Létti hann ekki af
návist sinni fyrr en hann nam
hina ungu konu á brott út fyrir
móðuna miklu síðastliðið sunnu-
dagskvöld. Baráttan var löng og
hörð og lengi var von um sigur. Og
slíkur var sálarstyrkur þessarar
konu að aldrei lét hún af vörum
sér æðruorð og átti jafnvel til að
hafa alvarlegustu læknisaðgerðir,
sem hún varð að gangast undir ár-
um saman, að gamanmálum. Eng-
an sem ekki þekkti til hefði mátt
gruna að undir glaðbeittu viðmóti
og lifandi áhuga á atburðum
stundarinnar leyndist vissa um
ægilegan dóm sem ekki yrði áfrýj-
að, aðeins skotið á óákveðinn
frest. Fáir, jafnvel þeir sem þótt-
ust þekkja til, hefðu trúað því að í
þessari lífsglöðu stúlku, sem
skoppaði með okkur út í kátt stúd-
entslífið 1950, byggi slíkt ofur-
magn kjarks og hetjulundar.
En
Þótt form þín hjúpi graflín granna
mynd
og geymi þögul moldin augun blá...
þá lifir minning Júlíu í hugum
allra þeirra sem hennar samfylgd-
ar nutu á því æviskeiði sem varði
alltof stutt.
Um leið og hér eru sendar þakk-
ir fyrir ævilöng kynni eru syrgj-
andi eiginmanni, sonum tveim og
tregandi systur sendar dýpstu
samúðarkveðjur og þó ekki síst
foreldrum hennar sem ellisár sjá
nú á bak ástkærri dóttur.
EJS
Mikilli og hetjulegri baráttu er
lokið og nú syrgja vinir merka öðl-
ingskonu.
Júlía brá birtu og yl yfir ná-
grennið á Kleifarvegi og fyrir það
skal nú þakkað.
Hún var sérstæð kona, gáfurnar
miklar eins og hún átti kyn til og
alla ævi efldi hún þekkingu sína á
hinum margvíslegustu sviðum.
Það var ekki komið að tómum kof-
unum þegar leitað var til Júlíu.
Samband Júlíu og Baldvins var
þannig, að margir mættu af læra.
Þar sat kærleikur og gagnkvæm
virðing í fyrirrúmi og umhyggju
fyrir velferð sonanna, Sveinbjarn-
ar og Tryggva, voru engin tak-
mörk sett.
Júlía naut sín sem leiðsögumaö-
ur. Afburða málakunnátta og víð-
tæk þekking á hinum ýmsu byggð-
um Islands gerði henni kleift að
miðla hundruðum útlendinga
haldgóðum upplýsingum um land
og þjóð og margt af þessu fólki
varð vinir hennar.
Að leiðarlokum þökkum við
Ragnheiður fjölskyldunni á Kleif-
arvegi 11 vináttu, sem aldrei hefir
borið skugga á.
Við munum ávallt minnast fríð-
leikskonunnar með ógleymanlega,
fallega brosið.
Innilegar samúðarkveðjur send-
um við Baldvin, sonunum, fjöl-
skyldum þeirra og öldruðum for-
eldrum og biðjum þeim öllum
Guðs blessunar.
Blessuð sé minning Júllu
Sveinbjarnardóttur.
Ágúst Bjarnason
Ég kynntist Júlíu fyrir 32 árum,
þegar við unnum sumarlangt í
gestamóttöku á hóteli. Unglingar
spyrja sjaldan um ættir og upp-
runa, en mér varð fljótlega ljóst
að Júlía kom frá vönduðu og
traustu menningarheimili. Hún
bar það með sér ómeðvitað, lát-
laus, hlý og gefandi. Eftir sumarið
skildi leiðir okkar, en lágu saman
aftur 17 árum síðar og þá á nám-
skeiði fyrir leiðsögumenn ferða-
fólks. Hún hafði gifst piltinum
sínum, Baldvin Tryggvasyni, og
þau höfðu eignast tvo efnilega
syni, Sveinbjörn og Tryggva.
Á leiðsögunámskeiðinu, sem var
stjórnað af Vigdísi Finnbogadótt-
ur, núverandi forseta íslands,
fylltumst við öll mikilli ábyrgðar-
tilfinningu gagnvart þessu þýð-
ingarmikla starfi sem okkur
fannst leiðsögustarfið vera. Eftir
að námskeiðinu lauk ákváðum við
nokkrar konur að hittast áfram,
setja okkur ákveðin verkefni til að
lesa og bera saman reynslu okkar
úr starfinu. Þar var Júlía traustur
hlekkur og ég minnist margra
stunda þegar hún kom með góðar
tillögur af sinni alkunnu hógværð.
Þegar Félag leiðsögumanna var
stofnað 1972 æxlaðist það ein-
hvern veginn þannig að nokkrar
úr hópnum voru kosnar í stjórn
félagsins og tók Júlía fljótlega við
gjaldkerastörfum. Við höfðum öll
háleitar hugmyndir um markmið
félagsins, vildum gera kröfur til
okkar sjálfra og settum af stað
öflugt fræðslustarf. Leiðsagan
skyldi viðurkennd sem starf og
gerð að vandaðri söluvöru. Komið
skyldi upp hóp af þjálfuðu fólki
sem væri tiltækt til leiðsögustarfa
þegar á þyrfti að halda. En brátt
tóku alvarlegri verkefni að berast
okkur eins og t.d. samræming
launa. Til þeirra hluta þekktum
við ekkert, en útveguðum okkur
kjarasamninga úr öllum áttum og
uppgötvuðum þar hugtök eins og
eftirvinna, orlof og lífeyrissjóður.
En okkur var fljótlega gert skilj-
anlegt að einu stéttarfélagi er ekki
ætlað að stökkva alskapað upp á
samningaborð í einu stökki. Með
slíka hluti er verslað, í pökkum, á
löngu tímabili. Sú harka og
ósveigjanleiki sem kjarasamning-
um fylgir fór illa með okkur, ekki
síst Júlíu sem var grandalaus og
hrekklaus að eðlisfari. Ég minnt-
ist stundanna, þegar við sátum
orðlaus af gangi mála, og hvernig
bjartsýni hennar hélt okkur gang-
andi. Þegar sjálfboðavinnan við
fræðslustarfið var farin að skipta
hundruðum klukkustunda, sagði
hún: Nú hljóta þeir að sjá hvað við
erum að gera.
Þegar undirrituð hætti for-
mennsku í félaginu 1979 var leitað
til Júlíu til að taka við. Þeim sem
hafa gefið tíma og krafta í ákveðið
verkefni er ekki sama hvað um
það verður. Júlía tók við verkefni
sem var rétt hafið og hélt því
áfram af miklum krafti. Hún hélt
merkinu hátt á loft og gerði það af
smekkvísi og glæsileik. Það kost-
aði elju og tíma sem fáir eru
reiðubúnir að gefa (í orðsins
fyllstu merkingu). Með hæversku
sinni ávann hún sér traust, bæði
samstarfsmanna og vinnuveit-
enda, en sýndi jafnframt þraut-
seigju og baráttuvilja sem virðist
nauðsynlegur í slíku starfi. Jafn-
framt formennsku í Félagi leið-
sögumanna átti Júlía sæti i stjórn
Alþjóðasambands leiðsögumanna
(IGC) og naut þar mikils álits og
trausts. Á hennar herðum hvíldi
skipulagning norræns leiðsögu-
mannamóts í Reykjavík vorið 1980
sem tókst með miklum ágætum.
Þrátt fyrir tímafrekt for-
mannsstarf vann Júlía áfram sem
leiðsögumaður á sumrin og þar
naut hún sín vel. Hún hafði góða
tungumálakunnáttu, var víðlesin
og vel heima í hinum mörgu mála-
flokkum sem leiðsögumenn þurfa
að fræða farþega sína um. Hún
var róleg og yfirveguð og þótt far-
þegarnir væru stundum margir
gaf hún sér tíma fyrir hvern og
einn og það streymdi frá henni
manngæska og hjartahlýja. Hún
skilaði ánægðum farþegum í
ferðalok eins og best sést á þeim
fjölda bréfa sem hún fékk frá far-
þegum sínum eftirá. Margir þeirra
sögðust ætla að koma til íslands
aftur af þeir fengju hana sem leið-
sögumann. Júlía var því góður
landkynnir.
En hversu önnum kafin sem
hún var í félags- og leiðsögustarfi
hafði hún tíma aflögu fyrir heim-
ili sitt og fjölskyldu. Þótt hún væri
nýkomin úr langri ferð fréttist oft
að þau hjónin hefðu boðið til sín
gestum, farið í leikhús, á tónleika
eða í stutta ferð með aldraða for-
eldra hennar. Um tíma sinnti hún
formannsstarfi í öðru félagi.
Þannig minntist ég Júlíu, sístarf-
andi og alltaf að. Hún sýndi fá-
dæma þrek þegar illskeyttur
sjúkdómur herjaði á, hvað eftir
annað, og hún lét það ekki aftra
sér í að sinna skyldustörfum
heima við eða út á við.
Hún gaf ekki kost á sér til
endurkjörs sem formaður Félags
leiðsögumanna sl. vor, þegar ljóst
var að sjúkdómurinn hafði enn
tekið sig upp. Hún barðist hetju-
lega og af æðruleysi og allt fram á
síðustu stundu voru málefni leið-
sögumanna ofarlega í huga henn-
ar og hún örvaði okkur til dáða.
Þannig var Júlía, gaf öðrum, þeg-
ar aðrir hefðu átt að gefa henni.
fslensk ferðaþjónusta hefur
misst góðan starfsmann. Ég er
þakklát fyrir að hafa fengið að
kynnast Júlíu og ég votta eftirlif-
andi eiginmanni hennar, sonum,
tengdadætrum, barnabörnum, for-
eldrum og öðrum ættingjum inni-
lega samúð.
Birna G. Bjarnleifsdóttir
í dag er til moldar borin vinur
minn og samherji, Júlía Svein-
bjarnardóttir, sem andaðist fyrir
aldur fram þann 21. okt. sl. eftir
langa og stranga sjúkdómslegu.
Kynni tókust með okkur Júlíu
fyrir tæpum 15 árum, er við hugð-
umst báðar hressa við þýsku-
kunnáttu okkar á námskeiði í Há-
skóla íslands. Vakti þessi hægláta,
kankvísa kona strax áhuga minn,
og fljótlega einnig traust mitt og
trúnað. Komst ég brátt að raun
um að Júlía átti sér brennandi
áhugamál, sem byggðist á djúpri
virðingu hennar fyrir landi okkar
og þjóð, bókmenntum og sögum.
Henni þótti sem sé ekki annað
sæmandi, en að þeir erlendu gest-
ur sem sæktu landið okkar heim,
færu héðan með skíra og sanna
mynd af landi og þjóð. Og til að
uppfræða þá þurfti að hennar
mati áhugasama fslenska leið-
sögumenn með staðgóða þekkingu
á þessum efnum. Með hógværum
sannfæringarkrafti tókst henni
auðveldlega að vekja áhuga minn
á hugsjóninni og starfinu. Það
með hófst áralangt samstarf
okkar sem leiðsögumenn erlendra
ferðamanna á sumrin og störf í
nefndum og stjórn Félags
leiðsögumanna að vetrinum. Síð-
ustu árin var Júlía í forsvari fyrir
leiðsögumenn og stjórnaði félag-
inu með styrkri hendi jafnframt
því sem hún hélt uppi þróttmiklu
félagslífi, þótt kraftar hennar
sjálfrar væru stundum af skorn-
um skammti.
Störf sín öll innti Júlía af hendi
af yfirvegun og rósemi. Það er
ekki svo að skilja að lognmolla
hafi einkennt samstarfið, þótt
hljóðlega væri farið. Því var öðru
nær. Skoðanir gátu verið skiptar
og stundum rökrætt af hita og eld-
móði, en ávallt með fullri vinsemd
og virðingu. Því miður kom sífellt
versnandi heilsufar í veg fyrir að
við leiðsögumenn nytum krafta
hennar þetta árið, þótt áhuginn
dofnaði ekki.
Baráttuna við illræmdan, lang-
varandi sjúkdóm háði Júlía af
þvílíkri þrautseigju og æðruleysi
að það hlýtur að hafa verið okkur
öllum, sem með fylgdust, lær-
dómsrík reynsla.
Ég kveð Júlíu með þakklæti og
votta Baldvini, sonum hennar og
foreldrum samúð mína.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V.B.)
Kristbjörg
Kveðja frá konum í Inner
Wheel.
Eiginkonur Rotarymanna víða
um lönd hafa með sér félagsskap,
sem kallast Inner Wheel og er
markmið meðal annars að auka
kynni og treysta vináttubönd.
Fyrsti íslenski hópurinn á þeim
vettvangi tók til starfa í Reykja-
vík fyrir mörgum árum. Starfsem-
in hefur dafnað og eflst, og eru
íslenzku deildirnar orðnar marg-
ar.
í dag er kvödd ein af stofnend-
um Inner Wheel, Júlía Svein-
bjarnardóttir, sem sinnt hefur
mörgum trúnaðarstörfum fyrir fé-
lagið bæði innan lands og sem
fulltrúi í alþjóðasamtökunum.
Júlía var einstök á allan hátt og
hlaut að veljast til slíkra starfa.
Hún kom alls staðar fram til góðs
með mildi sinni, samvizkusemi og
göfgi. Vonandi mun sá andi ríkja í
Inner Wheel um ókomin ár.
Inner Wheel-konur munu ætið
minnast Júlíu með gleði og þakk-
læti fyrir samverustundirnar og
virðingu fyrir framkomu hennar
alla. Blessuð sé minning hennar.
Júlía Sveinbjarnardóttir, fv.
formaður félags okkar, verður til
moldar borin í dag. Við, sem eftir
stöndum, sjáum stórt skarð fyrir
skildi. Við getum ekki annað gert
en að heita því að reyna af beztu
getu að halda uppi merkinu, sem
hún reisti. Hún var einn öflugasti
hornsteinn hins unga félags
okkar, sem þurfti styrka leiðsögu
á uppvaxtarárunum og hún veitti
því á minnisstæðan hátt. Félag
okkar er ennþá ungt en óeigin-
gjarnt starf brautryðjendanna
hefur markað stefnuna. Þau eru
ófá málin, sem Júlía lagði hart að
sér við og fórnaði ótakmörkuðum
tíma til að koma í höfn. Jafnvel
þeir sem mest störfuðu með henni
að félagsmálunum, geta ekki gert
sér fulla grein fyrir þeim tíma
sem það tók og þeim eldmóði, sem
knúði hana áfram. Við stöndum í
ævarandi þakkarskuld við hana,
bæði fyrir störf hennar og tæki-
færið til að þekkja þessa hjarta-
hlýju konu.
Júlía sat í stjórn Félags leið-
sögumanna frá stofnun þess og
var formaður frá 1979 allt til
febrúar sl.
Við kveðjum hana með sárum
söknuði en getum minnst hennar í
öllum störfum okkar að ferðamál-
um, þar sem spor hennar liggja
svo víða, auk þess sem einkunnar-
orð félags okkar áttu við engan
annan betur en hana: „Landinu
virðing — lífinu hlýja“.
Ættingjum og vandamönnum
sendum við hugheilar samúðar-
kveðjur.
Félag leiösögumanna
Júlía Sveinbjarnardóttir fædd-
ist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hún
lést á Landspítalanum 21. október
sl. eftir erfiða sjúkdómslegu, að-
eins 53 ára að aldri.
Faðir Júlíu er Sveinbjörn Sigur-
jónsson íslenskufræðingur og