Morgunblaðið - 17.02.1991, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 17.02.1991, Blaðsíða 5
leei íiAúflaa’i .vi auoAauviMue aiaAjanuoHOM MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17. FEBRÚAR 1991 3 C 5 Assýríukonungur á ljónaveiðum. Lágmyndir Assýríumanna voru listræn nýjung sem sýndu konunga þeirra í veraldarvafstri, svo sem á veiðum og í hernaði. Stytta sem talin er vera af Sargon, konungi Akkaða, en með honum urðu Semítar herrar Mesópótamíu. til sjö furðuverka veralda og hefur ekkert þeirra örvað ímyndunarafl fólks eins mikið og þessir fornfrægu garðar. Ekki eru til lýsingar á þeim eftir þálifandi menn, en sögurnar um þá geymdust í munnmælum sem eins konar goðsögn um jarðneska paradís. Heródót, sem kom til Babýl- on hálfri annarri öld eftir daga Ne- búkadnesars, lýsir görðunum sem röð af hvelfdum stöllum er mynduðu eins konar píramída, hver ofan á öðrum og hliðar þeirra hafí verið bornar uppi af tæplega 8 metra þykkum veggjum. A hveijum stalli var mold nógu djúp til að tré gætu fest þar rætur og í hana plantað alls konar ilmjurtum, runnum og skuggsælum trjám. Þrælar unnu dag og nótt við að dæla vatni úr Efrat um falið net af pípum sem lágu upp í efstu lög garðanna. Sagt er að Nebúkadnesar hafi látið reisa garð- ana handa konu sinni, Amýtis, dótt- ur Kyaxaress Medíukonungs, sem saknaði gróðursælla hæða heima- lands síns og kvaðst ekki þola ryk og svækju borgarinnar. Þarna gat drottningin dvalið ásamt hirðmeyj- um sínum fáklædd í skuggsælum lundum við höfuga angan ilmjurta og blóma meðan mannfólkið fyrir neðan stritaði í svita síns andlitis, vann og spann, margfaldaðist, sýkt- ist og dó. í þessu samhengi má nefna að einvaldsherrann í írak, Saddam Hussein, hefur stundum líkt sér við Nebúkadnesar og hefur hann eytt talsverðum fjármunum í að endur- byggja hina fornu borg Babýlon. Má þar meðal annars nefna veglega forsetahöll sem Saddam hefur verið að reisa sjálfum sér til dýrðar og segir sagan að hann hafi ennfremur haft á pijónunum áform um að end- urreisa hina svífandi aldingarða og verið þegar búinn að kosta milljónum dollara til. Þegar þessar línur eru ritaðar er ekkert sem bendir til að honum takist að ljúka því ætlunar- verki sínu og reyndar herma fregnir að forsetahöllin hin nýja hafi nú þegar verið lögð í rúst. Umhverfis hina fornu Babýlon lá borgarveggur sem Heródót segir hafa verið svo breiðan að ofan að á honum hefði mátt aka stórum vagni með fjórum hestum fyrir. Hið glæsi- lega Istharhlið var aðalinngangurinn í borgina. Það var tileinkað gyðjunni Isthar og klætt bláum gljáhúðuðum flísum með alls konar dýramyndum. Þýskir fornleifafræðingar grófu hlið- ið upp um síðustu aldamót og er það nú geymt í Asíusafninu í Berlín. Um borgina miðja rann pálmum skrýdd Efrat og segir sagan að undir fljótið hafi legið fimmtán feta breið jarð- göng, sem tengdu borgarhlutana báðum megin fljótsins. Babýlon varð miðstöð verslunar og samgangna og var auðlegð hennar og glæsileiki einna mestur á dögum Neþúkadnes- ars. Frásagnir Biblíunnar renna enn frekar stoðum undir dýrð Babels- borgar þótt ekki færi hjá því að einn- ig spynnust sögur um hið glaðværa og nautnaríka líf sem fólk lifði þar, enda fékk hún brátt á sig orð fyrir gjálífi. Gyðingar nefndu hana meðal annars „hina babelsku hóru“ og sagt er að Alexander mikla hafi blöskrað er hann kom þangað um hálfri þriðju öld eftir að veldi hennar var hvað mest. Árið 539 fyrir Krist lögðu Persar Babýlon undir sig og varð hún aldrei sjálfstæð borg eftir það. Eftir því sem ár og aldir liðu hnign- aði henni jafnt og þétt og um 200 árum eftir Krist. var ekkert eftir nema yfirgefnar rústir. Far þú burt úr landi þínu Ekki er unnt að skilja svo við sögu hinnar fornu Mesópótamíu án þess að getið sé um þátt Gyðinga. Er engu líkara en að allt frá dögum Abrahams til vorra daga hafi ósýni- legir örlagaþræðir verið spunnir þar á milli, ofnir úr hatri, mannvonsku og ofbeldi. Allt fram á þessa öld hafa Gyðingar jafnan verið í hlut- verki fórnarlambsins í þeim hildar/ leik þótt þeim hafi nú á allra sein- ustu árum tekist að snúa við blaðinu og bíta frá sér við vaxandi andúð manna víða um heim. En víst er að ísraelsmenn telja sig eiga harma að hefna jafnt í forsögunni sem nútím- anurn og skal engum getum að því leitt hvort þeir líti nú svo á að kom- ið sé að skuldadögum. Þótt fráleitt sé að taka Biblíuna sem trausta sagnfræðilega heimild verðum við að líta svo á að saga ísraels sé þar rakin rétt í grundvall- aratriðum. Biblían fræðir okkur á því að ísraelsmenn hafi allir verið komnir af Abraham, en fæðingar- borg hans er talin hafa verið Ur í Mesópótamíu. „Og Drottinn sagði við Abraham: Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins sem ég mun vísa þér á.“ (I. Mós.l2:l-2) Þetta land reyndist vera Kanaansland eða Palestína og þangað telja menn að Abraham, eða ef menn vilja heldur tala um semísku þjóðina ísraels- menn, hafi komið um 2000 árum fyrir Krist. Eins og allar þjóðflutn- ingaþjóðir komu Israelsmenn í mörg- um hópum inn til fýrirheitna lands- ins og líklega hafa þessir hópar haft mismunandi siðvenjur og trúarhug- myndir. Biblían segir að þessar kyn- kvíslir hafi verið 12 og skýrir það þannig að þær hafi verið komnar af 12 sonum Jakobs, öðru nafni ísra- el, en hann var sonur ísaks Abra- hamssonar. Ekki er ástæða til að fara hér út í frásagnir Biblíunnar af Egypta- landsdvöl ísraelsmanna og brottför- inni þaðan né öldunum þar á eftir, sem einkenndist af baráttu þjóðar- innar við Kanaaníta og nýja innrás- arþjóð er nefndist Filistear, en af þeirra nafni er komið heitið Palest- ína. Smám saman unnu ísraelsmenn borgir landsins, fyrst Jeríkó i tíð Jósúa, en Jerúsalem ekki fyrr en á dögum Davíðs nokkru eftir árið 1000 fyrir Krist. Á dögum Salómons kon- ungs klofnaði ríkið í tvo hluta og eftir hans dag varð sonur hans Re- hoboam konungur yfir tveimur kyn- kvíslum, þeim Júda og Benjamín, og var það ríki kallað Júdaríki, en hinar tíu mynduðu Ísraelsríki undir forystu Jeróbóams. Höfuðborg Júd- aríkis var Jerúsalem, en Ísraelsríkis Samaría. Upp frá þessu varð Palestína bar- áttuvöllur og bitbein hinna stærri ríkja og árið 722 tóku Assýríumenn Ísraelsríki og voru íbúar þess flestir herleiddir austur til Mesópótamíu. Eitthvað af fólki var í staðinn flutt frá Assýríu til Palestínu og blandað- ist það þeim sem eftir urðu og er sú blendingsþjóð það fólk sem síðan var nefnt Samverjar. Syðra ríkið, Júdaríki, féll fyrir Nebúkadnesar Babýloníukonungi árið 586 f. Kr. og hlaut svipuð örlög og Ísraelsríki. Nú höfðu bæði ríkr Israelsmanna verið að velli lögð og hefði mátt ætla að með því væri lokið sögu þeirra sem sérstakrar þjóðar. En trúin hélt þeim saman og þeir eign- uðust spámenn sem boðuðu kenning- ar er skírskotuðu til fólksins og fundu þar hljómgrunn. Trúin breytti hiijs vegar um svip á þessum þreng- ingartímum og það eru þær breyt- ingar sem gera Israelsmenn merki- lega í sögunni. Það er mikill munur á þeim guði sem áður stýrði hersveit- um ísraelsmanna í orrustum og heimtaði algera útrýmingu óvinanna og þeim guði sem til dæmis Jesaja boðar trú á. Engin trúarbrögð eru jafnnátengd sögu sjálfrar þjóðarinnar og Gyðing- dómurinn. Er engu líkara en Gyðing- ar hafi átt að sanna trúna á sjálfum sér, í hinum helstu viðburðum sinnar eigin sögu. Þannig eru herleiðing- arnar til Assýríu og Babýlons svo að segja söguleg nauðsyn og afguða- dýrkunin sem af þeim leiddi, en þess- ir atburðir knúðu spámennina til að lyfta guðshugmynd Gyðinga á sitt hæsta stig. Kalífarnir í Bagdad Skömmu fyrir fæðingu Krists varð Mesópótamía hluti af róm- verska heimsveldinu og hélst sú skipan næstu aldirnar, en á þessum tíma var hún stöðugt bitbein Róm- veija og Persa. Jóhannes þriðji var páfi í Róm þegar stofnandi Múham- eðstrúarinnar fæddist. Áður en hann fékk köllun sína var hann kallaður Múhameð, sem merkir „hinn lof- sungni" og voru trúarbrögðin nefnd' eftir honum, en þeir sem játa þau kalla þau „Islam“, sem þýðir „auð- sveipni" eða „algjör undirgefni“, enda kenna þau að eina skylda mannsins sé undirgefni undir Guðs vilja. Þegar Múhameð andaðist árið 632 lutu honum öll Arabalönd. Tengda- faðir Múhameðs, Abu Bekr, varð eftirmaður hans, það er kalífi, eða „fulltrúi spámannsins". Á eftir Abu komu þrír vinir Múhameðs og strangtrúaðir þeir Omar, Othman og Ali, og breiddist þá trúin ótrúlega hratt út, einkum á stjórnarárum Omars. Damaskus, höfuðborg Sýr- lands, féll árið 635, Jerúsalem árið eftir og Persía varð að láta af hendi Efrathéruðin árið 637. Egyptaland gafst upp 640 og röðin var komin að Persaveldi. Enn einu sinni var barist um hinar ævafornu borgir á bökkum Efrat og Tígris. Hin forna borg Persakonunga, Ktesifon við Tígris, var jöfnuð við jörðu. Zara- þústratrúin persneska þokaði fyrir Islam í austri og kristnin í vestri. Áður en Omar var myrtur, árið 644, hafði hann fært út veldi Múhameðs- trúarmanna allt að landamærum Indlands. Er ætt Abbasidda náði völdum í Arabaríkinu um 750 var stjórnarset- ur kalífanna flutt frá Damaskus til Bagdad, en þá borg létu þeir reisa austur við Tígris, í grennd við rústir Ktesifon. Var engu líkara en fornir dýrðardagar Babýlon væi-u nú runn- ir upp því í heimildum segir að „hvergi í víðri veröld gat að líta slík- an munað sem í Bagdad". Borgin var afar vel skipulögð frá upphafi, með breiðum strætum, flórlögðum götum og vel upplýstum. Bagdad varð miðstöð Islams og heimsmenn- ingarinnar, en í listum og vísindum voru Arabar í fararbroddi um þær mundir. Talið er að íbúatala í Bagdad hafi farið vel yfir milljón þegar vel- megun hennar var hvað mest á dög- um kalífanna. Hún var borg auðugra kaupmanna og iðnaðarmanna og vísindamenn, iæknar og verkfræð- ingar voru þar fjölmennir. Auk þess var þar mergð þræla frá öllum heimshomum, og gefur því auga leið að mannlífið hefur þar verið íjöl- skrúðugt. Borgin stóð á krossgötum fjölfarinna leiða og höfn var byggð upp með fljótinu. Allir stjórnartaum- ar hins víðlenda ríkis komu saman í höndum kalífans í Bagdad, sem hafði skara embættismanna á að skipa. Þar var stórvesírinn fremstur í flokki. í ævintýrasafninu „Þúsund og ein nótt“ eru skemmtilegar lýs- ingar á lífinu í Bagdad, eins og það var í tíð hins nafntogaða kalífa Har- un al Rashid (766-809), en hann var fimmti kalífi af ætt Abbasidda, sem komnir voru beint frá Múhameð. í fótspor kalífanna Margt bendir til að Saddam Huss- ein hafi litið á sig sem arftaka kalíf- anna í Bagdad og alið þann draum í bijósti að sameina Áraba undir sinni stjórn. Ef til vill hefur hann ekki verið svo langt frá því ætlunar- verki er hann ákvað að innlima Kúveit í ríki sitt með þeim afleiðing- um að varia stendur nú steinn yfir steini í hinni fornfrægu borg kalíf- anna. En stórveldi rísa og stórveldi hníga. Arabíska stórveldinu hnign- aði mjög eftir að herir Djengis Khan tóku að flæða yfir landið úr austri um og eftir 1200. Laust eftir 1530 náðu Tyrkir völdum í Mesópótamíu og var landið síðan undir hæl Tyrkja- veldis til ársins 1914 er Bretar lýstu stríði á hendur Tyrkjum. Bagdad hertóku þeir árið 1917. Árið 1920 gerðu þjóðernissinnaðir írakar uppreisn gegn Bretum og Faisal varð konungur með stuðningi Breta og Frakka og réðu Bretar áfram miklu í landinu. Árið 1958 yar Faisal II. ráðinn af dögum og írak var lýst sjálfstætt og fullvalda ríki undir forsæti Abdul Karim Kass- em hershöfðingja. Baath- flokkurinn komst síðan til valda í friðsamlegri byltingu árið 1968 og Ahmed Hasan al-Bakr varð forseti og gekk Saddam Hussein næstur honum að völdum. Hann varð síðan forseti og einvaldur í írak 1979 er Bakr lét af völdum af heilsufarsástæðum. Saga einræðisherrans í Bagdad verður ekki rakin hér og ekki heldur tildrög þess að styijaldarástand hef- ur enn á ný brotist út á bökkum Efrat og Tígris. Engum getum skal heldur að því leitt liveijar afleiðingar j þessa stríðs verða fyrir fólkið sem þar býr og raunar allt mannkyn. Tíminn mun leiða það í ljós og sjálf- sagt eiga menn eftir að velta orsök- um og afleiðingum þessarar styijald- ar fyrir sér um ókomna framtíð sem og öðrum atburðum sem þarna liafa átt sér stað frá því hámenningin tók þar sín fyrstu reikulu spor.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.